Hafa Samband
Opnunartímar móttöku
-
Mánudaga
9-16
-
Þriðjudaga
9-16
-
Miðvikudaga
9-16
-
Fimmtudaga
11-16
-
Föstudaga
9-16
-
Helgar
Lokað
Að meðaltali byrja íslensk börn að horfa á klám mjög ung og er hátt í helmingur drengja orðnir reglulegir neytendur við lok grunnskólagöngu. Á sama tíma fá þessir strákar margfalt minna af raunverulegri kynfræðslu með áherslu á virðingu og samþykki, en klám er sannarlega ekki framleitt sem kynfræðsla fyrir unga fólkið.
Þar er ofbeldið matreitt sem spennandi kynlíf sem þolandinn virðist jafnvel njóta, án nokkurs samtals. Þetta eru afar villandi skilaboð til ungmennis sem er að feta sín fyrstu skref sem kynvera. Til viðbótar er klám ávanabindandi efni og þarf notandinn því gjarnan eitthvað nýtt til að viðhalda sömu örvandi áhrifum, sem í klámheiminum þýðir oftast „grófara og ofbeldisfyllra“.
Eins og með allar aðrar spurningar og upplifanir barnanna okkar viljum við að þau geti leitað til okkar með kynlífstengdar spurningar, án ótta og skammar. Og ný íslensk gögn sýna að unglingar vilja geta rætt málin við foreldra sína. Mörg ungmenni óska eftir sömu kynfræðslu fyrir foreldrana til að geta tekið sem best samtöl heima. Þú þarft þó ekki að vera sérfræðingur í klámi eða kynfræðslu til að geta rætt málin við þinn ungling. Mikilvægara en að eiga „hið fullkomna samtal“ er að eiga samtalið yfirhöfuð.
Svo unglingurinn viti að klám, kynlíf og kynferðisofbeldi sé ekki leyniheimur sem halda skuli frá fullorðnum heldur megi einmitt ræða þessa hluti við foreldra. Þú, sem vilt barninu þínu allt það besta, hlýtur að vera öruggasti aðilinn til að leita til og munt vafalítið gefa unglingnum heilbrigðari og öruggari kynfræðslu en hann getur fengið úr klámi – sem er ávanabindandi söluvara.