Vantar þig réttu orðin?14. febrúar 2023

Í dag gefa Stígamót út leiðbeiningar fyrir foreldra um hvernig gott er að taka samtal við börn og unglinga um klám. Við vitum að í dag hafa unglingar og allt niður í mjög ung börn aðgengi að grófu og ofbeldisfullu klámi á netinu. Það setur auknar kröfur á foreldra að ræða skaðsemi kláms við börnin sín. Vantar þig réttu orðin til að taka klámspjallið? Við hjálpum þér!

SKRUNAÐU

 

 

Leiðbeiningarnar er að finna hér

 

Klámáhorf útbreitt meðal ungmenna
Íslenskar rannsóknir hafa ítrekað sýnt á síðastliðnum árum að áhorf á klám er mjög almennt og reglulegt meðal stórs hóps unglinga hér á landi. Tæpur helmingur stráka í efri bekkjum grunnskóla horfir á klám í hverri viku (frá 1x í viku upp í oft á dag) og á framhaldsskólastiginu eykst áhorfið enn frekar og stór meirihluti stráka á þeim aldri neytir kláms reglulega. Börn allt niður í 6-7 ára sjá óvart klám á netinu og vísbendingar eru um að meðalaldur við fyrsta áhorf sé í kringum 11 ára. Þetta veldur mörgum foreldrum áhyggjum, sem og fagfólki sem vinnur með börnum og unglingum og í þjónustu við brotaþola ofbeldis.

Skaðlegar afleiðingar klámáhorfs
Skaðlegar afleiðingar áhorfs á klám geta verið miklar og langvarandi, ekki síst fyrir börn og unglinga sem ekki eru fullmótuð með tilliti til bæði sjálfsmyndar og heilaþroska. Skaðsemi kláms felst m.a. í því að ýta undir verulega óraunhæfar væntingar um útlit líkama (bæði eigin og annarra) sem og frammistöðu í kynlífi. Þetta getur skapað ýmis vandamál í parsamböndunum, sem og öllum kynferðislegum samskiptum þar sem mörk eru ekki virt. Kröfur eru gerðar um ákveðna hegðun í kynlífi og sjálfsmyndin stenst ekki samanburð við klámið. Þá er hægt að ánetjast klámi og því líklegra því fyrr sem neyslan hefst. Þetta getur bæði valdið því að klámáhorf fer úr böndunum og skerðir lífsgæði auk þess sem einstaklingurinn fer að eiga í vanda með kynferðislega örvun án hjálpar kláms.

Óheft aðgengi að ofbeldisfullu klámi
Aðgengi að klámi hefur umturnast og stóraukist á síðustu 20 árum. Þar sem áður þurfti að nálgast tímarit eða myndbandsspólur í bakherbergjum er nú nóg að hafa aðgang að netsambandi, t.d. í gegnum snjalltæki. Þannig hafa öll börn og unglingar sem eiga snjalltæki svo til óheftan aðgang að grófu og ofbeldisfullu klámefni. Staðreyndin er sú að megnið af klámi sem er framleitt er samtvinnað við niðurlægingu, kvenfyrirlitningu, sifjaspell, rasisma eða annað ofbeldi. Þetta gera margir foreldrar sér ekki grein fyrir og eru kannski enn með hugmyndir um klám byggðar á veruleika þeirra unglingsára fyrir nokkrum áratugum síðan. Klám dagsins í dag er að jafnaði miklu grófara og ofbeldisfyllra en það sem tíðkaðist áður.

Fræðum um klám eins og allt annað sem getur skaðað börn
Foreldrar eru margir, ef ekki flestir, duglegir að ræða við börn sín um það sem getur skaðað þau enda vilja allir foreldrar vernda börn sín eftir fremsta megni. Foreldrar kenna umferðarreglur, segja börnum að vara sig á ókunnugum, fræða um hollan mat og um skaðsemi áfengis, tóbaks og annarra vímuefna. Nú er nauðsynlegt að foreldrar taki höndum saman og átti sig á mikilvægi þess að tala um klám við börnin sín og unglinga, því klám er sannarlega ógn við heilsu og þroska ungmenna á Íslandi. En marga foreldra óar við að taka þetta samtal og finnst það ýmist vandræðalegt, ógnvekjandi eða óþægilegt. Þess vegna hafa nú Stígamót gefið út samtalsleiðbeiningar til að hjálpa foreldrum að finna öryggi og réttu orðin til að taka spjallið.

Leiðbeiningarnar eru skrifaðar með ólíka aldurshópa í huga og snerta á hlutum eins og hvaða tón er gott að nota, hvar og hvenær er gott að spjalla og til hvaða orða sé gagnlegt að grípa. Í leiðbeiningunum felst nánari fræðsla um skaðsemi kláms þannig að foreldrar hafi greiðan aðgang að þekkingu sem nýtist þeim í samtali við börn sín. Þá er líka fjallað um hvernig sé hægt að bregðast við ef barnið hefur þegar séð klám eða notar það reglulega.

Ungmenni eiga skilið að nálgast kynlíf á eigin forsendum
Hvert ungmenni ætti að búa við frelsi til að upplifa sig sem kynveru, óháð viðmiðum klámefnis sem framleitt er sem söluvara en ekki kynfræðsla. Klámframleiðendur eiga ekki að hafa það vald að kenna krökkum til hvers er ætlast af þeim sem kynverur. Foreldrar geta gegnt lykilhlutverki í að fræða börn og unglinga þannig að þau geti svo nálgast kynlíf á jákvæðan, skemmtilegan og öruggan hátt á eigin forsendum.

Leiðbeiningarnar er að finna hér

Verkefnið er unnið á vegum Stígamóta í samstarfi við Frístundamiðstöðina Tjörnina, Jafnréttisskólann, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Rannkyn.

 

 

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót