Hafa Samband
Opnunartímar móttöku
-
Mánudaga
9-16
-
Þriðjudaga
9-16
-
Miðvikudaga
9-16
-
Fimmtudaga
11-16
-
Föstudaga
9-16
-
Helgar
Lokað
Eitt af því sem flækist fyrir foreldrum sem vilja taka klámspjallið er hversu ólík reynsla og þekking barna er á klámi og kynlífi almennt. Mörg börn hafa aðgang að snjalltækjum og fara á netið á hverjum degi. Önnur alls ekki. Sum hafa aðgang að netinu í gegnum vini og búa þannig yfir þekkingu sem foreldrarnir halda jafnvel að sé ekki til staðar. Þekking barnsins á klámi þarf að stýra því að einhverju leyti hvernig samtalið er tekið, en óháð aðstæðum er mikilvægt að fræða öll börn um að þau geti rekist á myndefni sem veldur þeim vanlíðan eða sé óhollt fyrir þau. Barnið þarf að vita að það verði ekki skammað hafi það skoðað slíkt efni, og skuli láta foreldrið vita ef það hnýtur um þannig í framtíðinni.
Reyndu að spyrja opinna spurninga til að kanna hvað barnið veit, hlustaðu vel og reyndu að stýra samtalinu út frá orðum þess. Búðu þig þó líka undir það að barnið vilji sem minnst tjá sig og hitinn verði mestur á þér. Mundu að samtalið skiptir máli jafnvel þótt barnið segi sjálft ekki orð.
Hefur þú einhvern tímann séð eitthvað á netinu sem þú veist að er ekki fyrir börn?
Hefur vinur þinn eða vinkona séð eitthvað á netinu sem má ekki horfa á, eða sýnt þér svoleiðis?
Hvað hefur þú séð á netinu sem lét þér líða illa? / kom þér á óvart? / var skrýtið?
Heyrðu ég var á TikTok um daginn og sá myndband sem lét mér ekki líða vel. Hefur þú einhvern tímann lent í því? Hvað fannst þér um það sem þú sást? Er eitthvað sem þú vilt spyrja varðandi það? (Hér er hægt að koma með dæmi ótengd klámi sem þér finnst henta þínu barni – um hluti sem geta verið óþægilegir að sjá á netinu: Iðandi köngulær? Hákarl étur manneskju?).
Hvernig myndirðu bregðast við ef vinur þinn vildi sýna þér eitthvað sem þig langar ekki að sjá?
Ef barnið notar orðið klám eða porn getur þú notað það orð líka. En ef barnið nefnir orðið ekki beint, skalt þú ekki gera það heldur. Það minnkar líkurnar á að barnið verði forvitið og rannsaki orðið á netinu. Það er vel hægt að ræða um klám við ungt barn án þess að kynna þessi hugtök sérstaklega. Talaðu frekar um nakta líkama, eitthvað sem er fyrir fullorðna en ekki fyrir börn, eitthvað sem barnið sá mögulega og skildi ekki; fannst skrýtið/spennandi/ óþægilegt/ógeðslegt. Þú munt líklega fljótt skynja hvort barnið veit hvað þú átt við ef þú nefnir „myndir og myndbönd á netinu með allsberu fólki“. Forðastu að gefa barninu grafískar eða dramatískar lýsingar á klámi en ef barn lýsir klámatriði sem það hefur séð, þarf að taka yfirvegaða og rólega umræðu og hjálpa barninu að vinna úr þeirri reynslu. Neðar eru leiðbeiningar varðandi barn sem þegar hefur séð klám.