Hafa Samband
Opnunartímar móttöku
-
Mánudaga
9-16
-
Þriðjudaga
9-16
-
Miðvikudaga
9-16
-
Fimmtudaga
11-16
-
Föstudaga
9-16
-
Helgar
Lokað
Ársskýrsla Stígamóta2024 er komin út og er hún sérlega vegleg í tilefni 35 ára afmælis Stígamóta. Tekin eru saman gögn frá stofnun 1990 eins vel og hægt er, en það er ljóst að á þessum 35 árum hafa Stígamót tekið á móti um 11.500 manns í ráðgjöf. Starfsemin hefur farið sívaxandi og á árunum 2017 til 2022 var sérstaklega mikil ásókn. Það þarf ekki endilega að þýða að kynferðisbrot hafi verið algengari á þessum árum, líklegri skýring er sú mikla samfélagsumræða sem hófst í kringum #metoo, #höfumhátt og aðrar byltingar hafi ýtt við fólki að leita sér stuðnings. Með sérstöku átaki höfum við náð að vinna niður biðlista og fækkar fólki á biðlista á milli ára þannig að nú er tæp tveggja mánaða bið eftir fyrsta viðtali og hefur ekki verið jafn stutt í áraraðir. Einnig má geta þess að fleiri úrræði fyrir fólk sem þarf ráðgjöf hafa komið til á síðustu árum, svo sem Bjarkarhlíð, Sigurhæðir, Pieta, Bergið og fleiri staðir.
Afleiðingar kynferðisbrota, samsetning brotaþola og einkenni ofbeldismanna hefur lítið breyst í áranna rás. 85-95% brotaþola eru stúlkur og konur og flestar hafa þær orðið fyrir brotum á unglingsaldri. Um 95% gerenda í ofbeldismálum eru karlar og eru þeir flestir á aldrinum 18-29 ára. Þó að karlar og kvár séu líka meðal brotaþola þá er mynstrið kynbundið og hefur það ekkert breyst síðustu áratugi. Helsta öryggisógn í samfélaginu eru kynferðisbrot karla gegn konum. Það er faraldur og hefur afgerandi áhrif á líf og líðan kvenna í samfélaginu, ekki bara þeirra sem verða fyrir ofbeldinu heldur búa konur við ógn af þvi að verða fyrir ofbeldi frá unga aldri.
Með alla þá þekkingu sem við búum yfir og allan þann vilja sem birtist í orðum ráðamanna ættum við að geta unnið bug á kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Það er algjörlega óviðunandi að það sé orðið eins og hvert annað suð í samfélaginu okkar að þessi öryggisógn gagnvart lífi og heilsu kvenna sé látin ótalin, þetta ætti með réttu að vera eitt stærsta forgangsatriðið í okkar samfélagi. Stígamót hafa átt samtöl við ráðafólk landsins um næstu skref og þau samtök sem standa að baki kvennaárinu hafa sett fram kröfur á ráðfólk landsins sömuleiðis. Þær kröfur voru meðal annars unnar af Stígamótum.
Forsíðumynd ársskýrslunnar er teiknuð af Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur og má kaupa hana sem plakat hjá Stígamótum með því að panta hér
Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.
Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.