Ofbeldismenn á Íslandi – útgáfa ársskýrslu 20232. maí 2024

SKRUNAÐU

Ef þú beitir kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi er líklegast að þú gerir það inni á þínu eigin heimili. Þú ert ekkert endilega undir áhrifum áfengis eða vímuefna en þó kemur það fyrir og það eru 95% líkur á að þú sért karlmaður. Það er líklegast að þú sért af íslensku bergi brotinn (76,6%) og að þú þekkir manneskjuna sem þú brýtur gegn, sennilega ertu vinur, kunningi eða maki.

Ef þú beitir börn kynferðisofbeldi er líklegra að þú þekkir þau en ef þú brýtur gegn fullorðnu fólki. Yfirleitt ertu samt að beita einstaklinga undir 18 ára kynferðisofbeldi (66%), aðallega stúlkur (89%). Þú ert sjálfur sennilega á bilinu 18-39 ára (52%). Til að tryggja þögn brotaþola reynirðu stundum að hóta, kenna brotaþola um ofbeldið, gefa gjafir og múta eða, í örfáum tilvikum, að beita líkamlegu ofbeldi. Yfirleitt gerirðu samt ekkert sérstakt til að tryggja þögnina nema að ávinna þér traust í aðdraganda brotsins og byggja upp tilfinningaleg tengsl.

Viðbrögð þess eða þeirra sem þú brýtur gegn er líklegast að frjósa, gera ekkert, láta sem ekkert sé eða jafnvel þykjast vera sofandi. Stundum berst brotaþoli gegn þér, sérstaklega ef viðkomandi er fullorðin. Það að brotaþolar frjósi og bregðist varla við er hins vegar ekki merki um að brotið/n hafi engar afleiðingar, síður en svo. Það eru líka allar líkur á að brotaþolar segi einhverjum frá brotinu, líklegast vinkonu eða vini (72,6%) þó það séu hverfandi líkur á að þú verðir kærður fyrir brotið (8,4%).

Vanlíðan og afleiðingar brotaþola birtast meðal annars í kvíða, skömm, lélegri sjálfsmynd og depurð og karlkyns brotaþolar berjast við reiði frekar en kvenkyns brotaþolar, þeir eru líka líklegri til að reyna sjálfsvíg (47,4% á móti 22,5% kvenna).

Þetta er meðal þess sem lesa má útúr þeim veruleika sem birtist í ráðgjöf hjá Stígamótum eftir 34 starfsár og jöfn mörg ár í gagnaöflun um ofbeldi, ofbeldismenn og afleiðingar ofbeldis.

Stígamót gáfu í dag út ársskýrslu ársins 2023 en frá upphafi hafa 11.101 einstaklingar leitað aðstoðar hjá Stígamótum. Jafnframt má geta þess að ofbeldismennirnir teljast vera 15.673 en eru væntanlega færri þar sem einhverjir þeirra hafa beitt fleiri en einn einstakling ofbeldi.

Á síðasta ári komu alls 835 einstaklingar í 3.264 viðtöl, þar af voru 376 að koma í fyrsta sinn til Stígamóta. Algengast er að fólk komi til að vinna úr afleiðingum nauðgunar (69,5%) en kynferðisbrot gegn barni fylgir fast á hælana (52,1%). Körlum sem sóttu Stígamót fjölgaði á milli ára (úr 7,1% í 11,4%) og getur það verið vegna mikillar umræðu um þjóðþekkta menn sem níddust á börnum á síðasta ári. Enn sem fyrr eru það hins vegar konur sem eru helst brotaþolar kynbundins og kynferðislegs ofbeldis og þá einkum ungar konur.

Þær gleðifréttir er hægt að færa að biðlisti eftir fyrsta viðtali styttist á milli ára í fyrsta sinn í þrjú ár og hefur átak Stígamóta að fjölga ráðgjöfum og viðtalstímum til að koma til móts við aukna ásókn síðustu ár greinilega skilað sér. Enn eru þó 179 á biðlista um síðustu áramót og er það auðvitað ekki ásættanlegt því það getur þýtt þriggja mánaða bið eftir fyrsta viðtali.

Hægt er að nálgast ársskýrslu Stígamóta 2023 hér – en auk tölulegra upplýsinga er að finna þar vitnisburð um blómlega starfsemi Stígamóta árið 2023, hvort sem það er þátttaka í samtali við samfélagið, að þrýsta á um breytingar til handa brotaþolum, fræðslustarfsemi, forvarnarstarfsemi, ráðstefnur eða annað.

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót