Sjúkást 2023 – Reynsla ungmennanna í fyrirrúmi9. mars 2023

Í dag fer af stað ný herferð Sjúk ást á vegum Stígamóta sem fagnar því að ár er síðan úrræðið Sjúkt spjall var opnað. Sjúkt spjall er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni um sambönd, samskipti og ofbeldi þar sem þau geta rætt við fagaðila um reynslu sína í trúnaði.

SKRUNAÐU

Frá því spjallið opnaði höfum við átt samtöl við tæplega 250 ungmenni en stærsti hópurinn sem hefur leitað aðstoðar eru unglingsstúlkur með reynslu af ofbeldissambandi. Rúmlega helmingur þeirra sem höfðu samband, þetta fyrsta starfsár spjallsins, vantaði ráðgjöf vegna ofbeldis – flest sem þolendur, en einnig sem gerendur og aðstandendur. Mörg lýstu grófu andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Fæst þessara ungmenna höfðu rætt upplifun sína við nokkurn fullorðinn áður en þau leituðu á Sjúkt spjall eftir ráðgjöf og fræðslu.

Í þessum samtölum sjáum við nokkur algeng þemu og spurningar sem unglingarnir þurfa svör við. Í herferð ársins höfum við fengið að láni tilvitnanir úr spjallinu til að sýna öðrum unglingum að þau eru ekki ein og gera sýnilegan reynsluheim jafningja þeirra úr skóla og félagslífi. Herferð ársins leitast einnig við að færa unglingunum svör við þessum algengu vangaveltum.

Hér eru algengustu þemun og undir hverju þema er eitt dæmi af mörgum af Sjúku spjalli:

 • Var mér nauðgað?
  • „Hann hélt alltaf áfram að spyrja þangað til ég þorði ekki lengur að segja nei. Er það nauðgun?“ – Stelpa 14 ára
 • Er ég í ofbeldissambandi?
  • „Er ekki líka til eitthvað sem heitir andlegt ofbeldi? Þúst ég hef aldrei verið í sambandi, veit ekki hvað er eðlilegt.“ – Stelpa 19 ára
 • Er eðlilegt að líða svona?
  • „Mér líður ógeðslega og ég fæ martraðir. Er ég ekki bara að vera dramatískt?“ – Stálp 14 ára
 • Þarf ég að gera þetta?
  • „Mér finnst ekkert gaman að taka svona myndir af mér. Þarf ég að senda nudes?“ – Stelpa 15 ára
 • Fór ég yfir mörk?
  • „Mér fannst ég hafa spurt hana.“ – Strákur 20 ára
 • Ég get ekki sagt frá
  • „Ég get ekki sagt neinum frá, mér finnst þetta allt vera mér að kenna.“ – Stelpa 14 ára

Auk þess koma inn ýmsar spurningar um sambönd, ástarsorg og kynlíf og var eitt plakat herferðarinnar og myndband helgað því, til að leggja áherslu á að allar spurningar eru velkomnar.

 • Má ég spyrja?
  • „Hvernig veit ég hvort ég eigi að hætta með kærustunni minni?“ – strákur 18 ára

Það er augljóst af samtölum við öll þessi ungmenni að mörg eru að upplifa alvarlegt ofbeldi en eiga erfitt með að skilgreina reynslu sína. Jafnframt hafa þau takmarkaða þekkingu á því hvað er eðlilegt í samböndum og hvað sé eðlileg líðan í kjölfar ofbeldis. Þá er rauður þráður í gegnum samtölin hvað unglingarnir eru einangraðir með þessa reynslu sína og finnst erfitt að leita aðstoðar í nærumhverfi sínu. Sjúkt spjall verður því fyrsta skrefið í að rjúfa þessa einangrun fyrir mörg sem hafa samband.

Með herferðinni í ár fylgja veggspjöld og myndbönd um þessi meginþemu þar sem er að finna tilvitnanir úr spjallinu. Plakötunum hefur verið dreift í allar félagsmiðstöðvar og framhaldsskóla á Íslandi. Jafnframt bjóða félagsmiðstöðvar upp á Sjúk ást fræðslu í samvinnu við Stígamót en undanfarin ár hafa þúsundir unglinga notið góðs af slíkri fræðslu.

Öll myndbönd og veggspjöld herferðarinnar er að finna á heimasíðu verkefnisins Sjúk ást

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót