Umræðuefnið getur verið vandræðalegt, viðkvæmt og jafnvel mjög krefjandi. Eitthvað gæti komið upp í spjallinu sem kemur þér á óvart eða kemur þér í uppnám. Líkt og segir framar í þessum leiðbeiningum skaltu gæta þess hvernig þú opinberar neikvæðar tilfinningar þínar til klámneyslu, og kappkosta við að sýna unglingnum samkennd og skilning.

Unglingurinn er klámneytandi

Mögulega ertu að taka samtalið af því þú rambaðir á klám í fórum barnsins þíns, jafnvel mjög gróft efni. Óþarfi er að sökkva beint í hamfarahugsanir um að eitthvað alvarlegt hljóti að vera að barninu. Meirihluti meginstraumskláms er grófur, þvert á það sem margt fólk heldur – að leita þurfi alveg sérstaklega að kynferðislegu efni sem inniheldur valdníðslu og lítillækkun. Ólíklegt er að ungmennið hafi t.d. áhuga á sifjaspelli í raun, staðan er sú að klámbransinn ýtir slíkum þemum fram.

Ekki er viðeigandi að byrja samtalið á yfirheyrslu (Af hverju ertu að horfa á þetta? Hvenær byrjaði það? Hversu oft skoðarðu?). Enginn vill þurfa að útskýra eigin kynhvöt og sjálfsfróun fyrir foreldrum sínum, svo líklega myndu svona spurningar slökkva algerlega á unglingnum.

Þegar brugðist er við óþægilegum upplýsingum um klámneyslu skiptir mýkt og ástúð foreldris miklu máli. Reyndu af mætti að sýna ekki sterk viðbrögð og valda unglingnum skömm eða ótta. Ræddu frekar allt sem þegar hefur verið fjallað um hér á undan – að mikill munur sé á klámi og kynlífi, og klám sé varasamt á ýmsan hátt þótt kynhvöt sé heilbrigð og eðlileg.

Ekki refsa unglingnum fyrir klámneysluna, þitt hlutverk er hér að fræða. Veita upplýsingar til að hjálpa þín barni að byggja upp góða sjálfsmynd og samskipti í tengslum við kynlíf. Því yngri sem börn eru þegar þau hefja reglulegt klámáhorf, þeim meiri líkur eru á að þau ánetjist efninu svo mikilvægt er að hjálpa unglingnum að forðast frekara klámáhorf í nánustu framtíð. Að setja mörk varðandi notkun á snjalltæki gæti verið mikilvægt skref. En settu það þó ekki upp sem refsingu heldur sem öryggisventil á meðan unglingurinn fræðist um skaðsemi kláms.

Kynferðisofbeldi

Í allra versta falli gæti samtal um klám kallað fram opinberun unglingsins á reynslu af kynferðisofbeldi eða erfiðri kynlífsreynslu. Fátt er foreldri erfiðara en að heyra af ofbeldi gagnvart barninu sínu en því fyrr sem hægt er að koma brotaþola kynferðisofbeldis til hjálpar, því betra.

70% þeirra sem leita til Stígamóta urðu fyrir ofbeldinu fyrir 18 ára aldur en yfirgnæfandi meirihluti þeirra barna sagði ekki frá fyrr en á fullorðinsaldri og eru ýmsar ástæður fyrir því.

Ótti við viðbrögð umhverfisins hindrar marga unga brotaþola í að segja frá. Til dæmis ótti við að vera ekki trúað eða vera kennt um ofbeldið, eða ótti við að valda foreldrum sínum vonbrigðum og sársauka. Fyrstu viðbrögð skipta miklu máli þegar þolandi opnar sig. Reyndu af öllum mætti að halda ró þinni fyrir framan unglinginn, sannfærðu hann um ást þína og stuðning, og þakkaðu fyrir að hafa verið treyst fyrir þessum erfiðu upplýsingum. Allar líkur eru á að unglingurinn sé að glíma við skömm og sektarkennd – sem eru því miður algengustu afleiðingar meðal brotaþola kynferðisofbeldis. Haltu því almennt opinni umræðu á heimilinu um að brotaþoli eigi aldrei sök á því ofbeldi sem hann verður fyrir.

Margir brotaþolar, sérstaklega ungir, eiga erfitt með að skilgreina eigin reynslu sem kynferðisofbeldi. Útskýrðu reglulega hvað kynferðisofbeldi er; þegar vaðið er yfir mörk í kynlífi og skýrt samþykki liggur ekki fyrir.

