Stuttmyndir um ofbeldi gegn fötluðum konum

Stuttmyndin hér að ofan er ein af fimm sænskum stuttmyndum „Det finns stunder“ sem fjalla um ofbeldi gagnvart fötluðum konum. Stígamót fengu leyfi til að þýða og talsetja myndirnar með styrk frá Hlaðvarpanum og Öryrkjabandalagi Íslands. Þessar stuttmyndir eru notaðar í fræðslu og forvarnarstarfi Stígamóta en einnig er hægt að panta eintök af þeim á [email protected]. Frekari upplýsingar um framleiðslu myndanna er að finna á Amphi.

Hlutverk Stígamóta

Stígamót eru samtök sem aðstoða fólk sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi auk þess að berjast fyrir betra samfélagi án kynferðisofbeldis. Hingað kemur fólk 18 ára og eldra sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi.

Hægt er fá ókeypis viðtal við ráðgjafa til þess að segja frá ofbeldinu og hvernig manni líður. Ráðgjafinn aðstoðar fólk við að láta sér líða betur. Konur, karlar og fólk af öllum kynjum eru velkomin í viðtöl. Það skiptir engu máli hvort ofbeldið gerðist nýlega eða fyrir mörgum árum síðan.

Aðstandendur, til dæmis foreldrar, makar og vinir, geta líka fengið stuðning og ráðgjöf á Stígamótum.

Hvernig panta ég tíma?

Hægt er að panta tíma með því að hringja í síma 562-6868 eða senda póst á [email protected].

Við pöntum og greiðum fyrir táknmálstúlk fyrir heyrnarlaust fólk. Vinsamlegast látið vita við tímapöntun ef þörf er á túlki.

Stígamót eru á þriðju hæð á Höfðabakka 9, stóra bogadregna húsinu. Bílastæði fyrir fatlað fólk er beint fyrir utan innganginn og hjá Stígamótum er snyrting sem er aðgengileg fyrir hjólastóla. Gott aðgengi er frá bílastæði fatlaðra inn til Stígamóta. Lyfta er í húsinu og góðar merkingar.

Sumir geta ekki komið á Stígamót í viðtöl vegna til dæmis fötlunar eða veikinda og þá er reynt að mæta þörfum þeirra á annan hátt.

 • Fyrir hverja?

  Margir halda að það ofbeldi sem þeir voru beittir sé ekki nógu alvarlegt til að leita til Stígamóta. Kynferðisofbeldi er ekki bara líkamlegt ofbeldi heldur líka óvelkomin kynferðisleg hegðun með eða án snertingar. Til dæmis að vera látin horfa á klám eða kynlífsathafnir annarra. Ef þú telur þig hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og finnst þú bera afleiðingar þess þá er best að hringja í okkur og panta tíma.

 • Fatlað fólk og ofbeldi

  Rannsóknir sýna að fatlað fólk er í meiri áhættu fyrir því að verða fyrir ofbeldi en ófatlað fólk. Fatlaðar konur og fötluð börn eru í enn meiri áhættu. Oft er fatlað fólk orðið svo vant því að verða fyrir fordómum, niðurlægjandi viðhorfum eða lélegri þjónustu að það áttar sig ekki á því að það er að verða fyrir ofbeldi.

Mismunandi tegundir ofbeldis

Allir sem koma til Stígamóta hafa lent í einhvers konar kynferðislegu ofbeldi. Margir hafa einnig upplifað aðrar tegundir ofbeldis. Hér er listi yfir helstu tegundir ofbeldis og dæmi um hvernig það birtist:

 • Kynferðislegt ofbeldi

  Er til dæmis þegar einhver segir eitthvað eða gerir eitthvað við þig kynferðislega sem þú vilt ekki. Það getur verið að tala um kynlíf á þann hátt að þér finnst það óþægilegt, káfa á þér án þess að þú viljir það eða sýna þér klám þegar þú vilt það ekki.Ef einhver þvingar þig eða reynir að þvinga þig til að stunda kynlíf kallast það nauðgun.

 • Líkamlegt ofbeldi

  Er til dæmis þegar einhver lemur þig, klípur, sparkar í þig, slær þig eða veldur þér öðrum líkamlegum sársauka.

 • Tilfinningalegt ofbeldi

  Er til dæmis þegar einhver reynir að einangra þig eða koma í veg fyrir að þú hittir fjölskyldu þína eða vini, gerir lítið úr þér, lætur þér líða eins og það sé eitthvað að þér, niðurlægir þig eða fær þig til að upplifa skömm eða sektarkennd.

 • Fjárhagslegt ofbeldi

  Er til dæmis þegar þú færð ekki aðgang að peningunum þínum, þarft alltaf að biðja um pening, eða einhver þvingar þig til að skrifa undir lán.

 • Ofbeldi tengt skerðingu eða þjónustu þörf

  Er til dæmis þegar einhver færir hjálpartækin þín þannig að þú getur ekki notað þau, túlkar ekki fyrir þig eða túlkar vitlaust, gefur þér ekki lyfin þín.

 • Vanræksla

  Er til dæmis þegar þú færð ekki aðstoð þegar þú þarft á henni að halda eins og að komast á klósettið, fá aðstoð við neðanþvott, við að borða og fleira í þeim dúr.

Ástæður þess að fólk leitar til Stígamóta

 • Kynferðisofbeldi í æsku
 • Nauðgun
 • Vændi
 • Klám
 • Kynferðisleg áreitni
 • Kynferðislegar myndbirtingar
 • Grunur um nauðgun eða nauðgunar tilraun
 • Grunur um kynferðis ofbeldi
 • Hótanir um kynferðis ofbeldi
 • Klámnotkun aðstandanda
 • Mansal

Algengar afleiðingar kynferðisofbeldis eru til dæmis

 • Sektarkennd
 • Skömm
 • Kvíði
 • Léleg sjálfsmynd
 • Depurð
 • Erfiðar minningar af atburðinum
 • Kynlíf erfitt
 • Erfiðleikar í tengslum við maka/vini
 • Einangrun
 • Sjálfsvígshugleiðingar
 • Átröskun
 • Erfitt með einbeitingu
 • Tilfinningalegur doði
 • Reiði
 • Hegðunar erfiðleikar
 • Ótti
 • Kynferðisleg hegðun
 • Sjálfssköðun