Ársskýrsla Stígamóta 202130. ágúst 2022

Aldrei fleiri leitað í fyrsta skipti til Stígamóta og árið 2021

SKRUNAÐU

Árið 2021 leituðu 952 einstaklingar í viðtalsþjónustu Stígamóta. Þar af voru 465 að koma á Stígamót í fyrsta skipti, en þetta er mesti fjöldi nýrra brotaþola í ráðgjöf á einu ári. Þó biðu 200 einstaklingar á biðlista eftir viðtali í lok ársins. Heildarfjöldi viðtala var 3.381 á árinu og hefur ekki verið meiri frá stofnun Stígamóta. Jafnframt sótti metfjöldi aðstandenda viðtöl eða 96 aðilar. Gera má ráð fyrir að þessi aukna aðsókn í þjónustuna komi í kjölfar nýrrar MeToo bylgju sem fór af stað vorið 2021, en þá varð mikil vakning meðal þolenda um að skila skömminni, leita sér aðstoðar og vinna úr afleiðingum ofbeldisins.

Langflest þeirra sem leituðu til Stígamóta á árinu komu vegna nauðgana, eða 67,3%. Þá leituðu 54,4% til Stígamóta vegna kynferðislegrar áreitni og 33,3% vegna sifjaspella. Athygli vekur að mun fleiri nefna stafrænt kynferðisofbeldi sem ástæðu komu en áður, en það hlutfall fór úr 8,6% í 21,3% á einu ári.

28% brotaþola hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi

Í gagnasöfnun Stígamóta er ekki aðeins spurt um ástæðu komu heldur einnig spurt nánar út í mismunandi tegundir ofbeldis sem brotaþoli kann að hafa orðið fyrir á lífsleiðinni. Þar kemur í ljós að 28% þeirra brotaþola sem leituðu til Stígamóta í fyrra höfðu verið beitt einhvers konar stafrænu kynferðisofbeldi. Slíkt ofbeldi felst í birtingu, dreifingu eða geymslu á kynferðislegu efni í óþökk brotaþola, eða hótun um það. Stígamót telja mikilvægt að koma því á framfæri að brotaþolar stafræns kynferðisofbeldis eru jafn velkomnir í viðtal og aðrir brotaþolar, enda að kljást við sömu afleiðingar.

Mikill fjöldi ofbeldismanna undir 18 ára aldri

Gögnum er einnig safnað um gerendur þess ofbeldis sem er til umræðu í viðtölum við brotaþola, og var heildarfjöldi ofbeldismanna sem safnað var upplýsingum um í fyrra 700. Langflestir ofbeldismenn voru karlar, eða 95,6%. Flestir brotamannanna voru á aldrinum 18-29 ára, eða 41%, en athygli vekur hve stórt hlutfall gerenda var aðeins 14-17 ára þegar brotið var framið eða 107 einstaklingar (16,7%). Í langflestum nauðgunarmálum var gerandinn vinur eða kunningi eða 34,8%, en næstalgengast var að gerandinn væri maki eða fyrrverandi maki, eða í 19,6% tilvika.

10.000 brotaþolar frá upphafi

Við lok síðasta árs höfðu 10.122 einstaklingar leitað til Stígamóta á þeim 32 árum sem þau hafa starfað. Í fyrra skiptist kynjahlutfall brotaþola sem hingað leituðu á eftirfarandi hátt: Konur voru 88,2%, karlar 11,2% og önnur kyn 0,6%. Flest voru á aldrinum 18-29 ára við komu til Stígamóta eða 52,6%, en athygli vekur að 66,4% brotaþola voru yngri en 18 ára þegar þau voru fyrst beitt kynferðisofbeldi. Algengustu afleiðingar sem þolendur sögðust kljást við voru kvíði, sektarkennd, skömm, depurð og léleg sjálfsmynd. Þá höfðu 23% gert tilraun til sjálfsvígs.

Hægt er að skoða ársskýrsluna í heild sinni hér.

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót