Ný rannsókn um brotaþola vændis22. september 2022

Í dag kom út ný rannsókn á vegum Stígamóta. Um er að ræða greiningu á tölfræðigögnum sem safnað er meðal þeirra sem sóttu þjónustu samtakanna vegna kynferðisofbeldis á árunum 2013-2021.

SKRUNAÐU

Borinn var saman hópur kvenna sem voru brotaþolar vændis við aðra hópa kvenna sem ýmist höfðu upplifað sifjaspell, nauðgun eða bæði. Niðurstöðurnar sýna glögglega hvernig vændi er bæði neyðarráð kvenna sem eru í erfiðri félagslegri stöðu og hve alvarlegar og djúpstæðar afleiðingar vændis eru á líkamlega og andlega líðan brotaþola í kjölfarið.

Hér má finna samantekt með meginniðurstöðum myndum og töflum.

Hér má finna skýrsluna í heild sinni.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  1. 60,7% þeirra kvenna sem eru brotaþolar vændis hafa gert sjálfsvígstilraun og eru miklu líklegri en brotaþolar annars kynferðisofbeldis til að hafa gert sjálfsvígstilraunir eða hafa hugleitt sjálfsvíg
  2. Brotaþolar vændis eru mun líklegri en brotaþolar annars kynferðisofbeldis til að kljást við sjálfskaða, átröskun og líkamlega verki
  3. Brotaþolar vændis sem sækja þjónustu Stígamóta hafa í 92% tilvika orðið fyrir öðru kynferðisofbeldi auk vændisins. 80% voru yngri en 18 ára þegar þau voru fyrst beitt kynferðisofbeldi.
  4. Brotaþolar vændis hafa margir orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi á lífsleiðinni. 76% hefur verið nauðgað og tæp 46% verið beittar sifjaspellum. Konur sem eru brotaþolar vændis eru mun líklegri en aðrir brotaþolar kynferðisofbeldis til hafa orðið fyrir hótunum, líkamsmeiðingum og að vopni sé beitt af hendi geranda kynferðisofbeldis. Rúm 25% hafa orðið fyrir hópnauðgun og rúm 26% fyrir lyfjanauðgun.
  5. Brotaþolar vændis hafa í 50% tilvika ekki lokið frekari menntun en grunnskólaprófi og voru í 50% tilvika á örorku, í endurhæfingu eða veikar. Þetta hefur gríðarleg áhrif á möguleika þessa hóps til að afla tekna og má gera ráð fyrir sambandi á milli skertra afkomumöguleika og þess að neyðast í vændi.
  6. Þær níu konur sem leituðu til Stígamóta á tímabilinu vegna vændis en voru ekki brotaþolar annars kynferðisofbeldis glímdu nánast allar við lélega sjálfsmynd, skömm, kvíða, depurð og erfið tengsl við maka og vini.
  7. Mál brotaþola vændis voru líklegri til að hafa orðið að barnaverndarmálum en mál brotaþola annars kynferðisofbeldis. Þá er ekki endilega um að ræða vændisbrotin heldur líklegra að um annað kynferðisofbeldi sé að ræða. Þannig höfðu mál sem tengdust 24% gerenda kynferðisofbeldis gegn brotaþolum vændis verið vísað til barnaverndar. Jafnframt var þessi hópur líklegri til að hafa kært kynferðisofbeldi til lögreglu en hópar annarra brotaþola.

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót