Reyndu af megni að skapa þægilegt andrúmsloft og leggja áherslu á traust, virðingu og hlýju. Þetta þarf ekki að vera hátíðleg eða alvarleg stund, bara gott spjall um mikilvægt málefni. Samtalið gæti jafnvel orðið áhugavert, skemmtilegt og styrkt tengslin. Börn eru fjölbreyttur hópur og þú þekkir barnið þitt best. Veltu fyrir þér persónuleika barnsins þíns; við hvaða aðstæður það finnur til öryggis og hvenær það er helst afslappað og opið. Eins þarf að taka tillit til aðstæðna, t.d. hvort heimilið er smekkfullt af fólki og því krefjandi að finna rólega stund í friði.

Veltu fyrir þér:

  • Er barnið opinn eða lokaður persónuleiki? Er það almennt upplagt í gott spjall eða þarf það varfærna nálgun að persónulegu samtali?

  • Finnst barninu gott að fá skýrar leiðbeiningar á borð við: „Jæja, nú ætlum við að tala saman.“ Eða vill það alls ekki þannig formlegheit og gáfulegra að grípa tilfallandi tækifæri sem bjóða upp á umrætt samtal, t.d. þegar umræður koma upp í skólanum eða þegar eitthvað málinu tengt poppar upp á sjónvarps- eða símaskjánum?

  • Er barnið helst hresst og málglatt á morgnana eða kvöldin?

  • Hentar spjall yfir matarborðinu vel eða frekar afsíðis (t.d. í kúri uppi í rúmi)?

  • Hvenær hefur barnið nægan tíma fyrir spjall en er ekki á hlaupum í t.d. skóla, tómstundir eða heim til vina?

  • Hvernig væri hægt að gera samtalið sem þægilegast? Þætti barninu gott að horfast ekki í augu við þig? T.d. í bílnum, á meðan þið spilið saman tölvuleik, púslið, spilið, föndrið eða bakið?

Til að draga úr líkum á að barnið hrökkvi í kút við þetta óvænta umræðuefni mætti einfaldlega kenna þessu verkefni um samtalið: „Ég sá auglýsingu sem sagði að foreldrar ættu að spjalla um klám við krakkana sína“ / „Skólinn sendi bréf á alla foreldrana um að tala um þetta við börnin sín í þessari viku“.

Ráð til að fá krakka til að opna sig > Skoða nánar

 

Reyndu að forðast dómhörku, ásakanir og gagnrýni. Sýndu samkennd því heimur barnsins er öðruvísi en þinn var á sama aldri.

Veittu barninu þá tilfinningu að öruggt sé að ræða þetta mál við þig, sem og önnur persónuleg og viðkvæm málefni. Barnið þarf að upplifa að þótt það hafi séð klám, noti reglulega klám eða sé forvitið um kynlíf verði það ekki dæmt eða gagnrýnt. Samtalið snýst ekki um að skamma eða refsa, heldur um að veita upplýsingar til að hjálpa barninu að byggja upp góða sjálfsmynd og samskipti í tengslum við líkamann og kynlíf.

Þú þarft ekki að vera sérfræðingur í klámi eða kynfræðslu til að vera til staðar fyrir barnið, þitt hlutverk er að mæta barninu þínu með umhyggju og skýrum svörum.

Þegar þú hefur ekki svör á reiðu má einfaldlega svara hreinskilið og segja barninu að þú vitir ekki svarið en skulir kynna þér málið eða stinga upp á þið fræðið ykkur í sameiningu. Því blessunarlega er ekki aðeins að finna klám á netinu, heldur einnig alls kyns gott fræðsluefni.