Hér má finna lista yfir þá formlegu samstarfsvettvanga sem Stígamót taka þátt í en þess utan eiga Stígamót stöðugt í ýmsu óformlegu eða tímabundnu samráði og samvinnu við hina ýmsu aðila.

Bjarkarhlíð – Stígamót taka þátt í samstarfsverkefninu um Bjarkarhlíð og bjóða þar ráðgjöf. Jafnframt situr fulltrúi Stígamóta í framkvæmdastjórn, stjórn og mansalsteymi Bjarkarhlíðar. Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis þar sem brotaþolum gefst kostur á viðtölum og stuðningi frá fagaðilum, jafningjum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu.

Jafnréttisráð – Stígamót deila sæti í Jafnréttisráði með Kvennaathvarfinu. Hlutverk Jafnréttisráðs er að starfa í nánum tengslum við Jafnréttisstofu og vera ráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum er tengjast jafnrétti kynjanna.

Ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkurborgar – Stígamót sitja í ofbeldisvarnarnefnd ásamt fulltrúum borgarinnar, lögreglu, Kvennaathvarfsins og embættis landlæknis. Ofbeldisvarnarnefnd skal vera borgarstjórn og nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um aðgerðir og viðbrögð við ofbeldi í samfélaginu. Nefndin skal stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök, móta stefnu og gera tillögur til borgarráðs sem varða verksvið þess.

Samráðshóp­ur um aðgerðir gegn man­sali og ann­ars kon­ar hagnýt­ingu á vegum dómsmálaráðuneytisins – Hlut­verk samráðshóps­ins er að vera vett­vang­ur fyr­ir þá aðila sem eru ábyrg­ir fyr­ir aðgerðum sam­kvæmt áherslu­skjali stjórn­valda um aðgerðir gegn man­sali og ann­ars kon­ar hagnýt­ingu og annarra aðila sem hafa innsýn, þekk­ingu og reynslu á þessu sviði.

 

Alþjóðleg samstarfsverkefni

Alþjóðastarf Stígamóta hefur undið utan á sig undanfarin ár. Verkefnum hefur fjölgað og samstarf aukist. Alþjóðastarfið tryggir upplýsingaflæði um fyrirmyndarúrræði, fyrirmyndarlög, áhugaverðar rannsóknir, árangursríkar aðgerðir og mannréttindabaráttu almennt.

European Women’s Lobby

Stígamót eiga fulltrúa í EWL Observatory on Violence ásamt fulltrúum frá 32 löndum í Evrópu. Hlutverk hópsins er að vera með puttann á púlsinum varðandi þau málefni sem eru efst á baugi, hafa samráð um sameiginlegar aðgerðir og deila þekkingu.

CAP – Coalition Abolition Prostitution

Stígamót eiga aðild að CAP sem er alþjóðlegur samráðsvettvangur samtaka sem vinna með brotaþolum vændis. CAP beitir sér fyrir bættri löggjöf og stefnumótun sem hefur það að markmiði að draga úr eftirspurn eftir vændi og bæta aðstoð og þjónustu við brotaþola vændis.

WAVE – Women Against Violence Europe

Wave er samstarfsvettvangur evrópskra samtaka sem berjast gegn kynbundnu ofbeldi og veita brotaþolum þjónustu. Fulltrúi Stígamóta situr í Advisory Board hjá Wave.

Nordiske Kvinner Mot Vold

NKMV er norrænn samráðsvettvangur kvennaathvarfa og annarra samtaka sem veita brotaþolum kynbundins ofbeldis þjónustu. Ráðstefna er haldin árlega þar sem skipst er á upplýsingum og þekkingu um það sem er efst á baugi hverju sinni. Stígamót eiga fulltrúa í samráðshópi NKMV.

 

Meira um alþjóðastarfið má lesa í ársskýrslum.