Kynferðisleg áreitni

Þegar farið er yfir mörk á kynferðislegan hátt er það kynferðisleg áreitni. Stundum getur verið erfitt að gera sér grein fyrir því hvort kynferðisleg áreitni á sér stað en það er tilfinning þess sem verður fyrir áreitninni sem skilgreinir hana. Áreitnin getur verið sögð með orðum, táknræn eða líkamleg snerting. Hún getur líka verið stafræn. Hegðunin á það sameiginlegt að vera óvelkomin og ekki með samþykki þess sem verður fyrir áreitinu.

Kynferðisleg áreitni getur birst á ýmsan hátt. Káf, kynferðislegar athugasemdir, brandarar, kynferðislegar myndir sendar og svo framvegis. Kynferðisleg áreitni getur átt sér stað á vinnustöðum, skólum, innan stofnanna sem við þurfum að sækja til, í vinahópum, á skemmtistöðum, á netinu svo eitthvað sé nefnt. Ef þér líður eins og farið hafi verið yfir mörkin á kynferðislegan hátt og líður illa með það er það nægileg ástæða til að skoða málið betur með ráðgjafa á Stígamótum.