Réttarkerfið notað til að niðurlægja brotaþola ofbeldis7. september 2021

Í fyrradag birti hæstaréttarlögmaður og forseti dómstóla KSÍ lögregluskýrslur, með persónugreinanlegum gögnum úr skýrslutöku konu sem var að kæra ofbeldi. Enn og aftur bregst réttarvörslukerfið brotaþolum ofbeldis þar sem gögn úr kerfinu komast í hendur manna sem nýta þau til að rægja og draga úr trúverðugleika þolanda.

SKRUNAÐU

Brotalamir réttarkerfisins eru mörgum kunnar en alltaf skulu finnast nýjar leiðir til að nýta það gegn þolendum ofbeldis. Stígamót hafa vakið athygli á niðurfellingarhlutfalli nauðgunarmála en yfir 70% þeirra eru felld niður og komast því aldrei í dómsal. Mál átta kvenna eru nú til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu einmitt af því að málin þeirra voru felld niður í íslensku réttarkerfi án þess að fá viðunandi meðferð eða að tekið væri nægt tillit til sönnunargagna. Þau fáu mál sem komast frá saksóknaraembættum og fyrir dóm eru oft gríðarlengi í meðförum kerfisins sem skilar sér í milduðum dómi í Landsrétti fari svo að yfirhöfuð sé sakfellt í málinu. Konur sem kæra ofbeldi eiga alltaf yfir höfði sér ógnina um að verða kærðar fyrir rangar sakargiftir sé málið þeirra fellt niður og ef þær voga sér að segja upphátt hver beitti þær ofbeldi dettur kæra fyrir meiðyrði í hús.

Nú birtir fagaðili sem starfar innan kerfisins sem lögmaður lögregluskýrslur á Facebook í máli sem hann hefur enga beina aðkomu að. Í ofanálag „lækar“ vararíkissaksóknari færsluna en hann gegnir embætti sem hefur úrslitavald um það hvort ofbeldismál fái áheyrn dómara eður ei. Stundum er talað um að fólk innan kerfisins sé velviljað og allir séu að gera sitt besta – það sé bara flókið að ná fram sakfellingum og sanna brot. Þessi framganga vararíkissaksóknara sýnir á hinn bóginn alvarlegan viðhorfsvanda háttsetts embættismanns í kerfinu og gefur ekki von um að menning sem leyfir sér að gera lítið úr brotaþolum ofbeldis verði upprætt á næstunni – og það í kerfinu sem á einmitt að vernda þessa sömu brotaþola.

Það er ekkert skrýtið við það að konur kæri ekki ofbeldið sem þær voru beittar eða að þær segi ekki frá því. Réttarvörslukerfið passar vel upp á það. Alltaf skulu finnast nýir og nýir angar þess sem nýttir eru á einhvern hátt gegn brotaþola – til þess að hræða, þagga og lítilsvirða. Þessu verður að linna.

Stígamót skora á:

  1. Dómsmálaráðherra að skipa nýjan vararíkissaksóknara
  2. Alla stjórnmálaflokka í framboði að leggja fram tillögur um hvernig megi tryggja að réttarkerfið verndi fólk gegn ofbeldi en sé ekki verkfæri í höndum þeirra sem beita því og hjálparkokka þeirra
  3. Alla frambjóðendur til stjórnar KSÍ að gera upp við sig hvort þeim finnist eðlilegt að maður gegni trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna sem gengur fram með þessum hætti gegn brotaþola ofbeldis

Fleiri greinar

Hafa samband

Netspjall Stígamóta

Hér getur þú spjallað við ráðgjafa hjá Stígamótum.

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót