Viðtal við Brynhildi Björnsdóttur um bókina Venjulegar konur14. desember 2022

„Þær eiga skilið sömu virðingu, aðstoð
og  lífshamingju og aðrar konur“

Vændi viðgengst á Íslandi. Staðreynd sem hvorki er ný eða ætti að koma sérstaklega á óvart og hefur lengi verið sveipuð bæði dulúð og skömm en fyrst og fremst þögn. Árið 2016 rauf Eva Dís Þórðardóttir þessa þögn. Hún er brotaþoli vændis og kom fram opinberlega og sagði frá reynslu sinni af vændi í Danmörku. Að hennar frumkvæði skrásetti Brynhildur Björnsdóttir sögur sex kvenna sem hafa verið í vændi á Íslandi í yfirgripsmikilli bók sinni Venjulegar konur – vændi á Íslandi, sem kom út fyrr á þessu ári.

SKRUNAÐU

Þær Brynhildur og Eva Dís kynntust árið 2017 þegar sú fyrrnefnda var blaðakona á Fréttablaðinu og vann að sérblaði um starfsemi Stígamóta.

„Þá töluðum við saman í þrjá tíma sem ég þurfti síðan að sjóða niður í 500 orða grein. Sem var ekki einfalt verk. En þegar við kvöddumst sagði ég að ef hún vildi einhverntíma segja sögu sína þá væri ég meira en tilbúin til að skrásetja hana. Tveimur og hálfu ári síðar hafði hún samband og svo fór að ég hitti hana og eina aðra konu á kaffihúsi 19. júní, táknræn og mikilvæg dagsetning í íslenskri kvennasögu,“ útskýrir Brynhildur. Saman ræddu þær um hvort Brynhildur væri til í að skrásetja sögur íslenskra kvenna sem höfðu verið í vændi á Íslandi til að vekja athygli á stöðu þeirra og líðan, á því samfélagsmeini sem vændiskaup eru og hvernig það er ekki nóg að skera upp herör gegn fíkniefnaneyslu og mansali til að uppræta vændi. Að vekja athygli á og horfast í augu við að fátækt, til dæmis í kjölfar veikinda gæti orðið til þess að konur leiddust út í vændi sem örþrifaráð væri einnig gríðarlega mikilvægt verkefni, sem og að benda á villandi viðhorf til þess hvað vændi raunverulega er. Hérlendis leiðast konur inn á þessa braut í neyð og verða fyrir skelfilegum og margbrotnum skaða.

Hamingjusama hóran og hin harmþrungna gleðikona

Brynhildur ákvað að taka verkefnið að sér og hafði samband við Forlagið sem samþykkti að gefa bókina út með því skilyrði að það yrði búinn til rammi og samhengi kringum sögur kvennanna. Hún lagðist svo í skriftir og rannsóknarvinnu eins og sést glögglega á langri heimildaskrá sem má finna aftast í bókinni. Þá kannar hún fyrirbærið vændi út frá mörgun hliðum, ræðir fyrir fagfólk sem unnið hefur með brotaþolum og beinir kastljósinu að þeim hópi sem viðheldur eftirspurninni eftir vændi, kaupendunum. Þó segir Brynhildur sögur kvennanna vera það sem fyrst og fremst þurfti að deila og tekur fram að hún er afar þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir því mikilvæga verkefni. Áður fyrr hafði Brynhildur sjálf, eins og líklega flest okkar, fyrirfram ákveðnar hugmyndir um vændi og það fólk sem í því lendir. „Þegar ég var yngri hafði ég að vissu leyti verið heilluð af birtingarmyndum kvenna í vændi í menningunni, bæði hamingjusömu hórunni og hinni harmþrungnu gleðikonu með gullhjartað. Ég var lengi með einhverjar rómantískar hugmyndir um að vændi væri staðfestingþess að kona væri þráð og girnileg og hefði þar með vald, því okkur er innrætt að vald kvenna felist í girnileika þeirra í augum karla. Ég var löngu búin að leggja þær hugmyndir á hilluna en það var áhugavert að taka þær fram og skoða í samhengi við bókina.“

Brynhildur Björnsdóttir og Eva Dís Þórðardóttir baráttukonur gegn vændi á ráðstefnu Stígamóta um afleiðingar vændis haustið 2022

Ást til sölu?

Aðspurð segir Brynhildur að það erfiðasta við gerð bókarinnar hafi verið þegar hún gerði sér grein fyrir hvað viðhorf til vændis eru lituð ranghugmyndum og fordómum og hversu mikið ofbeldi felst í að kaupa sér réttinn til að fara yfir mörk annarrar manneskju. Einnig fannst henni verulega sláandi að sjá hvað umræðan í samfélaginu var á sama tíma að snúast í þá átt að vændi eða kynlífsvinna væru sjálfsögð kvenréttindi.

„Konur sem ég bar virðingu fyrir héldu því fram að vændi væri eins og hver önnur vinna, sem það er ekki eins og bæði sögur kvennanna og brautryðjendarannsókn Önnu Þóru Kristinsdóttur á Stígamótum sýna svo vel. Klám- og vændisiðnaðurinn hefur spunnið þessar hugmyndir og fjármagnað þær til að viðhalda viðskiptamódeli sem gengur út á að fá eftirsóttasta hráefnið, ungar konur, til að fara sjálfviljugar út á þessa hættulegu braut. Mér finnst líka erfitt hvernig búið er að taka falleg hugtök eins og ást og kynlíf og hræra þeim saman við þetta ofbeldi þannig að vart verður skilið á milli. Þó vændi sé stundum kallað „ást til sölu“ á það að mínu mati ekkert skylt við ást. Sama máli gegnir um kynlíf því ef kynlíf er manneskjur sem koma saman í ást eða losta til að auka gleði og vellíðan þá er alveg ljóst að vændi er eitthvað annað en það. Mér fannst ekki erfitt að sitja með konunum og heyra sögurnar þeirra, þó það snerti mig djúpt, því þá vorum við allavega að gera eitthvað til að bæta ástandið.“

Ofbeldið sem felst í því að fara yfir mörk

Eitt af því sem kom Brynhildi mest á óvart í ferlinu var það að vændiskaupendur telja sig í rauninni vera að kaupa ást, hlýju og nánd. Flestar kvennanna lýstu því að karlarnir sem keyptu af þeim hafi ætlast til þess að þær nytu þess sem gert var við þær í vændinu, jafnvel krafist þess að þær fengju kynferðislega fullnægingu. Þá höfðu margir einnig þörf fyrir að tala um líf sitt og tilfinningar, fjölskyldu og áhugamál.

„Ég fór í gegnum umfjallanir um vændi í íslenskum fjölmiðlum frá síðustu 80 árum eða svo og þar segja konurnar aftur og aftur að þær séu nokkurskonar félagsráðgjafar. Flestir vændiskaupendur gera sér meðvitað eða ómeðvitað grein fyrir neyð kvennanna sem þeir kaupa. Sumir fá jafnvel eitthvað út úr þeirri vitneskju og njóta þess að beita hörku og enn meira ofbeldi. En meirihlutinn virðist, samkvæmt könnunum og frásögnum kvennanna, vera að kaupa sér gerviástarsamband í smástund. Líkamlegar snertingar og mannlegt samneyti í viðbót við kynlífstengdar athafnir. Vændiskaupandi sem var til viðtals í hlaðvarpinu Karlmennskan í september síðastliðnum segist ætla að kaupa vændi aftur bráðlega. Ekki til að stunda kynlíf, heldur til að upplifa nánd, knús og kúr. Þetta segir svo margt um svo margar hugmyndir samfélagsins um hlutverk kvenna, um aðgengi að sálfræðiþjónustu, um tengsl og nánd í nútímanum, um stöðu karlmanna og úreltra karlmennskuhugmynda. Ég fyrirlít vændiskaupendur og vorkenni þeim ekki neitt. Ég held þó að ef við gerum kannanir á kaupendum vændis og hverju þeir leitast eftir myndi það segja okkur svo margt um hvernig við getum gert samfélagið betra, minnkað ofbeldi og aukið hamingju.“

Áfallastreita kvenna í vændi meiri en hermanna

Í rannsókn Önnu Þóru Kristinsdóttur á tölfræðigögnum Stígamóta frá árunum 2013-2021 kom meðal annars fram að 132 einstaklingar sem eru brotaþolar vændis höfðu leitað til samtakanna. 60,7% þessa hóps hafði gert tilraun til sjálfsvígs og er þessi hópur mun líklegri en brotaþolar annars kynferðisofbeldis til að hafa gert sjálfsvígstilraunir eða hugleitt sjálfsvíg. Afleiðingar vændis eru því afar alvarlegar og í því samhengi nefnir Brynhildur rannsóknir sem sýna að konur í vændi upplifa meiri áfallastreitu en hermenn í stríði. Sjötíu prósent þessara kvenna greinast með slíka streitu en aðeins 20-30% hermanna. Aðrar starfstéttir eru svo með mun lægra hlutfall. Munurinn á áfallastreitu kvenna sem hafa verið í vændi og hermanna er líka sláandi þar sem vændisþolendur upplifa ekki bara venjuleg einkenni áfallastreitu heldur líka sjálfsásökun og lítið sjálfsvirði í mun meira mæli en hermennirnir.

„Áfallastreita er þó bara ein afleiðingin, aðrar eru kvíði og þunglyndi, skömm, sektarkennd, líkamlegir verkir og sjúkdómar. Við þurfum að hugsa um þessar niðurstöður. Hermenn í stríði fara í gegnum aðstæður sem flestum okkar finnst óbærilegt að hugsa um, eru í stöðugri lífshættu og þurfa líka að horfast í augu við þjáningar annars fólks, jafnvel þeirra sem þeir hafa sjálfir valdið skaða. Vændi getur verið jafnvel meiri streitu- og þjáningavaldur en það. Sú afleiðing vændis sem mér kom mest á óvart eða vissi minnst um kemur til þegar þolendur geta ekki afborið að vera í aðstæðunum og aftengja sig, flýja í huganum frá því sem verið er að gera við þær. Í kjölfarið eiga þær svo í erfiðleikum með að tengjast tilfinningum sínum og virkni aftur að ofbeldinu loknu. Til að mynda geta þær átt erfitt með að fylgjast með samræðum því þær lokuðu svo kyrfilega á það sem gerendurnir sögðu við þær á meðan á ofbeldinu stóð. Sumir vilja meina að vændi sé bara eins og hver önnur erfiðisvinna. En það hefur ekkert starf sömu afleiðingar og vændi, ekki einu sinni hermennska og það er svo mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því.“

Konur sem eiga skilið sömu lífshamingju og allar aðrar

Bókin ber titilinn Venjulegar konur, nokkuð sem Brynhildur útskýrir að hafi komið til vegna þess hve oft Eva Dís fékk oft að heyra slíka athugasemd, það er að segja að hún væri bara venjuleg. Það sýnir okkur líka að fólk heldur að konur í vændi hljóti að vera eitthvað „öðruvísi“.

„Það er svo mikilvægt að leggja áherslu á að konur í vændi eru fjarri því að vera allar eins og þær búa yfir ólíkri reynslu. Og þær eru venjulegar að því leyti að þær skera sig ekkert úr hópnum. Þetta eru konurnar á undan þér í röðinni í Bónus, þær sem eru með þér í foreldrafélaginu, jafnvel saumaklúbbnum þínum. Konur sem bera þetta leyndarmál og allar afleiðingar vændisins ekki endilega utan á sér en þurfa þó að lifa með þessum sömu afleiðingum alla daga. Konur sem eiga skilið sömu virðingu, sömu aðstoð og sömu lífshamingju og allar aðrar konur.  Í rauninni felst ákveðin þversögn í því að kalla þær venjulegar því þær hafa lifað af ótrúlega erfiða lífsreynslu, en eru ennþá hér, eru til frásagnar um reynslu sína og eru hetjur og fyrirmyndir á því sviði.“

Hún segir mikilvægt að þessum konum sé mætt af skilningi, nærgætni og virðingu. Það gæti því verið ákveðinn hagur í því að lesa bókina og öðlast betri innsýn í reynsluheim þessara kvenna fyrir öll þau sem gætu einhverntíma þurft að hafa afskipti af eða veita konum með þessa reynslu þjónustu.

„Þar má nefna starfsfólk heilsugæslu, löggæslu og félagsmálayfirvöld. Og öll sem gætu haft stefnumótandi áhrif á málaflokkinn til að mynda stjórnmálafólk, grasrótarsamtök og dómstóla. Öll sem gætu átt einstakling í sínu lífi með þessa reynslu,  til að auka skilning, nærgætni og virðingu. Og svo auðvitað allir sem hafa látið sér detta í hug að kaupa vændi. En þeir eru ekkert endilega að fara að lesa þessa bók, held ég,“ segir Brynhildur að lokum.

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót