Meðvitaðra samfélag

Vitundarvakning hefur þó átt sér stað á síðustu árum, þökk sé hugrekki og dugnaði sjálfra brotaþolanna sem sættu sig ekki lengur við að bera skömm og ábyrgð. Í dag er umræðan því orðin mun brotaþolavænni og fólk er meðvitaðra um að ábyrgðin á alltaf aðeins heima hjá þeim sem beitir ofbeldinu.

Kynferðisofbeldi er ofbeldi sem er oftast beitt af einhverjum sem við þekkjum og treystum. Það er auðvitað líka framið af ókunnugum en meirihluti þess á sér stað í skjóli trausts inni á heimilum fólks. Það gerir brotaþolanum gjarnan mjög erfitt fyrir því oft eru tilfinningatengsl til staðar sem geta flækt það að segja frá eða leita sér aðstoðar.

Birtingarmyndir kynferðisofbeldis

Kynferðisofbeldi á sér ýmsar birtingamyndir og felur ekki alltaf í sér líkamlega valdbeitingu eða jafnvel snertingu. Það er nóg að um einhvers konar kynferðislega hegðun sé að ræða sem ekki var samþykki fyrir, hvort sem það er í samskiptum í eigin persónu eða í gegnum stafræna miðla.

  • Nauðgun
  • Kynferðisofbeldi gegn
    börnum og sifjaspell
  • Vændi
  • Klám
  • Kynferðisofbeldi á netinu
  • Ofsóknir og umsáturseinelti
  • Stafrænt kynferðisofbeldi
  • Stofnanaofbeldi
  • Mansal
  • Ofbeldi í nánum samböndum
  • Kynferðisleg áreitni

Afleiðingar kynferðisofbeldis

Afleiðingar kynferðisofbeldis hafa oft víðtækari áhrif á líf brotaþola en þeir gera sér grein fyrir. Þú getur upplifað skömm, sektarkennd, kvíða, depurð og lélega sjálfsmynd og margt annað sem getur verið að hafa áhrif á samskipti þín og sambönd sem og almenna líðan.

Viðbrögð við kynferðisofbeldi

Við bregðumst við kynferðisofbeldinu á þann hátt sem var réttastur fyrir okkur á þeim tíma sem kynferðisofbeldið átti sér stað.

 

Það er mikilvægt að muna að öll viðbrögð okkar við og í kjölfar kynferðisofbeldis eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Það eru engin rétt eða röng viðbrögð.

Þegar við erum beitt kynferðisofbeldi erum við í hættulegum aðstæðum. Við þær aðstæður kallar heili okkar fram viðbrögð sem geta hjálpað okkur að lifa af. Þetta eru viðbrögð eins og til dæmis að frjósa, flýja eða berjast á móti. Þessi viðbrögð hafa hjálpað manneskjunni í gegnum tíðina að lifa af í hættulegum aðstæðum. 

Brotaþolar kynferðisofbeldis

Allir geta orðið fyrir kynferðisofbeldi og Stígamót leggja áherslu á að mæta þörfum ólíkra hópa.