Málið er ekki svo einfalt að nauðgun eigi eingöngu við þegar vopnað siðblint skrímsli stekkur fram úr húsasundi og ræðst á grandalausan vegfaranda. Ein af helstu ástæðum þess að ungir brotaþolar segja ekki frá kynferðisofbeldi er sú sára staðreynd að gerandinn er oftast nákominn þolanda. Í barnaníðsmálum er brotamaðurinn iðulega náinn ættingi, og þegar unglingar upplifa kynferðisofbeldi er oftast um kærasta og vini að ræða. Því skiptir miklu að umræðan á heimilinu um kynferðisofbeldi snúist aldrei upp í „ég myndi sko drepa þann sem gerði þetta við mitt barn!“, hvað þá að sýna þau viðbrögð þegar barn segir í raun frá ofbeldisreynslu. Allar líkur eru á að gerandinn sé einhver sem þolandinn á tilfinningatengsl við (jafnvel allt heimilið), svo að heiftarleg viðbrögð foreldra í þessum dúr myndu eingöngu hella olíu á eldinn og koma í veg fyrir að barnið opni sig frekar.

Stígamót bjóða upp á ráðgjöf fyrir brotaþola sem náð hafa 18 ára aldri, en ef barnið er undir 18 ára aldri þarf að hafa samband við lögreglu eða barnavernd. Foreldrar og aðrir aðstandendur brotaþola kynferðisofbeldis eru velkomnir í fjölskylduráðgjöf á Stígamótum.

 

Hér geta aðstandendur brotaþola frætt sig betur:

Fjölskyldur og aðstandendur | Stígamót (stigamot.is). 

 

Og hér er listi yfir úrræði ef brotið hefur verið á barni eða unglingi:

Úrræði neyðarlínan hjálp (112.is)

 

 

Stafrænt kynferðisofbeldi og áreitni

Unglingurinn þinn gæti sagt frá annars konar ofbeldi en líkamlegu, t.d. að nektarmynd hafi farið í dreifingu. Kynferðisofbeldi á sér ýmsar birtingarmyndir og stafrænt kynferðisofbeldi er ein þeirra.

Til stafræns kynferðisofbeldis telst m.a. að dreifa nektarmynd, kynferðislegum skilaboðum eða öðru persónulegu efni í leyfisleysi eða óþökk viðkomandi. Þá breytir engu um hvernig myndin varð til eða hvernig hún kom til barnsins þíns, slíkri mynd má aldrei deila áfram til annarra.

Til stafræns kynferðisofbeldis og áreitni telst einnig að senda óumbeðna kynferðislega mynd og að krefja aðra manneskju um slíka mynd. Þegar í 8. bekk er komið hefur nær helmingur stúlkna verið beðinn um að senda af sér nektarmynd. Hlutfallið fer yfir 70% þegar 17-18 ára stúlkur eru spurðar. Verra er að fjórðungur 15-17 ára stúlkna hefur með einhverjum hætti verið þvingaður til að senda slíkar myndir. Spurðu unglinginn þinn reglulega út í stafræn samskipti því krakkar segja ekki endilega frá áreitni á netinu, jafnvel ekki af höndum ókunnugra fullorðinna, heldur „blocka“ einfaldlega viðkomandi.

Stafrænt kynferðisofbeldi er refsivert athæfi fyrir íslenskum lögum, enda alvarlegt ofbeldi sem hefur svipaðar afleiðingar og annað kynferðisofbeldi. Því ber að taka mjög alvarlega ef unglingur upplýsir um slíkt brot – sem þolandi, gerandi eða vinur þeirra aðila. Ef brotið er á manneskju með þessum hætti er þolandinn aldrei ábyrgur, frekar en brotaþolar annars kynferðisofbeldis, og ungmenni í slíkri stöðu verða að geta treyst á stuðning foreldra sinna, en ekki gagnrýni eða ásakanir.

 

Meira um stafrænt ofbeldi:

Stafrænt kynferðisofbeldi >

Sjukást >

 

 

Barnið þitt gæti líka hafa beitt ofbeldi

Að halda opinni umræðu á heimilinu um kynlíf, klám, mörk og samþykki er sannarlega góð forvörn þegar kemur að kynferðisofbeldi og öðrum skaðlegum samskiptum. Til að uppræta kynferðisofbeldi er í raun engin leið fær önnur en að ná til gerendanna áður en þeir beita ofbeldinu. Samkvæmt gögnum Stígamóta eru um 60% gerenda á aldrinum 14-29 ára. Yfirgnæfandi meirihluti gerenda eru ungir karlmenn.

Ekkert foreldri vill þurfa að horfast í augu við að þeirra barn sé gerandi slíkra verka, en höfum í huga menninguna sem krakkar alast upp í – ekki síst þegar kemur að hinni miklu klámneyslu. Piltur sem horft hefur á gróft og ofbeldisfullt klám frá unga aldri, en fengið litla kynfræðslu til að vega á móti og ekki yfirvegað kennt að gagnrýna slíkt efni, hlýtur að stíga sín fyrstu skref í kynlífi með annarri manneskju með afar skakkar hugmyndir í kollinum. Þannig gæti verið að ekki sé um einbeittan brotavilja þessara ungu manna að ræða, heldur pilta sem mataðir hafa verið á skaðlegu efni og hafa því arfaslaka þekkingu á raunverulegu kynlífi og lítinn skilning á mikilvægi skýrra samskipta. Lögum þessa skekkju með fræðslu.