Erfiðleikar í kynlífi/Kynferðisleg hegðun

Þegar við höfum verið beitt kynferðisofbeldi getur það gerst í kjölfarið að okkur finnist erfitt að stunda kynlíf og förum jafnvel að stunda það til að þóknast öðrum en okkur sjálfum. Við upplifum ekki hluti eins og löngun, nautn, gleði, nánd, traust og umhyggju þegar við stundum kynlíf heldur tengjum það frekar við tilfinningar eins og ótta, niðurlægingu, undirgefni og skömm. Það eru tilfinningar sem fylgja því að vera beittur kynferðisofbeldi og við yfirfærum á kynlíf. Það er því ekkert skrýtið að brotaþolar upplifi stundum enga löngun til kynlífs

Kynlíf á að vera eitthvað sem við njótum og okkur langar til að gera. Þess vegna er mikilvægt að gefa þeim tilfinningum sem við upplifum gaum og spyrja sig reglulega hvort og þá hvernig kynlíf við viljum stunda. Við þurfum að finna út hvar mörkin okkar liggja og leyfa okkur að taka þann tíma sem þarf til að byggja upp traust og löngun til kynlífs sé hún ekki til staðar.

Það getur líka gerst að á meðan sumir vilja alls ekki stunda kynlíf að aðrir leiti í kynlíf sem þeir hefðu ekkert endilega kosið að stunda til þess að fá einhvers konar viðurkenningu og mögulega reyna að taka til baka stjórn sína á kynferðislegum athöfnum eftir kynferðisofbeldi. Það er fullkomlega eðlilegt en ef þú finnur að þér líður ekki vel með það kynlíf sem þú stundar eða ert á einhvern hátt að fara yfir mörkin þín getur verið gott að velta því fyrir sér hvað þú vilt í raun og veru.

Lykilorð

  • Þóknast öðrum
  • Engin löngun
  • Ótti
  • Niðurlæging
  • Engin nautn
  • Engin gleði
  • Undirgefni
  • Engin nánd
  • Skömm