Áfallastreita

Rannsóknir hafa sýnt að kynferðisofbeldi og þar með talið nauðgun teljast til þeirra áfalla sem eru líklegri en flest önnur áföll að leiða til áfallastreituröskunar.

Þegar kynferðisofbeldið á sér stað er algengt að upplifa mikinn ótta, hjálparleysi og jafnvel hrylling. Eftir kynferðisofbeldið geta komið fram endurteknar og ágengar endurminningar um ofbeldið og við getum upplifað okkur vera stöðugt á verði, líkt og við séum enn í hættu. Við förum jafnvel að reyna að forðast hugsanir og tilfinningar sem tengjast kynferðisofbeldinu og forðast það sem minnir okkur á kynferðisofbeldið. Okkur getur fundist við vera fjarlæg öðrum og einnig getum við fundið fyrir tilfinningalegum doða. Við getum fundið fyrir pirringi auk erfiðleika með einbeitingu og svefn. Það geta komið fram neikvæðar og ósanngjarnar tilfinningar og hugsanir tengdar kynferðisofbeldinu eins og til dæmis að finnast að kynferðisofbeldið sé á einhvern hátt okkur sjálfum að kenna og við getum fundið fyrir skömm og sektarkennd vegna kynferðisofbeldisins.

Það er algengt að í kjölfar kynferðisofbeldis geti komið upp auk einkenna áfallastreituröskunar einkenni þunglyndis og almenns kvíða. Einnig getur það gerst að við reynum að deyfa vanlíðan okkar til dæmis með áfengi eða lyfjum. Það er eðlilegt að finna fyrir einkennum áfallastreitu í kjölfar áfalla. Þetta eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Það er eðlilegt að það taki tíma að jafna sig eftir að við upplifum áfall. Þess ber þó að geta að fólk bregst ólíkt við áföllum eins og til dæmis kynferðisofbeldi og getur upplifað ólíkar tilfinningar, við getum til dæmis þekkt sum einkenni áfallastreitu og önnur ekki. Áfallastreituröskun er talin vera til staðar þegar ekki dregur úr áfallastreitueinkennum með tíð og tíma eftir að kynferðisofbeldið átti sér stað.

Lykilorð

  • Ótti
  • Hjálparleysi
  • Erfiðleikar með svefn
  • Stöðugt á verði
  • Erfiðleikar við að tengjast
  • Tilfinningalegur doði
  • Pirringur
  • Erfiðleikar með einbeitingu

Áfallastreituröskun í kjölfar kynferðisofbeldis

Áföll eru erfið sálræn reynsla og getur leitt til þess að við upplifum margar og erfiðar tilfinningar. Áföll geta verið ýmiskonar til dæmis geta þau verið eftirfarandi: kynferðisofbeldi, stórslys, líkamsárás eða hamfarir.