Opið bréf til dómsmálaráðherra16. febrúar 2021

Yfirlýsing vegna ófullnægjandi aðgangs fatlaðs fólks að réttarvörslukerfinu frá Stígamótum, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.

SKRUNAÐU

Þeir brotaþolar sem búa við skerðingar, eru sérlega viðkvæmur hópur sem íslenska ríkinu, sem hefur fullgilt samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks, ber skylda til að mæta á þeirra forsendum. Það er því áskorun okkar til dómsmálaráðherra og dómstólasýslunnar að gera án tafar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að dómarar, saksóknarar og réttarkerfið allt, fái viðeigandi fræðslu og þjálfun um aðstæður, þarfir og réttindi fatlaðs fólks, til að tryggt verði að það þurfi ekki að þola mismunun hvað varðar aðgang að dómskerfinu og vernd réttarkerfisins.

Þann 11. desember sl. sýknaði Landsréttur sakborning í kynferðisbrotamáli gegn barnungum brotaþola. Sakborningurinn hafði verið dæmdur í 7 ára fangelsi í Héraðsdómi árið 2019 fyrir ítrekuð kynferðisbrot gagnvart einhverfum syni sínum, yfir margra ára tímabil. Samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms þótti frásögn brotaþola trúverðug. Málinu var áfrýjað til Landsréttar sem sneri við niðurstöðu héraðsdóms og sýknaði sakborning, meðal annars á þessum forsendum:

„Við skýrslugjöf af brotaþola fyrir héraðsdómi var þess ekki gætt … að hann gæfi sjálfstæða lýsingu á atvikum málsins. Kann það að skýrast af stöðu brotaþola, sem hefur verið greindur með ódæmigerða einhverfu. Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að það torveldar mjög möguleika á að meta trúverðugleika framburðar hans … .”

Má af þessu draga þá ályktun að einhverfur einstaklingur eigi ekki tilkall til réttlætis ef hæfni hans til frásagnar fellur ekki inn í þann þrönga ramma sem dómstólar ákvarða og séu því frásagnir þeirra oftast eða jafnvel alltaf tortryggðar. Þá verður að nefna sérstaklega að Landsréttur lét nægja að vísa til þess að skýrslutaka fyrir héraðsdómi hefði að mati Landsréttar torveldað mjög möguleika á að meta trúverðugleika framburðar. Landsréttur virðist þó ekki hafa séð ástæðu til þess að framkvæma nýja heildstæða skýrslutöku af brotaþola. Er það sérstaklega einkennilegt í ljósi þess að aðaltilgangur með stofnun Landsréttar var að gefa dómurum á áfrýjunarstigi slíkt tækifæri.

Ljóst má vera af niðurstöðum dóma og framkvæmd við rannsókn sakamála er varða fatlað fólk að pottur er brotinn í réttarkerfinu. Því miður virðist sem afar lítil þekking sé til staðar varðandi hvernig skuli tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarvörslukerfinu til jafns við aðra. Dómstólar virðast ekki vita af skyldu sinni til þess að haga málsmeðferð í samræmi við þarfir fatlaðs fólks í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni. Þessar skyldur eiga raunar við á öllum stigum málareksturs, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.

Ísland hefur fullgilt samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks en 13. grein hans fjallar um aðgang að réttarkerfinu og þar segir meðal annars:

Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsfólk fangelsa.

Mismunun á grundvelli fötlunar eða hvers kyns aðgreining, útilokun eða takmörkun vegna fötlunar, sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að torvelda eða koma í veg fyrir að öll mannréttindi og mannfrelsi séu viðurkennd, þeirra notið eða þau nýtt til jafns við annað fólk. Framangreint sakamál og afstaða Landsréttar til sönnunargildis brotaþola er því skýrt dæmi um mismunun á grundvelli fötlunar.

 

 

Fleiri greinar

Hafa samband

Netspjall Stígamóta

Hér getur þú spjallað við ráðgjafa hjá Stígamótum.

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót