Hafa Samband
Opnunartímar móttöku
-
Mánudaga
9-16
-
Þriðjudaga
9-16
-
Miðvikudaga
9-16
-
Fimmtudaga
11-16
-
Föstudaga
9-16
-
Helgar
Lokað
Við höfum staðið í baráttu við biðlista árum saman. Í fyrsta sinn í þrjú ár eru biðlistar eftir fyrsta viðtali hjá Stígamótum að styttast. Við fögnum þessu því við vitum sem er að það er með öllu óásættanlegt að þolendur neyðist til að bíða vikum eða jafnvel mánuðum saman eftir að komast að þegar þeir eru reiðubúnar að leita hjálpar. Þetta staðfestir kona sem var tilbúin að deila nafnlaust sögu sinni og reynslu af þjónustu Stígamóta.
Ég varð fyrir kynferðisofbeldi. Fyrst sem barn og svo sem ung kona. Mér fannst ég einkis virði því ég hafði ítrekað orðið fyrir misnotkun af hendi karlmanna og fannst virðið mitt í rauninni vera slíkt að hver sem er gæti tekið mig og gert hvað sem er við mig. Ég var komin með sjálfsvígshugsanir, þunglyndi og kvíða sem eru þekktar afleiðingar kynferðisofbeldis. Ég hafði farið upp á geðdeild og byrjað í meðferð þar en þar upplifði ég kvenfyrirlitningu og að lítið væri gert úr mínum áföllum þegar ég reyndi að tala um þau. Svo var það fyrir einhverja rælni að ég hringdi í Stígamót. Byrjaði auðvitað á að afsaka mig í bak og fyrir að ég skyldi vera að hafa samband því ég ætti áreiðanlega ekki heima þar. Að þetta væri ekkert merkilegt og mér þætti skrýtið að taka tíma frá öðrum konum sem hefðu miklu meiri þörf fyrir þessa þjónustu en ég. Ég sá það eftir á að ég var ekki ein um þessar hugsanir, við þolendur eigum þær sameiginlegar. Það er skemmst frá því að segja að í símtalinu var mér sagt að það væri einmitt laus tími á eftir og mér var boðið að koma.
„Mér finnst eins og Stígamót hafi gefið mér lífið aftur. Ég var farin að halda að það væri búið að taka það frá mér.“
Ég man það bara eins og það hafi gerst í gær þegar ég gekk fyrst inn um rauðu dyrnar á húsinu. Þarna hitti ég dásamlegan ráðgjafa, hana Díönu sem hefur verið algjör engill í mínu lífi. Þarna var ég um tvítugt og upplifði í fyrsta sinn fullkominn skilning. Henni fannst mín upplifun og tilfinningar rökréttar og eðlilegar og það að upplifa þetta væri ekki bara ég að vera skrýtin eða að gera of mikið úr hlutunum. Ég var í vikulegum viðtölum í nokkuð langan tíma og þar var mér hjálpað að flokka svolítið lífið mitt, setja rétt orð á þau áföll sem ég hafði orðið fyrir og fljótlega var ég reiðubúin að taka þátt í hópastarfinu. Ég hafði kannski rætt mín áföll við vinkonur mínar en þarna var ég komin í hóp með stelpum á svipuðum aldri og ég, við vorum búnar að læra réttu orðin og fara í gegnum ráðgjafaviðtölin og fá hjálp við að flokka reynsluna okkar. Við unnum með dásamlegum hópstjóra og þarna opinberaðist fyrir mér að ég væri bara alls ekkert skrýtin. Það gat bara ekki verið að við værum allar eitthvað skrýtnar. Hópastarfið varð mjög stórt skref í batanum mínum og þar gat ég líka komið svo greinilega auga á að það að kenna sjálfum sér um er ein af afleiðingum þess að vera beittur kynferðisofbeldi.
„Það er til líf eftir kynferðisofbeldi og þetta einhvern vegin setti mína reynslu í allt annað samhengi, að finna að við höfðum verið að fást við svo líkar tilfinningar.“
Fyrir mig var það svo mikil lausn að upplifa það svona sterkt og undir góðri handleiðslu að eiga þennan örugga stað, öruggt pláss með konum sem deildu þessari reynslu án þess að neinn væri að efast um hana. Sem þolandi er það því miður nokkuð sem maður fæst við allt lífið, það er alltaf einhver sem efast. Til dæmis bara á kaffistofunni í vinnunni. Enn í dag er verið að afsaka ofbeldismennina. En að eiga stað eins og Stígamót sem kunna að skapa þetta yndislega andrúmsloft og öryggi er ómetanlegt. Það skipti mig sérstaklega miklu máli á þeim tíma sem ég leitaði til þeirra því þá leið mér svo sjaldan eins og ég væri örugg.
Ég var svo heppin að komast strax að eftir að ég setti mig í samband við Stígamót. Fyrir þolendur er biðtíminn bara eitthvað sem er ekki hægt. Ef það hefðu liðið 2-3 vikur frá því að ég setti mig í samband við þær og þar til ég komst að efast ég um að ég hefði farið. Hvað þá ef lengri tími hefði liðið. Þetta er erfitt skref að taka og það skiptir öllu að hjálpin geti verið til staðar á þeim tímapunkti sem þolandinn upplifir sig reiðubúinn að fá hana. Viðmótið sem þolendur fá úr nærumhverfinu er oft svo ótrúlega neikvætt og slítandi sem gerir það að taka þetta skref enn erfiðara. Þess vegna skiptir svo miklu máli að stytta biðlista eftir viðtali eins mikið og mögulegt er.
Við þau sem mynda styrktarsamfélag Stígamóta og styðja starfið í hverjum mánuði vil ég segja: Takk fyrir að gefa okkur, sem höfum orðið fyrir ofbeldi af hendi karla, annan séns. Það skiptir öllu máli að vita að það er hægt að vinna úr þessum áföllum og að þetta er svo stór gjöf. Ég get eiginlega ekki komið því í orð. Þó að þessi reynsla fylgi þér alltaf þá er það að fara frá því að líða svona ótrúlega illa, upplifa virðið sitt sem ekkert og að komast svo út úr þessu ástandi ómetanleg gjöf.
Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.
Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.