Fatlað fólk

Rannsóknir sýna að fatlað fólk er í meiri áhættu á að verða fyrir ofbeldi en ófatlað fólk og er kynferðisofbeldi þar ekki undantekning. Fatlaðar konur og fötluð börn eru í enn meiri áhættu. Oft er fatlað fólk orðið svo vant því að verða fyrir fordómum, niðurlægjandi viðhorfum eða lélegri þjónustu að það áttar sig ekki á því að það er að verða fyrir ofbeldi. Um 30% þeirra sem leita til Stígamóta ár hvert skilgreina sig með einhvers konar skerðingu. Aðgengi að húsnæði er gott og starfsfólk Stígamóta er tilbúið að veita alla þá aðstoð sem til þarf. Hægt er að nálgast frekara fræðsluefni fyrir fatlað fólk hér á heimasíðunni.

  • Skilgreinir sig með skerðingu eða fötlun

    30%

  • Skilgreina sig ekki með skerðingu eða fötlun

    70%

Hlutfall af þeim sem leita til Stígamóta ár hvert

Fyrir fatlað fólk

Karlar

Karlkyns brotaþolar sem leita til Stígamóta eru um 10-20% þeirra brotaþola kynferðisofbeldis sem koma á Stígamót árlega. Rúmlega helmingur þeirra karla sem leitar til Stígamóta varð fyrir kynferðisofbeldi á barnsaldri. Hærra hlutfall karla en kvenna upplifir reiði sem afleiðingu, auk þess nefna fleiri karlar að áfengis- og vímuefnaneysla, sem og klámnotkun, hafi haft neikvæð áhrif á lífsgæði þeirra. Karlar leita sér oft aðstoðar árum og jafnvel áratugum eftir að brotið var á þeim.

 

Á Stígamótum geta karlar fengið einstaklingsviðtöl, tekið þátt í sjálfshjálparhópum fyrir karlmenn og mætt á strákakvöldin “Strákarnir á Stígó” sem eru haldin einu sinni í mánuði. Hægt er að nálgast frekara fræðsluefni fyrir karla hér á heimasíðunni.

Hinsegin fólk

Hinsegin fólk er oft að glíma við fordóma og mismunun í samfélaginu vegna kynhneigðar sinnar, kyneinkenna eða kynvitundar – sem skapar þeim aukið álag í samanburði við fólk sem ekki er hinsegin. Þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum geta staðalmyndir og mýtur haft áhrif á brotaþola og samfélagið í kringum hann þar sem fólk á kannski erfiðara með að sjá ofbeldi í samkynja samböndum.

Samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, trans, kynsegin, intersex og allir aðrir sem skilgreina sig undir hinsegin regnhlífinni geta upplifað ofbeldi í samböndum rétt eins og fólk í gagnkynhneigðum samböndum. Birtingarmyndir ofbeldis í hinsegin samböndum geta hins vegar verið frábrugðnar því sem fyrirfinnst í gagnkynhneigðum samböndum. Á Stígamótum er vel tekið á móti öllum brotaþolum burtséð frá kynvitund og kynhneigð og skilningur á því að þessar mismunarbreytur geta haft mikil áhrif á upplifun brotaþolans og úrvinnslu afleiðinga.

Fólk af erlendum uppruna

Fólk af erlendum uppruna er oft jaðarsett í samfélaginu og er því oft í meiri hættu að verða fyrir alls kyns ofbeldi þar á meðal kynferðisofbeldi. Við bendum á að efst á síðunni er hægt að nálgast upplýsingar um starfsemi Stígamóta á ensku, spænsku, rússnesku, pólsku og tælensku. Við bjóðum upp á fría túlkaþjónustu sem og viðtöl á ensku og á skandinavískum málum.