Skaðleg áhrif kláms á börn27. janúar 2025

Ísland er framarlega meðal Norðurlanda í löggjöf er varðar bann við dreifingu á kynferðislegu efni í óþökk þess sem á því birtist. Sama má segja um bann við hótunum um að gera slíkt. Önnur Norðurlönd líta til okkar sem fyrirmynd í hinu síðarnefnda. Við höfum hins vegar dregið lappirnar í að beinlínis hefta aðgengi barna að klámi á netinu og að  tryggja að börn fái fræðslu innan skólakerfisins um skaðsemi kláms og muninn á klámi og kynlífi með öflugri kynfræðslu.

Við erum í sömu stöðu og Svíþjóð, Noregur og Finnland hvað varðar löggjöf gegn dreifingu á klámi en löggjöfin okkar er gömul og lítið notuð eins og á hinum Norðurlöndunum. Danir banna ekki dreifingu á klámi en hafa hins vegar gert heiðarlega tilraun til að tryggja aldursgreiningu á klámsíðum. Evrópusambandið gerði athugasemdir við þá lagasetningu Dana og nú hafa nokkur ríki innan ESB tekið sig saman til að þrýsta á samevrópskar reglur til að hefta aðgengi barna að klámi.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Stígamót unnu ásamt Sveriges Kvinnoorganisationer (Sænsku kvenréttindasamtökunum) og Kvinnofronen (Norsku kvenréttindasamtökunum). Rannsóknin hefur verið birt á ensku undir heitinu Curbing Online Pornography – Lessons from the Nordics.

Klám á algengustu klámsíðunum í dag er ofbeldisfullt, rasískt, sýnir yfirburðastöðu karla gegn konum og niðurlægir konur. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á fullorðnum körlum gefa til kynna að karlar sem neyta kláms eru líklegri til að gera lítið úr ofbeldi gegn konum og verða sjálfir almennt árásargjarnari. Að auki getur klám haft þau áhrif á konur að þær taki að sér hlutverk í kynlífi sem þær sjá og læra í klámi, hlutverk hins undirgefna viðfangs sem má þola ofbeldi. Klám hefur áhrif á væntingar og skynjun karla á kynlífi og sumir reyna að endurtaka ofbeldisfull athæfi sem sjást í klámi. Þetta þekkja ráðgjafar hjá Stígamótum því miður allt of vel. Að auki hefur klámneysla áhrif á getu karla til að stunda kynlíf þar sem virðing og jafnræði ríkja. Við vitum meira um hvaða áhrif klámneysla hefur á fullorðna karla en unga drengi en það sem við vitum er að óþroskaðir heilar eru fljótari að meðtaka sterk skilaboð. Þá er framleiðsla á klámi oft ofbeldi í sjálfu sér.

Það eru vísbendingar víða um heim um vaxandi ofbeldi ungra karla gegn ungum konum og kvárum og er það rakið til áhrifa af óheftu aðgengi að ofbeldisfullu klámi frá unga aldri. Þetta hefur til dæmis verið tekið saman í nýlegri skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Sífellt fleiri ríki einsetja sér að taka á þessum vanda og eru Frakkar þar framarlega en Norrænu þjóðirnar eru að vakna til vitundar. Okkur ber skylda til að vernda börn gegn skaða en að útsetja þau fyrir ofbeldisfullu klámi sem leitar þau uppi á netinu er ekki í þeim anda. Við sitjum hjá á meðan við vitum af skaðanum. Það er kominn tími til að nýta þekkingu okkar til að vernda börn fyrir skaða, þekkinguna og tillögur að úrræðum er að finna í þessari nýútkomnu skýrslu (Curbing-Online-Pornography).

SKRUNAÐU

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót