Langflestir unglingar vita hvað klám og kynlíf er, svo ekki þarf að tipla á tánum með umræðuefnið eða hugtökin. Fyrir þennan aldurshóp er því óhætt að kalla klám sínu rétta nafni, þótt betra sé að fara aðrar leiðir í samtali við yngri börn. Mörg þekkja þó orðið porn jafnvel betur, enda nota þau það orð við að leita að klámi á netinu.

Mjög misjafnt er þó hvaða tengsl ungmenni eiga við klám – hvort þau hafi aðeins heyrt aðra tala um það, hvort þau hafi óvart eða örsjaldan séð klámatriði, eða hvort þau sé orðin reglulegir neytendur (um 10% drengja í elstu bekkjum grunnskóla skoða klám daglega og jafnvel oft á dag). Gerðu ráð fyrir að þitt barn geti verið hvar sem er á þessari línu, spurðu opinna spurninga og hlustaðu vel á svörin, til að fá stöðuna sem best á hreint og stýra samtalinu í gagnlegar áttir. Forðastu dómhörku eða stimplun í hvoruga áttina.

Unglingurinn þarf að vita að hann verði ekki tekinn á beinið fyrir að nota klám, en líka að það sé alls ekkert náttúrulögmál að horfa á klám og mjög margt fólk hafi engan áhuga á því. Að líða illa nálægt slíku efni sé eðlileg tilfinning, og eins að upplifa kynferðislega örvun og spennu.

Enda séu kynhvöt og kynlíf svo sannarlega eðlilegir hlutir og jákvæðir, en klám sé hins vegar annars eðlis en raunverulegt kynlíf og geti þannig skaðað kynheilbrigði ungs fólks. Passaðu að unglingurinn upplifi ekki samtalið þannig að kynlíf sé af hinu slæma eða forvitnin skammarleg. Þvert á móti er jákvætt að unglingur fái að heyra frá foreldri sínu að kynlíf sé eðlilegur hluti af lífi flestra og að kynheilbrigði unglingsins skipti máli, eins og allt annað við líf hans og heilsu.

Unglingar eru fjölbreyttur hópur og þú þekkir þinn best. Hafðu í huga persónuleika og dagskrá unglingsins, sem og heimilisaðstæður og tengsl ykkar.

Veltu fyrir þér:

  • Er unglingurinn opinn eða lokaður persónuleiki? Er hann almennt upplagður í gott spjall eða þarf hann varfærna nálgun að persónulegu samtali?

  • Eruð þið vön að hafa formlegan ramma utan um viðkvæm/mikilvæg samtöl, kannski reglulega fjölskyldufundi? Eða virka alls ekki slík formlegheit og betra að grípa tilfallandi tækifæri sem bjóða upp á umrætt samtal, t.d. þegar umræður koma upp í skólanum eða þegar eitthvað málinu tengt poppar upp á sjónvarps- eða símaskjánum?

  • Leyfa heimilisaðstæður spjall við matarborðið eða í stofusófanum, eða eru þar t.d. yngri systkini svo betur henti að fara afsíðis?

  • Hvenær hefur unglingurinn nægan tíma fyrir spjall en er ekki á hlaupum í t.d. skóla, vinnu, tómstundir eða til vina?

  • Hvernig er hægt að gera samtalið sem þægilegast? Þætti unglingnum gott að vera í aðstæðum þar sem hann þarf ekki að horfast í augu við þig? T.d. hlið við hlið í bílnum, á meðan þið spilið saman tölvuleik eða eldið matinn?

Ráð til að fá unglinga til að opna sig: > Skoða nánar

En búðu þig líka undir að unglingurinn vilji lítið tjá sig, að taka samtalið skiptir samt máli.

Til að draga úr líkum á að unglingurinn hrökkvi í kút við þetta óvænta umræðuefni mætti einfaldlega kenna þessu verkefni um samtalið: „Æ ég held ég hafi alveg gleymt að taka þetta spjall með þér, ég sá auglýsingu sem minnti mig á það“ / „Skólinn er í einhverri herferð um að foreldrar spjalli um klám við krakkana sína og það var bara fín áminning fyrir mig“.

Hafðu spjallið á góðum nótum

Umræðuefnið er vissulega viðkvæmt og vandræðalegt en reyndu að forðast dómhörku, ásakanir og gagnrýni. Reyndu af megni að skapa þægilegt andrúmsloft og leggja áherslu á traust, virðingu og hlýju. Veittu unglingnum þá tilfinningu að öruggt sé að ræða þetta mál við þig, sem og önnur persónuleg og viðkvæm mál. Þetta þarf ekki að vera hátíðleg eða alvarleg stund, bara gott spjall um mikilvægt málefni. Samtalið gæti jafnvel orðið áhugavert, skemmtilegt, styrkt tengsl ykkar og opnað á ný umræðuefni.

Unglingurinn þarf að upplifa að þótt hann hafi séð klám, noti reglulega klám eða sé forvitinn um kynlíf, verði hann ekki dæmdur eða niðurlægður. Samtalið snýst ekki um að skamma eða refsa, heldur um að veita upplýsingar til að hjálpa ungmenninu að byggja upp góða sjálfsmynd og samskipti í tengslum við kynlíf.

Eitthvað gæti komið upp í spjallinu sem kemur þér á óvart eða í uppnám. Ef eitthvað kemur upp sem þér finnst erfitt að heyra, skiptir mestu að halda ró sinni og gæta þess að unglingurinn upplifi ekki fordæmingu. Nýttu tækifærið til að styrkja tengslin við barnið þitt. Þakkaðu unglingnum fyrir að treysta þér fyrir þessu og tryggðu að hann viti að þessar nýju upplýsingar breyti engu um ást þína til hans og að þú sért alltaf til staðar.

Ljóst er að foreldrar hafa fjölbreyttar skoðanir, tilfinningar og reynslu af klámi og umræðuefnið því eldfimt. Gættu þess að samtalið við unglinginn þróist ekki út í skoðanaskipti heldur sé vingjarnlegt og fræðandi, með velferð hans að leiðarljósi. Mundu að við vorum öll ung einu sinni, og að kynhvöt og forvitni um kynlíf er heilbrigð og eðlileg. Reyndu að forðast að opinbera neikvæðar tilfinningar þínar ef í ljós kemur að upplifun eða skoðun unglingsins á klámi er allt önnur en þín, eða ef upp úr krafsinu kemur notkun hans á mjög grófu efni. Yfir slíku er auðvelt að hitna í hamsi – fyllast sorg, reiði eða viðbjóði.

Reyndu af mætti að sýna samkennd því heimur unglingsins þíns er öðruvísi en þinn var á sama aldri. Klám er bæði mun aðgengilegra og er efnislega mikið breytt á örfáum áratugum. Mundu að unglingurinn er ekki að reyna að særa þig eða svíkja með notkun á grófu klámefni, en þarf sannarlega á þinni leiðsögn að halda.