Fyrsta viðtal

Það er best að hafa samband í síma 562-6868 eða senda tölvupóst á [email protected] til að bóka tíma. Nafn þitt er skráð á biðlista og þú færð símtal um leið og ráðgjafi getur tekið á móti þér. Yfirleitt er biðin eftir fyrsta viðtali um 8-9 vikur. Það á líka við um viðtöl sem fara fram í síma eða í fjarbúnaði. Það er til þess gert að ráðgjafi sé laus til að sinna þér eins og best verður á kosið. Þú getur komið til okkar án þess að hafa pantað tíma en því miður er ólíklegt að einhver geti tekið á móti þér í viðtal þá því ráðgjafarnir eru bókaðir fram í tímann. Þegar þú pantar tíma er óskað eftir að fá gefið upp fornafn og símanúmer. Einnig er hægt að panta tíma nafnlaust ef þess er óskað.

Það getur verið mjög erfitt að stíga þau skref að koma í viðtal. Við vitum það og gerum allt til þess að taka vel á móti þér. Ekki láta það stoppa þig ef þú finnur fyrir kvíða eða streitu. Við skiljum það vel. Ráðgjafarnir okkar vita að það er oft erfitt fyrir fólk að koma og sjá þig fyrst og fremst sem sterkan einstakling sem er að standa með sjálfum sér.

Húsnæðið er aðgengilegt öllum. Hurðin á jarðhæðinni er sjálfvirk. Það eru tvær lyftur sem flytur fólk upp á þriðju hæð. Fyrir framan bygginguna eru nokkur merkt bílastæði fyrir fatlað fólk. Við erum með salerni sem hentar fólki sem notar hjálpartæki.

Viðtöl á staðnum

Þegar þú hefur pantað tíma þá færðu sms skilaboð sólarhring áður til að minna þig á tímann. Húsnæði Stígamóta er að Höfðabakki 9A , 3. hæð. Þegar inn er komið færðu þér sæti í biðstofunni og tekið verður á móti þér. Þú þarft ef til vill að hinkra augnablik eftir ráðgjafa en almennt er vel gætt að tímamörkum svo það er aldrei löng bið. Í biðstofunni er hægt að fá vatn, kaffi og te. Lagt er upp úr að umhverfið sé hlýlegt og að fólki líði sem best. Þegar komið er að tímanum þínum kemur ráðgjafinn þinn og sækir þig.

Hver ráðgjafi á sína skrifstofu og er engin þeirra eins. Þær eru líkt og anddyrið heimilislegar og eftir höfði hvers og eins ráðgjafa. Í fyrsta viðtali er oftast lögð fyrir komuskýrsla sem er ekki persónurekjanleg. Stundum er það gert aðeins seinna í ferlinu. Skýrslan samanstendur af spurningum og er lögð fyrir til að afla almennra upplýsinga um eðli kynferðisofbeldis sem kemur til góðra nota í baráttunni gegn því. Einnig hjálpar hún brotaþolum við að ná utan um ofbeldið, tjá og skoða hvaða afleiðingum þeir finna fyrir. Þú þarft ekki að svara komuskýrslu ef þú vilt það ekki.

Viðtöl í síma eða í fjarbúnaði

Þegar þú hefur pantað tíma færðu sms skilaboð sólarhring áður til að minna til á tímann. Þegar komið er að tímanum þínum hringir þú í 5626868 og gefur upp nafnið þitt og þér verður gefið samband við ráðgjafann þinn. Ef þú vilt fá skype viðtal verður þú beðin um að senda ráðgjafanum þínum tölvupóst með skype-aðganginum þínum og ráðgjafi hefur samband við þig. Einnig bjóðum við upp á viðtöl í gegnum zoom og þá sendir ráðgjafi link í tölvupósti til þín.