Sjúktspjall hefði breytt miklu fyrir mig18. apríl 2023

Sjúktspjall stendur á tímamótum en ár er síðan spjallinu var hleypt af stokkunum. Á þessu ári hafa hundruð ungmenna sótt sér ráðgjöf og stuðning í gegnum nafnlausa spjallið.

Algengasti notandinn á fyrsta ári Sjúks spjalls er 16 ára stúlka sem vill fá staðfestingu á því að henni hafi verið nauðgað. Stúlkurnar eru í þolendastöðu og hafa samband til að fá hjálp, aðstoð við að skilgreina þessa erfiðu reynslu sína og ráðgjöf um hvert þær geti leitað.

Birta Ósk er verkefnastýri Sjúka spjallsins. Hlutverk háns er að halda utan um allt sem viðkemur spjallinu og stundum sest hán sjálft á vakt við tölvuna og svarar spurningum og vangaveltum þeirra sem þangað leita. Birta segir eitt og annað hafa komið sér á óvart þegar hán hóf að svara fyrirspurnum ungmenna sem leita til spjallsins. Áður hafði hán haldið að unga kynslóðin væri með flest á hreinu þegar kemur að þessum málum. Að þau vissu hvað ofbeldi væri og þess háttar en það hafi ekki endilega verið raunin.

„Það kom mér að vissu leyti á óvart en þó ekki öllu því það getur verið afar flókið að skilgreina ofbeldi sem man sjálft verður fyrir. Mér fannst líka mjög sláandi að sjá hvað unga fólkið er að fást við mikla erfiðleika. En það kom mér á sama hátt ánægjulega á óvart hvað spjallið er mikið notað og hve mikið við getum hjálpað þeim sem leita til okkar.“

Spjallið er hugsað fyrir ungmenni yngri en 20 ára af öllum kynjum og segir Birta að samkvæmt þeirra gögnum sé meðal notandinn á fyrsta ári spjallsins 16 ára stúlka. Algengasta fyrirspurn þeirra er því miður af svipuðum toga: Þær eru oftast að koma á spjallið til að fá staðfestingu á því að þeim hafi verið nauðgað. Þær eru í þolendastöðu og hafa samband til að fá hjálp, aðstoð við að skilgreina þessa erfiðu reynslu sína og ráðgjöf um hvert þær geti leitað.

Á spjallinu eru krakkar líka mikið að spyrja kynfræðsluspurninga eða að spyrja almennt um kynlíf. Hvort það sé skrýtið að vilja þetta eða hitt í kynlífi eða tala um eitthvað sem þeim þykir vandræðalegt. Það er mjög mikilvægt að hafa þennan vettvang til að ræða málin því það er jafnvel enginn annar sem þau geta leitað til, nema þá kannski sálfræðingur. Það er líka tvímælalaust áreiðanlegra og betra að leita ráða í þessum málum hjá fullorðnum einstaklingi sem er fagaðili heldur en til dæmis á meðal jafningja sinna.“

Birta segir spjallið tvímælalaust skipta máli. „Mér finnst þetta auðvitað algjör snilld. Ef ég horfi til baka þá hefði það breytt miklu að hafa aðgang að svona spjalli á þessum árum. Þarna er hægt að fá svör við mörgu sem man áttar sig svo ekki sjálft á fyrr en mörgum árum seinna. Það hefði breytt miklu fyrir mig að fá svör og aðstoð á unglingsárum.“

Sjúktspjall er opið mánudaga til miðvikudaga kl. 20-22

SKRUNAÐU

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót