Helstu birtingarform vændis:

  • Vændi í heimahúsi
  • Götuvændi
  • Fylgdarþjónusta
  • Nektardansstaðir
  • Vændishús
  • Klámiðnaðurinn
  • Stafrænt vændi

Vændi er samkvæmt íslenskum lögum kynferðisofbeldi

Kaup á vændi eru ólögleg en ekki sala á vændi. Kaup á vændi eru talin gróf valdbeiting, þar sem valdastaða þess sem kaupir vændi eða hefur milligöngu um það er í stöðu hins sterka. Einstaklingur sem kaupir vændi er í raun að nýta sér neyð þess sem selur. Afleiðingar vændis eru mjög svipaðar og hjá öðrum brotaþolum kynferðisofbeldis. Brotin sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, sjálfsásakanir, þunglyndi, skömm og sjálfvígshugleiðingar en tilraunir til sjálfsvíga eru algengari hjá brotaþolum vændis en annars kynferðisofbeldis.

Rannsóknir

Ótal rannsóknir sýna að einstaklingar sem selja vændi  hafa oftast verið beittir kynferðisofbeldi í æsku og hafa alla tíð staðið höllum fæti í lífinu. Jaðarsett fólk í samfélaginu eru útsettara fyrir vændi en fátækt og skortur á stuðningsneti eru þættir sem ýta fólki í þá örvæntingu sem vændi er. Að segja að vændi sé val, er afar hæpin fullyrðing og á í fæstum tilfellum við. 

Haustið 2022 kom út rannsókn á vegum Stígamóta um brotaþola vændis. Um er að ræða greiningu á tölfræðigögnum sem safnað er meðal þeirra sem sóttu þjónustu samtakanna vegna kynferðisofbeldis á árunum 2013-2021. Borinn var saman hópur kvenna sem voru brotaþolar vændis við aðra hópa kvenna sem ýmist höfðu upplifað sifjaspell, nauðgun eða bæði. Niðurstöðurnar sýna glögglega hvernig vændi er bæði neyðarráð kvenna sem eru í erfiðri félagslegri stöðu og hve alvarlegar og djúpstæðar afleiðingar vændis eru á líkamlega og andlega líðan brotaþola í kjölfarið.

Hér má finna samantekt með meginniðurstöðum myndum og töflum.

Hér má finna skýrsluna í heild sinni.

Hér má finna meginniðurstöður á ensku

Sænska leiðin

Á Íslandi er sænska leiðin í vændismálum farin en það þýðir að kaup og milliganga á vændi eru refsiverð en seljanda vændis er ekki refsað. Megin ástæðan fyrir því að þessi leið hefur verið farin byggist á kynja-, jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum.

Kynjasjónarmið skoða vændi út frá þeim aðstöðumun sem er á milli konunnar sem selur vændi og karlsins sem kaupir það. Út frá jafnréttissjónarmiðum er vændi afsprengi ójafnrar stöðu kynjanna; að kona noti líkama sinn sem söluvöru sé bein afleiðing af lakari stöðu hennar í samfélaginu.

Mannréttindasjónarmið leggja áherslu á að sérhver manneskja eigi rétt á frelsi, mannvirðingu og lífi án þvingunar. Á hinn bóginn sé þeim sem ekki njóta réttinda í tengslum við starf sitt í raun ókleift að tryggja mannréttindi sín.

Alþjóðasjónarmið vísa til þess að til þurfi að koma samstillt átak alþjóðasamfélagsins svo að unnt verði að vinna bug á vændi og mansali. Sé það ekki gert færist vandinn aðeins til en hverfi ekki.

Stígamót taka skýra afstöðu til vændis. Við teljum að sænska leiðin henti best til að vernda brotaþola vændis og lítum á vændi sem eina birtingamynd kynferðisofbeldis.

Umsagnir brotaþola vændis

Ég deyfði tilfinningar mínar, ég yfirgaf í rauninni líkama minn og fór á annan stað í huganum á meðan hann lauk sér af. Ég veit ekki hvernig ég get útskýrt hvernig þetta var. En mér leið eins og mér hefði verið nauðgað. Fyrir mér var þetta nauðgun.

Í hvaða starfsgrein mætir fólk öðru eins ofbeldi, verður ítrekað fyrir nauðgun, er myrt. Vændi er ekki vinna, vændi er ofbeldi og það er verið að normalísera það með því að kalla ofbeldi vinnu.