Þú hugsar kannski: „Af hverju í ósköpunum ætti ég að ræða um klám við barnið mitt? Það er svo ungt!“. En við síðustu könnun reyndist meðalaldur íslenskra drengja við fyrsta klámáhorf vera 11 ára, og er vafalítið enn lægri í dag því sú rannsókn er orðin 17 ára gömul. Svo mikið er til af klámi á netinu að einföldustu leitarorð geta kallað fram klámsenur. Börn leita ekki aðeins að klámi, klám leitar börnin líka uppi og poppar upp á ólíklegustu stöðum. Sumt klám er jafnvel sett fram í formi teiknimynda, tölvuleikja eða annars efnis sem lítur út fyrir að vera fyrir börn. Klám er ávanabindandi svo framleiðendur þess hagnast jú á því að ná neytendum snemma.

Rannsóknir sýna hins vegar að því yngri sem börn eru við fyrsta klámáhorf, því meiri líkur eru á vanlíðan þeirra. Börn eru sjaldnast búin undir sín fyrstu kynni af klámi. Klámefni sem ungt barn hrasar um getur því verið ógnvekjandi og ruglingslegt. Og þau sem leita klámið uppi í von um að sjá nakta líkama og spennandi kynlíf, geta hæglega lent á hrottalegu ofbeldi í staðinn.

Forvitni barna um kynlíf er heilbrigð og eðlileg, og skiljanlegt að óreynd ungmenni leiti í hið aðgengilega klám eftir upplýsingum og örvun. En klám getur hæglega stuðlað að ranghugmyndum um kynlíf og samskipti, og ógnað þannig framtíðar kynheilbrigði barna.

Klám er sannarlega ekki framleitt fyrir börn og fylgir engri námskrá eða jafnréttissjónarmiðum. Neysla kláms er þó orðin það almenn, og hefst það snemma að starfsfólk í umhverfi barna og unglinga sér áþreifanleg áhrif kláms á samskipti þeirra, ekki síst þegar kemur að kynferðisofbeldi og -áreitni.

Þetta krefur okkur foreldrana um að leggja snemma góðan grunn að gagnlegri kynfræðslu, og í netvæddu nútímasamfélagi er nauðsynlegt að flétta saman kynfræðslu og klámfræðslu. Hvert ungmenni ætti að búa við frelsi til að þróast sem kynvera, óháð viðmiðum klámefnis sem framleitt er sem söluvara en ekki kynfræðsla.

Mikilvægt er því að eiga samtalið snemma og láta barnið vita að heima megi bæði ræða klám og kynlíf. Börn ættu að vita að sumt getur skaðað heila þeirra og að klám er eitt af því. Óþarfi er að hræða þau, heldur útskýra vel hversu mikilvægt er að passa vel upp á ungan heila í mótun – við þurfum jú að nota hann ansi lengi og því helst í topp standi.

Mikilvægara en að eiga „hið fullkomna samtal“ við barnið um klám er að eiga samtalið yfirhöfuð.

Eins og með allar aðrar vangaveltur, tilfinningar og upplifanir barna viljum við að þau geti leitað til okkar með kynlífstengdar spurningar án ótta og skammar. Svo börnin viti að klám og kynhvöt er ekki leyniheimur sem halda skuli frá fullorðnum heldur megi einmitt ræða t.d. forvitni, sjálfsfróun, samskipti, líkama, óþægilegar uppákomur, ótta, skömm og ofbeldi við foreldra sína. Byggja má spjallið t.d. á því að þegar þú varst krakki hafir þú spáð í ýmislegt en aldrei þorað að spyrja, en það viljir þú ekki þínu barni. Nýjar rannsóknir sýna að af öllum í umhverfi þeirra vilja flest börn helst geta leitað til foreldra sinna til að ræða klám og kynlíf.

Þú, sem vilt barninu þínu allt það besta, hlýtur að vera öruggasti aðilinn til að leita til og munt að öllum líkindum gefa barninu heilbrigðari og öruggari svör en það fær eitt á vafri um skuggaheima Internetsins.