Kynverund verður ekki til í tómarúmi. Menningin og umhverfið hefur mikil áhrif á það hvernig hvert okkar hugsar um kynlíf. Hugmyndir fólks um kynlíf, rómantík og önnur náin samskipti koma t.d. mikið til úr fjölmiðlum – hvort sem um ræðir rómantíska gamanmynd í bíó eða grófar klámsenur á netinu. Kenna ætti ungmennum að líta gagnrýnið á öll utanaðkomandi skilaboð um kynlíf og kafa frekar inn á við í leit að sínum raunverulegu löngunum.

Klámframleiðendur vinna ekki út frá námskrá, jafnréttishugsjón eða mannréttindasjónarmiðum, þeirra hagsmunir eru peningar. Klám er jú söluvara og búið til fyrir áhorfendur en ekki fyrir ánægju leikaranna, markaðurinn stjórnar kynlífsathöfninni sem mynduð er.

Kynferðisleg viðbrögð og líkamleg frammistaða er mjög ýkt í klámi. Margar stellingar eru líkamlega óþægilegar og jafnvel nánast óframkvæmanlegar í kynlífi – enda ætlaðar fyrir sjónarhorn myndavélar en ekki nautn viðkomandi. Útlit fólks er gjarnan einsleitt og ýkt, typpi eru vel yfir meðalstærð og píkur nánast allar eins. Í raunveruleikanum eru kynfæri og líkamar fjölbreyttir, og kynferðisleg frammistaða takmörkunum háð. Ef unglingar líta á klám sem kennslustund um kynlíf er fjölmargt mikilvægt sem þeir fara á mis við og sjá ekki; s.s. forleik og gælur, nánd og virðingu, og mikilvægar venjur varðandi öryggi eða hreinlæti.

Klámið býr til viðmið eða handrit að því sem við eigum að gera eða finnast gott í kynlífi – afar þröngan ramma – en í raunveruleikanum erum við alls konar og föllum líklega fæst í afmörkuð mót. Í klámi er ekkert rætt um hvað fólkinu þykir gott eða ekki, skilaboðin eru að öllum þyki allt gott. Mörg ungmenni upplifa þrýsting um að leika eftir klámatriðum og óttast að fá annars á sig stimpil þess efnis að þau séu teprur, skræfur eða lélegir bólfélagar.

Ungmenni ættu að fá að þroskast sem kynverur smám saman og finna sjálf út hvað hentar þeim og hvað ekki. Við viljum jú ekki að unglingurinn læri að keyra með því að horfa á kappakstursmyndir eða móti sína líkamsímynd út frá ofurfyrirsætum í glanstímaritum. Klámframleiðendur ættu ekki heldur að hafa vald til að kenna krökkunum okkar til hvers er ætlast af þeim á kynferðislega sviðinu. Ungt fólk á skilið að fá að uppgötva sína raunverulegu kynverund en festast ekki í ramma þess sem klámið segir þeim að sé eina leiðin. Þú þekkir best þinn ungling – hugsaðu um hvernig þú getur frætt hann þannig að kynlífshandritið verði hans eigið en ekki á forsendum klámiðnaðarins.

 

Sniðugt gæti verið að horfa á þetta skemmtilega myndband og ræða skilaboðin saman:

  • 5. Í klámi er engin umræða um mörk og samþykki