Vændi

Á Stígamótum skilgreinum við vændi sem hvers kyns kynferðislegar athafnir sem eru veittar í skiptum fyrir peninga, mat, húsaskjól eða önnur lífsgæði. Á hverju ári hittum við nokkurn fjölda fólks sem hefur reynslu af vændi og leitar til Stígamóta vegna afleiðinga þess. Því að hafa selt vændi fylgir oft mikil skömm og sektarkennd sem hindrar fólk í að segja frá reynslu sinni. Á Stígamótum lítum við á brotaþola vændis sem fólk sem hefur gripið til þess sem það þurfti að gera hverju sinni og minnum á að fólk sem stundar vændi er hjartanlega velkomið í viðtöl.

Afleiðingar vændis eru gjarnan þær sömu og afleiðingar annars kynferðisofbeldis s.s. brotin sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, sjálfsásakanir, þunglyndi og skömm. Stór hluti þeirra brotaþola vændis sem leitað hafa til Stígamót var beittur kynferðisofbeldi í æsku en vændi getur þannig verið ein afleiðinga ofbeldis. Viljirðu leita hjálpar vegna vændis á Stígamótum verður þér mætt af virðingu og skilningi. Á Stígamótum vinnum við með brotaþolum vændis í ráðgjafarviðtölum og höldum úti sérstökum hópi fyrir konur sem hafa reynslu af vændi.

Klám

Kynferðisofbeldi tengt klámi getur birst með ýmsum hætti:

  • Að vera þvingaður til að horfa á klám er kynferðisofbeldi. Sá sem beitir ofbeldinu getur verið t.d. maki, vinur eða einhver sem er í valdastöðu gagnvart brotaþola s.s. þjálfari, kennari eða yfirmaður.
  • Að vera sýnt klám á unga aldri er kynferðisofbeldi. Börn hafa ekki þroska til að taka við efninu sem er sýnt í kláminu og það getur haft alvarlegar afleiðingar, valdið þeim ótta og vanlíðan – en einnig spennu og áhuga sem getur verið ruglandi. Stundum er það að sýna börnum klám hluti af öðru kynferðisofbeldi en getur líka verið stakt brot sem ber að taka alvarlega.
  • Að vera myndaður í kynferðislegum athöfnum við klámframleiðslu lítum við á sem kynferðisofbeldi á sama hátt og vændi. Mörkin á milli vændis og kláms eru líka alltaf að verða óskýrari með ýmsum netmiðlum þar sem hægt er að borga manneskju fyrir myndefni.
  • Þegar myndum og myndbrotum sem geta ýmist verið tekin upp með eða án samþykkis er dreift á klámveitur er það einnig kynferðisofbeldi.

Afleiðingar kynferðisofbeldis sem tengist klámi eru svipaðar og afleiðingar annars kynferðisofbeldis; skömm, sektarkennd, þunglyndi, kvíði og brotin sjálfsmynd. Kannist þú við birtingarmyndir á borð við þær sem eru hér að ofan eða ert að velta fyrir þér hvort klám hafi haft skaðleg áhrif á þig með einhverjum hætti hvetjum við þig til að panta tíma hjá ráðgjafa og ræða málin.