Varasamt er að ung börn eigi snjallsíma og komist greitt á samfélagsmiðla. Aldurstakmörk á slíkum miðlum eru sett af góðum ástæðum – til þess að verja börn frá hættulegu fólki og frá efni sem er ekki fyrir augu barna. Hægt er að setja upp síur á snjalltæki barna til að sporna við aðgengi þeirra að skaðlegu efni, en munum þó að klám leynist mjög víða og síurnar virka því ekki 100%. Börnin þurfa þó ekkert að vita af því og það eitt að tilkynna barni að á netnotkun fjölskyldunnar séu ýmsar síur getur vel haft fælingarmátt. Munum loks að gamaldags takkasími gerir fjölskyldunni vel kleift að ná í barnið og öfugt, og er því öruggara tæki en snjallsími.

Leiðbeiningar til að setja upp síur á snjalltæki > Skoða nánar

Foreldrar verða að vera meðvitaðir um hættur internetsins og íhuga hvort þeir í raun vilji galopna aðgang ungra barna að þeim heimi. Fullorðnir hafa t.d. leitað eftir samskiptum við börn í gegnum netið með að villa á sér heimildir, og mynda vinskap og traust við barnið á fölskum forsendum. Auðvelt er að tengjast nýju fólki í gegnum samfélagsmiðla og stundum fá krakkar vinabeiðni eða „add“ frá ókunnugum. Hægt er að bæta barni við hópspjall á Snapchat þrátt fyrir að barnið sé ekki vinur fólksins í spjallinu. Miðlar á borð við Youtube, TikTok, Instagram og Snapchat eru með 13 ára aldurstakmark.

Þrátt fyrir það eru á milli 69% og 90% íslenskra 9-12 ára barna á þessum miðlum, flest með leyfi foreldra sinna og fengu jafnvel aðstoð þeirra við að búa til aðganga. Þá er algengt að foreldrar viti aðeins af ákveðinni samfélagsmiðlanotkun barna sinna og fylgist jafnvel vel með á þeim vettvangi, en að börnin eigi til hliðar falda aðganga á ýmsum miðlum og noti samfélagsmiðla sem foreldranir þekkja ekki til.

Reglur um aldursviðmið:

Í leikjum á netinu

> Á samfélagsmiðlum

Útskýrðu fyrir barninu hvað samfélagsmiðlar eru. Þeir geri okkur kleift að tengjast fólki, deila efni og skoða hvað aðrir gera á sínum miðlum – og geti þannig verið mjög skemmtilegir og sniðugir, en líka verið hættulegir börnum. Því að á samfélagsmiðlum erum við, á einn eða annan hátt, aðgengileg öllum hinum sem nota sama miðil. Þótt flest fólk sem notar samfélagsmiðla sé gott fólk, eru því miður ekki allir öruggir. Til er fólk sem þykist vera annað en það er. Kenna skal börnum að vera á varðbergi gagnvart netvinum eða fylgjendum sem þau hafa aldrei hitt í persónu. Gott er að renna reglulega yfir vinalista barna sinna og spyrja út í nöfnin sem foreldrið kannast ekki við. Útskýrðu að þótt vinur á netinu geti vel verið jafnaldri og góður vinur, gæti hann líka verið hver sem er – jafnvel fullorðin manneskja með illt í hyggju að þykjast vera barn. Þess vegna þurfi sérstakar öryggisreglur varðandi samskipti á netinu.

Grein um tælingu á netinu (grooming): > Skoða nánar

Spurðu hvort barnið hafi einhvern tíma upplifað eitthvað óþægilegt í gegnum netið. Börn segja ekki endilega frá áreitni fullorðinna á netinu, heldur „blocka“ einfaldlega viðkomandi. Minntu barnið á að sömu reglur gilda á netinu og í raunheimum – að hlutverk foreldra sé að vernda og styðja börnin sín, og þurfi alltaf að vita af slæmum atburðum eða óþægilegum samskiptum í lífi barna. Því sé mikilvæg öryggisregla að segja foreldri frá ef barnið fær beiðnir á netinu um að spjalla, hittast, senda myndir eða aðrar upplýsingar. Fullvissaðu barnið um að það að segja frá slíku muni ekki kalla á skammir, t.d. ef það hefur nú þegar tekið þátt í óöruggum samskiptum á netinu. Aðalatriðið er að foreldrið eigi möguleika á að vernda og styðja barnið í aðstæðum þar sem hægt er að brjóta á því.

Finnst barninu það missa af ef það er ekki á netinu? Skoðið þá saman það efni sem barnið hefur áhuga á. Unglingar læra að keyra undir handleiðslu forráðamanna í heilt ár áður en ökuskírteini býðst þeim. Kennum börnum á netheima með sama hætti – undir okkar leiðsögn og vakandi auga.

Þótt „ÖLL HIN Í BEKKNUM!“ eigi snjallsíma eða séu á samfélagsmiðlum er á þína ábyrgð að vernda þitt barn og fylgja reglum um aldursviðmið. Útskýrðu fyrir barninu að sama hvað aðrar fjölskyldur kjósi að gera, ætli ykkar heimili að fylgja reglunum. Munum líka að „öll!“ á oft aðeins við um örfáa vini. Gagnlegt er að eiga góð tengsl við foreldra vina barnanna, t.d. til að bera saman bækur varðandi netnotkun og geta þá svarað „en öll hin mega?!“ á upplýstan hátt. Foreldrasáttmáli SAFT er upplagður, helst strax frá upphafi grunnskólagöngu.

„Samfélag, fjölskylda og tækni“ er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og ungmenna á Íslandi:

 

Fái barnið að nota snjalltæki, öpp og samfélagsmiðla er mikilvægt öryggisatriði að leggja á sig að læra hvernig þeir miðlar virka.

Börn og unglingar eru gjarnan mun betur að sér í tækni og miðlum sem eru vinsælir meðal þeirra jafnaldra en foreldrar þeirra, þvert á flest annað í heiminum sem getur ógnað heilsu barna. Gott er að spyrja barnið reglulega út í vinsælustu öppin, hvað sé að gerast þar og fá að sjá dæmi. Reynst hefur vel að setja „stafrænan útivistartíma“; skýr mörk um hvar og hvenær barnið má vera á netinu. Til dæmis ekki eitt í herberginu sínu, bara í x langan tíma á dag/viku, ekki við matarborðið eða nálægt háttatíma. Við foreldrarnir ættum líka skoða okkar eigin símanotkun og vera góðar fyrirmyndir. Mögulega eiga körfu sem geymir alla síma heimilisins á kvöldverðartíma og yfir nóttina?