Meginmarkmiðin með stofnun Stígamóta eru annars vegar að þau séu staður sem einstaklingar sem beitt hafa verið kynferðisofbeldi geti leitað til og fengið stuðning. Hins vegar eru Stígamót baráttusamtök fyrir bættu samfélagi þar sem kynferðisofbeldi er ekki liðið.

Aðstoð við brotaþola

Vinnan á Stígamótum felst því í að gera einstaklinga meðvitaða um eigin styrk, aðstoða þá við að nota hann til að breyta eigin lífi og að sjá ofbeldið í félagslegu samhengi. Fólk sem leitar til Stígamóta ræður sjálft ferðinni, hve mikinn stuðning það vill og í hve langan tíma. Aðstandendur, svo sem foreldrar, makar og vinir geta einnig fengið stuðning og ráðgjöf á Stígamótum óski þeir þess.

Frá upphafi hafa Stígamót lagt kapp á það að þróa starfsemina á þann veg að ólíkir hópar brotþola upplifi sig velkomna, þar má meðal annars nefna karla, fatlað fólk, hinsegin fólk og fólk af erlendum uppruna. Jafnframt hafa Stígamót boðið upp á ráðgjöf á ýmsum stöðum utan höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við sveitarfélög á þeim svæðum. Öll þjónusta Stígamóta er ókeypis og því á færi allra að sækja hana óháð efnahag.

Baráttan gegn kynferðisofbeldi

Mikil áhersla er lögð á að veita fræðslu og upplýsingar um kynferðisofbeldi og afleiðingar þess. Boðið er upp á námskeið og fræðsluerindi um kynferðisofbeldi og hafa umsvif þessarar þjónustu farið vaxandi ár frá ári. Þá taka Stígamót virkan þátt í fjölmiðlaumræðu og vinna að því að skapa sem best tengsl við sem flesta samstarfsaðila og stjórnmálafólk m.a. með því að bjóða völdum hópum í eftirmiðdagskaffi hjá Stígamótum.

Stígamót skrifa umsagnir um þingmál og stunda öfluga fræðslu og kynningu í skólum, hjá félagasamtökum, starfshópum og fleirum og hafa í gegnum tíðina lagt áherslu á fjölbreytta kynningarstarfsemi svo sem ráðstefnur, auglýsingagerð, veggspjöld, málstofur, fjöldagöngur og ýmislegt fleira.

Starfið á Stígamótum er kostað af fjárframlögum ríkis, mánaðarlegra styrktaraðila stærri sveitarfélaga, ýmissa félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga. Öll þjónusta Stígamóta við þá er þangað leita ókeypis og hún er opin öllum þolendum kynferðisofbeldis eldri en 18 ára án tillits til búsetu þeirra. Með allar persónuupplýsingar er að sjálfsögðu farið sem algjört trúnaðarmál.