Enn fremur snýr munurinn á klámi og alvöru kynlífi að samskiptum. Klám sýnir sjaldnast samræður um mörk og samþykki, sem eru algjör lykilatriði og það sem aðgreinir kynlíf frá kynferðisofbeldi.

Mörk eru nokkurs konar rammi utan um líkama okkar og sál, og segja til um hvers konar hegðun og samskipti við samþykkjum frá öðrum og hvernig við bregðumst við þegar einhver fer yfir mörkin okkar. Í öllum raunverulegum samskiptum – alveg sérstaklega nánum og viðkvæmum samskiptum á borð við kynlíf – er lykilregla að tala vel saman. Spyrja hvað hinum aðilanum finnist í lagi, skemmtilegt, þægilegt og hvað alls ekki. Hlusta verður á svörin og virða mörkin, bæði sín eigin og annarra. Í kynlífi á að gæta þess að báðum líði vel.

Mörk eru virt með að vera alltaf viss um samþykki annars fólks fyrir hvers kyns samskiptum. Samþykkið verður að vera einlægt og byggt á raunverulegum áhuga viðkomandi. Útskýra þarf fyrir unglingum hvernig maður fær gott og upplýst samþykki.

Jafnframt að það að fá aðra manneskju í einhvers konar kynlíf með linnulausu suði, hótunum eða öðrum stjórnunaraðferðum er ekki alvöru samþykki. Kynlíf er ekkert alltaf fullkomið heldur getur það verið klaufalegt, vandræðalegt eða jafnvel fyndið. Hins vegar ætti engin manneskja að þurfa að þola þvingun, ótta eða lítilsvirðingu.

Sniðugt gæti verið að horfa á þetta skemmtilega myndband og ræða skilaboðin saman:

Meira um mörk og samþykki hér:

 

 

 

Hugmyndir að umræðupunktum:

  • Þú getur ekki vitað hvað önnur manneskja vill nema spyrja. Hvort sem það snýst um hvaða álegg á að vera á pizzu eða hvað á að gera í kynlífi.

  • Alvöru samþykki er ekki að fá einhvern til að segja já, fá leyfi til að gera eitthvað við aðra manneskju – heldur um að báða aðila virkilega langi.

  • Að hlusta á fólk er ekki einungis að hlusta á orð sem eru sögð heldur þarf líka að horfa eftir líkamstjáningu. Því stundum þorir fólk eða getur ekki sagt skýrt nei eða já.

  • Það má alltaf skipta um skoðun.

  • Enginn skuldar öðrum kynlíf nokkurn tímann.