Hafa Samband
Opnunartímar móttöku
-
Mánudaga
9-16
-
Þriðjudaga
9-16
-
Miðvikudaga
9-16
-
Fimmtudaga
11-16
-
Föstudaga
9-16
-
Helgar
Lokað
Mörk eru nokkurs konar rammi utan um líkama okkar og sál, og segja til um hvers konar hegðun og samskipti við samþykkjum frá öðrum. Mörkin okkar eru ólík eftir því hvað þau eiga við (t.d. líkamleg, stafræn eða tilfinningaleg) og gagnvart hverjum þau eru (við eigum ólíkar samskiptareglur gagnvart foreldrum, vinum og ókunnugum). Svo geta mörkin okkar breyst og þróast eftir því sem við eldumst, upplifum fleira og kynnumst okkur sjálfum og öðru fólki betur. Við virðum mörk annarra með að vera alltaf viss um samþykki þeirra fyrir hvers kyns samskiptum (t.d. snertingu, samtali eða að sýna hvert öðru eitthvað á netinu). Aldrei má reyna að þvinga fólk með neinum hætti til að fara yfir mörkin sín eða fá aðra til að samþykkja eitthvað sem viðkomandi langar greinilega ekki.
Systir þín bað þig að hætta að öskra í eyrað á henni, þá stoppar þú strax.
Ef vinur þinn vill hafa kubbaleikinn ykkar öðruvísi verðið þið að ræða málin og komast að niðurstöðu, þú getur ekki stjórnað leiknum þótt þig langi.
Litli bróðir fer að gráta þegar þú gerir svona (eða kisi hleypur burt), hann er að setja þér mörk þótt hann kunni ekki að tala – virtu mörkin hans.
Það má alltaf skipta um skoðun. Einn daginn getur mann langað í knús en kannski ekki næsta dag.
Sumum finnst gott að láta knúsa sig en öðrum ekki. Sumum finnst gaman að láta kitla sig en öðrum ekki (sama með að leiðast, fara í gamnislag, vera með mikil læti, skoða eitthvað furðulegt á netinu…). Það er alltaf best að spyrja hvað öðrum finnst og segja öðrum hvað okkur sjálfum finnst.
Að virða mörkin sín er að segja þegar maður vill ekki eitthvað eða koma sér úr aðstæðunum, og að virða mörk annarra er að stoppa strax þegar einhver vill ekki eitthvað.
Mörk eiga ekki bara við um snertingu. Fólk setur líka reglur um hvað það vill tala um og hvað ekki, hvað það vill skoða á netinu og hvað ekki, og margt fleira.
Ef einhver lítur út fyrir að líða ekki vel með það sem verið er að gera eða tala um, er gott að spyrja hvort þið ættuð frekar að gera eða tala um eitthvað annað.
Kannski þora sumir ekki að segja nei og þess vegna þarf að æfa sig að hlusta á fleira en orð. Hvernig sér maður að annarri manneskju finnst gaman eða leiðinlegt? (Svipbrigði? Líkamstjáning? Raddblær? Augnaráð?) Það má ekki halda áfram bara af því hinn aðilinn þorir ekki eða kann ekki að segja nei. Það þarf t.d. að skoða hvernig lítil börn og dýr gefa mörkin sín til kynna, og alveg jafn mikilvægt að virða slík orðalaus mörk.
Börn eiga sama rétt á forræði yfir eigin líkama og fullorðnir, og eiga sjálf að hafa vald yfir því hver snertir þau og á hvaða hátt (vissulega með nauðsynlegum undantekningum þegar t.d. líkamleg heilsa þeirra og öryggi á í hlut).
Mig langar svo að knúsa þig núna, en geri það bara ef þig langar líka að knúsa mig.
Þú átt þinn líkama og þú ræður hver snertir hann. Þú þarft ekki að kyssa ömmu bless eða sitja í fanginu á frænda ef þú vilt það ekki.
Þú mátt sýna væntumþykju eða þakklæti með öðrum hætti en knúsi og kossi ef þér finnst það betra – t.d. með orðum, handabandi, bréfi, fingurkossi eða vinki.