Hafa Samband
Opnunartímar móttöku
-
Mánudaga
9-16
-
Þriðjudaga
9-16
-
Miðvikudaga
9-16
-
Fimmtudaga
11-16
-
Föstudaga
9-16
-
Helgar
Lokað
Klám hefur þann tilgang að vera kynferðislega örvandi. Því kallar klámspjallið á umræðu um kynlíf sem slíkt. Eðlilega eru unglingar forvitnir um kynlíf og sækja í klám, bæði sér til örvunar og í leit að upplýsingum. Unglingur, sem orðinn er nógu gamall til að vita hvað kynlíf er, þarf fyrst og fremst fræðslu um muninn á klámi og kynlífi. Klámspjallið er því í eðli sínu kynfræðsla. Hafðu samtalið ekki eingöngu á þeim nótum að klám sé varasamt og klámbransinn skaðlegur, heldur bjóddu fram heilbrigðari fræðslu um kynlíf. Talaðu opinskátt um kynlíf – það sé fallegt og frábært, og flest fólk njóti kynlífs mestalla ævina. En klám geti hins vegar skaddað kynverundina og komið í veg fyrir að fólk njóti kynlífs. Því yngri sem krakkar eru þegar þeir byrja að horfa á klám, því meiri líkur eru á framtíðar vandamálum.
Mikilvægustu skilaboð kynfræðslu eru kannski einfaldlega þau að kynlíf eigi að vera gott og skemmtilegt fyrir alla aðila, en ekki kalla fram neikvæðar tilfinningar. Þá sé eitthvað skakkt í gangi. Góð samskipti við rekkjunauta, skýr mörk og raunverulegt samþykki eru lykilatriði í heilbrigðu kynlífi. Þetta eru þeir hlutir sem nær alltaf skortir í klámi, og þess vegna verða unglingarnir að fá góða kynfræðslu um þessi atriði til að vega á móti skaðlegum skilaboðum klámsins.
Gott er að ræða slík mál af einlægni sem oftast og grípa færi sem óvænt gefast, t.d. í tengslum við sjónvarpsþætti eða samfélagsmiðla. Blessunarlega er ekki aðeins að finna klám á netinu heldur einnig alls kyns gott fræðsluefni sem upplagt er að foreldrar skoði og bendi unglingum á, eða skoði jafnvel saman.
Ef foreldri treystir sér mjög illa í samtalið mætti jafnvel kaupa vandaða bók og skilja hana orðalaust eftir í svefnherbergi barnsins. Mikilvægast er að unglingur, hvort sem hann notar nú þegar klám eða ekki, viti af áhættunni sem slíkri neyslu fylgir og hvað geri klám að afar slakri kynfræðslu.
Á ákveðnum aldri eru flest ungmenni farin að nota snjalltæki í sínu daglega lífi. Fléttaðu samtalið um klám saman við umræðu um hinn stafræna heim unglingsins – t.d. samskipti á netinu, ekki síst þau sem geta þróast yfir í stafrænt ofbeldi eða áreitni. Slíkt ofbeldi hefur farið hratt stigvaxandi samhliða stafrænni þróun og er nú refsivert athæfi fyrir íslenskum lögum. Samskiptamiðlar og snjallsímar eru orðinn sjálfsagður hluti af tilhugalífi ungs fólks en ennþá flækist fyrir mörgum að samskiptareglur á netinu eru þær sömu og í raunheimum. Foreldrar verða að vera meðvitaðir um hættur internetsins og taka netnotkun unglinganna sinna alvarlega.
Í dag eru unglingar gjarnan betur að sér í ýmsum samskiptamiðlum en foreldrar þeirra, svo mikilvægt öryggisatriði er að leggja á sig að læra hvernig miðlarnir virka. Spurðu unglinginn reglulega út í vinsælustu öppin, hvað sé að gerast þar og fá að sjá dæmi. Hafðu þó í huga að algengt er að foreldrar viti aðeins af ákveðinni samfélagsmiðlanotkun barna sinna og fylgist jafnvel vel með á þeim vettvangi, en að börnin eigi til hliðar falda aðganga á ýmsum miðlum og noti samfélagsmiðla sem foreldrarnir þekkja ekki til.
Unglingur þarf að vita að klám gefur óraunsæja mynd af kynlífi, samskiptum og líkömum, og ruglar með mörkin á milli kynlífs og ofbeldis. Það sé sannarlega ekki fræðsluefni og gefi því ekki gagnleg svör við pælingum um kynlíf. Þess utan sé klám ánetjandi og framleitt með það í huga, svo notkun á því efni til örvunar geti verið varasamt – sérstaklega fyrir ungmenni. Í næstu köflum er útskýrt af hverju klám er á alla kanta mjög slæm kynfræðsla.