Ofbeldi í nánum samböndum

Kynferðisofbeldi er þess að eðlis að stór hluti þess gerist í nánum samböndum. Oft getur verið erfitt fyrir brotaþola að átta sig á að hluti af því ofbeldi sem viðkomandi upplifði í sambandi var kynferðisofbeldi. Stundum virðist vera auðveldara að skilgreina og horfast í augu við andlega og líkamlega ofbeldið en það kynferðislega.

Í samböndum þar sem um líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi er að ræða er nánast alltaf kynferðisofbeldi fyrir hendi líka. Þegar fólk býr við niðurlægingar og ótta er ansi líklegt að það sé á einhvern hátt þvingað til kynferðislegra athafna. Heimilisofbeldi er ofbeldi sem á sér stað í nánum samböndum og það sama á oft við um kynferðisofbeldi líka. Í flestum tilfellum þekkjum við ofbeldismanninn og tengjumst honum á einhvern hátt. Stundum er fólk ekki að upplifa annað ofbeldi en kynferðisofbeldi í sínum samböndum. Það er aldrei skylda að stunda kynlíf hvort sem þú ert í sambandi eða ekki. Kynlíf byggir á jafnræði, virðingu og góðum samskiptum þar sem langanir og þarfir einstaklinga eru virtar. Það er því aldrei í lagi að suða eða þvinga fram kynlíf hvort sem fólk er í sambandi eða ekki.

Unglingar og ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í nánum samböndum gleymast stundum í umræðu um heimilisofbeldi. Sjálfir tengja unglingarnir oft illa við umræðu um heimilisofbeldi enda eru þau sjaldnast í hjónaböndum og sambúð. Þú þarft ekki að búa með með manneskjunni sem beitir ofbeldinu til að það flokkist sem heimilisofbeldi þar sem það er í raun heiti yfir ofbeldi í nánum samböndum. Fyrsta skrefið er að átta sig á að sambandið er ekki heilbrigt og verið er að fara fyrir mörkin okkar. Ofbeldi í nánum samböndum unglinga er til staðar í sama mæli, ef ekki meira, og hjá fullorðnum og það er hægt að fá aðstoð