Þjónusta og fræðluefni fyrir karlkyns brotaþola

Einstaklingsviðtöl (á staðnum, símaviðtöl eða Skype), sjálfshjálparhópar fyrir karla og „Strákarnir á Stígó“ – mánaðarleg sjálfshjálparkvöld.

Stígamót hafa gefið út bækling fyrir og um karlkyns brotaþola kynferðisofbeldis. Hægt er að nálgast bæklinginn í prentaðri útgáfu hjá Stígamótum.

Karlkyns brotaþolar á Stígamótum

  • Eru 10-20% þeirra brotaþola kynferðisofbeldis sem leita til Stígamóta árlega.

  • Rúmlega helmingur þeirra karla sem leita til Stígamóta urðu fyrir kynferðisofbeldi sem börn.

  • Hærra hlutfall karla en kvenna upplifir reiði sem afleiðingu, auk þess nefna fleiri karlar að áfengis- og vímuefnaneysla, sem og klámnotkun, hafi haft neikvæð áhrif á lífsgæði þeirra.

  • Karlar leita sér oft aðstoðar árum og jafnvel áratugum eftir að brotið var á þeim.

Kyn gerenda í málum karlkyns brotaþola

Sá sem beitir ofbeldinu ber alltaf ábyrgð
á því en ekki brotaþoli.

  • Karl

    85%

  • Kona

    9%

  • Karl og Kona

    6%

(Skv. komuskýrslum Stígamóta 2011-2013)

Kröfur til Karla

Menning okkar gerir oft þær ósanngjörnu kröfur til karla að þeir eigi:

  • … að hafa stjórn á öllum sviðum lífsins, þannig að þegar og ef karl er beittur kynferðisofbeldi, þá ætti hann að geta stoppað þann sem beitir ofbeldinu.

  • … að vera til í kynlíf hvar sem er, hvenær sem er og með nánast hverjum sem er. Annað sé merki um skerta karlmennsku og getuleysi.

  • … ekki að þurfa að leita sér hjálpar þegar þeir verða fyrir áföllum.

  • Margir karlar kenna sér um að hafa ekki haft stjórn á gerandanum eins og „alvöru“ karlar eiga að geta gert í hvaða aðstæðum sem er.

Helsta ástæðan fyrir því að karlar leita sér ekki hjálpar er sú skömm, sektarkennd og sjálfsásakanir sem þeir finna fyrir og fylgja oft brotaþolum kynferðisofbeldis. Þessum tilfinningum er svo viðhaldið með samfélagslegum ranghugmyndum um karlmennsku annars vegar og kynferðisofbeldi hins vegar.

Þau sem beita ofbeldinu eru til dæmis:

Sá sem beitir ofbeldinu ber alltaf ábyrgð á því en ekki brotaþoli.

  • Vinir
  • Vinnufélagar
  • Umönnunaraðilar
  • Makar
  • Skólafélagar
  • Þjálfarar
  • Ættingjar
  • Ókunnugir
  • Fjölskylduvinir
  • Kunningjar
  • Kennarar
  • Nágrannar

Goðsagnir um karlkyns brotaþola

  • Drengir og karlar geta ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi.

  • Karlar geta ekki beitt aðra karla kynferðisofbeldi.

  • Drengir verða oftast fyrir kynferðisofbeldi að hálfu samkynhneigðra karla.

  • Ef karlar upplifa kynferðislega örvun eða fullnægingu á meðan á kynferðisofbeldinu stendur, þá hljóta þeir að vera þátttakendur og njóta athafnarinnar.

  • Drengir sem eru misnotaðir af karli verða samkynhneigðir.

  • Þeir sem eru kynferðislega misnotaðir munu misnota aðra.

  • Ef ofbeldið er framið af konu ætti drengurinn eða karlmaðurinn að álíta sjálfan sig heppinn.

True False Section

RÉTT er: Karlar verða fyrir kynferðisofbeldi, bæði sem börn og á fullorðins aldri. Afleiðingar þess eru mjög skaðlegar og geta dregið verulega úr lífsgæðum þeirra.

Viðbrögð við kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi getur verið mikið og óvænt áfall. Við bregðumst við áföllum á ólíka vegu. Öll viðbrögð eru eðlileg og rétt. Það er eðlilegt að frjósa eða gera ýmislegt til að draga úr skaða og það er jafn eðlilegt og að berjast á móti eða reyna að flýja. Það er eðlilegt að upplifa vanmátt þegar maður missir stjórnina og valdið er tekið af manni. Það er eðlilegt að muna ekkert eða ekki nákvæmlega hvað gerðist. Það er eðlilegt að segja ekki frá.

Afleiðingar

Geta verið mismunandi hjá ólíkum einstaklingum.

  • Lágt sjálfsmat

    Að skammast sín og upplifa sig óhreinan, máttlausan, óverðugan og vitlausan.

  • Fíkn/þráhyggja

    Stjórnlaus notkun á áfengi, vímuefnum, kynlífi eða mat. Óhófleg innkaup, veðmál, líkamsrækt eða vinna til að deyfa erfiðar tilfinningar eða minningar.

  • Kynlífsörðugleikar

    Hræðsla við kynlíf; doði eða svipmyndir á meðan á kynlífi stendur; stunda oft kynlíf með ókunnugum; mikil sjálfsfróun og klámnotkun.

  • Sambandsörðugleikar/erfiðleikar í samskiptum

    Erfitt að viðhalda vináttu-, vinnu- eða ástarsamböndum.

  • Þunglyndi

    Loka fyrir tilfinningar; byrgja vandamál inni; geta ekki notið athafna sem voru áður skemmtilegar og gefandi; vonlaus um framtíðina.

  • Kvíði

    Upplifa stöðugan kvíða, kvíðaköst eða hræðslu sem tengjast ofbeldinu, eins og ákveðnir staðir, félagsskapur eða lykt o.s.frv.

  • Einangrun

    Forðast vini og/eða fjölskyldumeðlimi; erfitt að treysta öðrum.

  • Líkamleg einkenni

    Þrálátir líkamlegir verkir eins og höfuðverkur, magaverkur, þreyta og orkuleysi.

Ávinningur af úrvinnslu á afleiðingum kynferðisofbeldis

Er langtímaferli en getur falið í sér:

  • Að upplifa sig ekki sem fórnarlamb heldur manneskju sem lifði atburðinn af.

  • Að geta hugsað um atburðinn án þess að missa stjórn á tilfinningum sínum.

  • Að staðsetja sökina og skömmina ekki hjá sér heldur hjá þeim sem beitti ofbeldinu.

  • Að minningarnar hellist ekki óboðnar yfir viðkomandi í formi t.d. martraða eða svipmynda.

  • Að dregið hefur úr ótta, reiði, kvíða, depurð og einangrun.

  • Að kynlífsörðugleikar eru víkjandi.

  • Að líta ekki á sig sem annars flokks, eða skemmdan heldur finna fyrir innri styrk og gildi sínu sem einstaklingur.

  • Í stað sjálfsásakana er sjálfstraust og sjálfsvirðing ríkjandi.

  • Að samskipti við ástvini, vini og vinnufélaga batna og verða einlæg og gefandi.

Öll þjónusta er ókeypis. Fullum trúnaði er heitið.

Hægt er að panta tíma hjá karlkyns eða kvenkyns ráðgjafa. Fyrir frekari upplýsingar, hafðu samband.