Léleg sjálfsmynd

Sjálfsmyndin endurspeglar sýn okkar á hver við erum og hvers virði okkur þykir við sjálf vera í samskiptum við aðra. Sjálfsmyndin spilar stórt hlutverk í lífi okkar og hefur áhrif á líðan, hamingju, árangur, sambönd við aðra og sköpunargáfu. Sjálfsmyndin hefur áhrif á hvernig við hugsum, tölum og hegðum okkur og því veigamikill þáttur í andlegri líðan. Þegar fólk hefur góða sjálfsmynd fylgir því oft sjálfstraust þannig að við höfum trú á sjálfum okkur, getu okkar og hæfileikum. Fólk með lélega sjálfsmynd er hins vegar líklegra til að vanmeta getu sína og forðast krefjandi verkefni. Fólk upplifir að enginn kunni að meta það, elski það eða hafi trú á getu þeirra.

Sjálfsmynd okkar mótast í samskiptum við aðra og reynslu. Rannsóknir hafa sýnt að þau sem beitt hafa verið kynferðisofbeldi eru að oft að glíma við skömm og sektarkennd sem hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd okkar til lengri tíma. Sjálfsmyndin tengist því hvernig við tölum við sjálf okkur og neikvætt sjálfstal getur haft skaðleg áhrif á sjálfsmyndina.

Mikilvægt er að hafa í huga að sjálfsmynd okkar er hugmynd okkar um okkur sjálf en byggir ekki alltaf á staðreyndum og þarf því á engan hátt að endurspegla hvað öðrum finnst um okkur.

Lykilorð

  • Vanmat
  • Forðun
  • neikvætt sjálfstal
  • Lélegt sjálfstraust
  • Hugmyndir ekki staðreyndir um okkur sjálf