Sjálfið29. mars 2016

Það er alltaf jafn mikill innblástur og sigur fyrir okkur á Stígamótum þegar fólkið okkar stígur stór skref og notar sínar leiðir til að koma tilfinningum sínum og líðan í orð og tekur um leið valdið sitt til baka. Hér er stórkostlegt dæmi um einmitt það frá ungri konu og kallar hún skrif sín Sjálfið. Takk fyrir að deila þessu með okkar hugrakka og duglega kona

SKRUNAÐU

Það er alltaf jafn mikill innblástur og sigur fyrir okkur á Stígamótum þegar fólkið okkar stígur stór skref og notar sínar leiðir til að koma tilfinningum sínum og líðan í orð og tekur um leið valdið sitt til baka. Hér er stórkostlegt dæmi um einmitt það frá ungri konu og kallar hún skrif sín Sjálfið. Takk fyrir að deila þessu með okkar hugrakka og duglega kona.

Það er ekki gefið morfín við andlegum verkjum. Þú getur ekki séð þessa verki, þú getur aðeins fundið þá.

Ég lenti í hópnauðgun.

Daginn sem þetta gerðist, afneitaði ég því. Engin líkamleg ummerki báru sönnun til þess. Ef ég sagði við mig nógu oft að þetta hafi ekki gerst, gæti ég sannfært sjálfa mig.
Það gerðist ekki.
Sama hversu mikið ég reyndi.

Það sem ég vissi var að sálin var á þrotum komin. Kramin, barin og sundurtætt.

Ég lenti í hópnauðgun. Fjórir menn.

Öll forðun er af hinu slæma, þegar litið er á langhlaupið.
Stuttir sprettir, duga skamt.
Það tók mig 3 ár að sannreyna það.

Ég lenti í hópnauðgun, fjórir menn sem ákváðu að brjóta í mér allt það sem ég var.

Eini gróandi sem ég gef sjálfri mér er þegar ég ríf upp saumana.
Það felst í því að tala, það getur verið ótrúlega vont.
Svo vont að ég get ekki farið fram úr, ég get ekki sinnt mínum daglegum verkum.
Ég verð andlega lömuð, svo illa að það verður líkamlegt.                 
Get ekki hreyft mig, dofin, stjörf stari ég en sé ekki neitt.

Ég lenti í hópnauðgun, fjórir menn sem ákváðu að brjóta í mér allt það sem ég var.

Allt umtal tengt því sem ég lenti í, veldur mér vanlíðan.
Það er misjafnt hvernig það er, stundum get ég hrisst það af mér.
Stundum stari ég stjörf, get ekki hreyft mig, lömuð, kemst ekkert.
Stundum næ ég að koma mér út úr aðstæðum, fer í burtu, í eitthvað horn og tel ofan í mig kjarkinn. Þurrka burt tárin sem streyma óstjórnlega niður kinnina.
Stundum líður mér eins og ég sé aftur á staðnum sem þetta gerðist fyrir mig, algjörlega máttlaus og vanmátturinn hellist yfir mig.

Ég lenti í hópnauðgun, fjórir menn sem ákváðu að brjóta í mér allt það sem ég var.

Í þessum aðstæðum er það eina sem kemst í hugann minn er að ég vona að fólk sjái mig ekki, sjái ekki hvað mér líður illa, sjái ekki tárin í augunum.
Á sama tíma langar mig ekki að fela mig. Af því að ég veit innst inni að ég á ekki að þurfa þess.
En kannski núna á þessum tíma er það eina sem ég ræð við.

Ég lenti í hópnauðgun, fjórir menn sem ákváðu að brjóta í mér allt það sem ég var.

Það sem mér þykir verst er þegar fólk tekur upp á því að segja nauðgunarbrandara. Það gerir mig reiða og fólkið sem hlær að bröndurnum fær mig til að efast um þroska þeirra.
Einnig fólk sem setur fram staðhæfingar sem eru enganvegin sannar, óraunhæfar,ósiðsamlegar og allt upp í fáránlegar.
Á slíkum stundum langar mig til að standa upp, viðurkenna vanmátt minn og það er sumt sem á ekki að grínast með.
En sálartetrið þorir því ekki.

Ég lenti í hópnauðgun, fjórir menn sem ákváðu að brjóta í mér allt það sem ég var.

Það sem kom fyrir mig, er ekki hægt að lýsa á þann hátt sem þú getur fullkomlega skilið.
Því eftir það sem gerðist efaðist ég um sjálfið, efaðist um fólkið í kringum mig. Ég þurfti að læra að treysta upp á nýtt. Sætta mig við þá hugmynd sem ég hafði á heiminum áður, væri breytt.
Ég var hræddust um að verða breytt manneskja, á þann hátt að ég mundi ekki sjá ljósið í lífinu á ný.

En sannleikurinn er að ég er breytt, ekki á þann hátt sem ég hélt ég yrði. Því ég er ennþá á lífi í dag, ég brosi, ég hlæ, ég samgleðst, ég hef vilja, ég hef skoðanir og metnað.

Það sem kemur mér áfram, er stuðningurinn frá mínum allra nánustu og það helsta er þrjóska.
Þrjóska fyrir því að halda áfram að trúa á það góða í fólki.
Ég ætla ekki að láta fjóra menn hafa áhrif á mína framtíð og hvernig ég horfi á heiminn.
Því fyrir mér væri það sigur fyrir þá.
Ég ætla ekki að vera fórnarlambið í sögu minni, ég vil standa uppi sem hetjan.

Ég lenti í hópnauðgun, fjórir menn sem ákváðu að brjóta í mér allt það sem ég var.

Í dag er ég að vinna í mínu áfalli, eilífðar verkefni.
Hver dagur er þrautraun.
Stundum næturnar líka.

En á hverjum degi stend ég svona… Ég lenti í hópnauðgun, fjórir menn sem ákváðu að brjóta í mér allt það sem ég var,nema þrjósku mína og vilja um frábært líf

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót