Rannsókn á reynslu fólks af vændi6. október 2021

Stígamót í samstarfi við rannsakendur í kynjafræði við Háskóla Íslands standa nú að rannsókn á reynslu fólks af vændi. Óskað er eftir þátttakendum með þessa reynslu.

SKRUNAÐU

Lítið er vitað um bakgrunn og aðstæður fólks í vændi hér á landi. Árlega leitar nokkur hópur fólks til Stígamóta sem hafa verið í vændi. Þau eiga það sameiginlegt að upplifa vændi sem kynferðisofbeldi og leita leiða til að komast úr því. Úrræði til útgöngu (e. exit options) hafa ekki verið kortlögð hér á landi og engar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á þörfum eða þjónustu við þennan hóp.

Rannsóknin sem unnin er í samstarfi við Stígamót mun í fyrsta lagi kortleggja bakgrunn og reynslu fólks í vændi. Í öðru lagi þjónustu sem þau hafa notið sem og þjónustu sem skortir og úrræði til útgöngu. Sjónum verður sérstaklega beint að úrræðum sem skortir með það að markmiði að eiga samtal við stjórnvöld um leiðir til úrbóta. Rannsókninni er því ætlað að hafa áhrif á stefnumótun. Framkvæmd verða 15-20 eigindleg viðtöl auk þess sem aflað verður gagna um þjónustu og úrræði sem gefist hafa vel annars staðar.

Sveina Hjördís Þorvaldsdóttir meistaranemi í kynjafræði mun vinna rannsóknina. Rannsóknin er styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og ábyrgðarmaður hennar er Gyða Margrét Pétursdóttir prófessor í kynjafræði. Rannsóknin er meistaraverkefni Sveinu auk þess sem Sveina og Gyða hyggjast birta greinar byggðar á niðurstöðum hennar.

Hér með er óskað eftir þátttakendum í rannsóknina. Farið verður með öll gögn þessarar rannsóknar sem trúnaðarupplýsingar. Þátttakendum verða gefin dulnefni og öllum gögnum verður eytt að lokinni afritun og greiningu viðtala. Auk þess verður gætt til hins ítrasta að ekki verði unnt að rekja persónugreinanlegar upplýsingar aftur til þátttakenda í rannsókninni. Þátttakanda er frjálst að hætta þátttöku í rannsókninni hvenær sem er í rannsóknarferlinu.

Viljirðu taka þátt og deila reynslu þinni til að skapa meiri þekkingu á aðstæðum fólks í vændi á Íslandi biðjum við þig um að hafa samband við Stígamót eða beint við rannsakendur:

Sveina Hjördís Þorvaldsdóttir
[email protected]

Gyða Margrét Pétursdóttir
[email protected]
S. 525-5455

Stígamót
[email protected]
S. 562-6868

 

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót