Ekki kynfræðslan sem við viljum

Í dag er staðan sú að næstum helmingur drengja í 10. bekk horfir á klám mjög reglulega (frá vikulega upp í oft á dag). Sú upplýsingagjöf er því margföld – þúsundföld – á við raunverulega kynfræðslu til ungmenna þar sem áhersla er lögð á samskipti og samþykki í kynlífi, öryggi og vellíðan. Neysla kláms er orðin það almenn, og hefst það snemma, að fólk sem vinnur með börnum og unglingum sér áþreifanleg áhrif kláms á samskipti þeirra – markaleysi, virðingarleysi, óvelkomnar snertingar og gróft klámtal. Þau sem sinna ungum brotaþolum kynferðisofbeldis sjá í vaxandi mæli sterk tengsl á milli vinsælla klámatriða og lýsinga þolenda á ofbeldinu.

Fræðum börnin betur

Þessi veruleiki krefur foreldra um að leggja snemma góðan grunn að gagnlegri kynfræðslu, og í netvæddu nútímasamfélagi er nauðsynlegt að flétta saman kynfræðslu og klámfræðslu. Vegna umfangs og aðgengis kláms er mikilvægt að foreldrar fræði börnin sín um skaðsemi þess, og reyni að koma í veg fyrir eða bregðast við klámáhorfi þeirra.

Hvert ungmenni ætti að búa við frelsi til að upplifa sig sem kynveru, óháð viðmiðum klámefnis sem framleitt er sem söluvara en ekki kynfræðsla. Klámframleiðendur eiga ekki að hafa það vald að kenna krökkum til hvers er ætlast af þeim sem kynverur.

Öll eigum við skilið að nálgast kynlíf á jákvæðan, skemmtilegan og öruggan hátt á okkar eigin forsendum. Að fikra sig áfram í rólegheitum er mikilvægur hluti þess að þróast sem kynvera. En með hinu galopna aðgengi að grófu klámi má segja að mörgum ungmennum hafi verið harkalega skellt upp á mótorhjól þegar kemur að kynlífi, en misst af bæði þríhjólinu og reiðhjólinu í byrjun. Til að styðja sem best við kynheilbrigði þarf að búa til styðjandi og öruggt umhverfi þar sem unga fólkið getur leitað upplýsinga, spurt spurninga og fengið í hendur tæki og tól sem nýtast út í lífið.

Þú þekkir þitt barn

Marga foreldra óar þó við að taka þetta mikilvæga spjall við barnið; þykir tilhugsunin ógnvekjandi eða vandræðaleg, óttast að barnið sé of ungt fyrir upplýsingarnar eða finnst þeir sjálfir ekki hafa næga þekkingu til að fræða afkvæmin. Því urðu til eftirfarandi leiðbeiningar, m.a. byggðar á rýnihópaviðtölum við foreldra um hvað slíkar leiðbeiningar þyrftu að innihalda.

Hvernig opna skal umræðuna um klám byggir að miklu leyti á aldri þíns barns, sem og þekkingu þess á klámi og kynlífi. Leiðbeiningarnar eru skrifaðar með ólíka aldurshópa í huga, en mundu að þú ert sérfræðingur í þínu barni. Hafðu því í huga þroska, þekkingu, umhverfi og aðstæður barnsins þíns.

Ertu til dæmis nokkuð viss um að það hafi ekki séð klám en vilt taka fyrirbyggjandi samtal? Eða liggur klámnotkun barnsins fyrir og þú vilt bregðast við? Ógerlegt er að alhæfa um hvar öll börn á ákveðnum aldri eru stödd í málinu og því heppilegast að renna yfir leiðbeiningarnar varðandi báða aldurshópa til að finna hvaða nálgun hentar best ykkar samtali.

Ekki forðast samtalið

Hafðu loks í huga að spjall af þessu tagi er gott að taka oftar en einu sinni, og opin og fræðandi umræða á heimilinu um kynlíf og almenn mörk er mikilvæg forvörn í baráttunni gegn kynferðisofbeldi og óheilbrigðum samskiptum. Umræðuefnið er ekki endilega lokkandi og ótti við að finna ekki „réttu orðin“ hræðir suma foreldra frá slíkum samtölum. En mundu að mikilvægustu samtölin við börnin okkar eru kannski sjaldnast þægileg og áreynslulaus, en mestu máli skiptir að reyna og grípa sem flest tækifæri til fræðandi umræðu.

Ekkert samtal er fullkomið, frekar en nokkurt foreldri, en öllu skiptir að gefa ungmenninu skýr skilaboð um að þér sé annt um velferð þess og kynheilbrigði. Svo annt að þú ert jafnvel til í vandræðagang af versta tagi í von um að styrkja barnið þitt.