Elizabeth Clemants

Kjarninn í okkar starfi er að rjúfa þögnina15. október 2024

Kynferðisofbeldi gegn börnum er hljóður heimsfaraldur sem hefur herjað á samfélög frá örófi alda. Elizabeth Clemants, stofnandi og stjórnandi Hidden Water, segir mikilvægt að horfa á þennan málaflokk heildrænt, fjölskyldu fyrir fjölskyldu, með það markmiði að skapa sameiginlega heilun og að allir fullorðnir einstaklingar taki ábyrgð á forvörnum gegn ofbeldi gagnvart börnum. Elizabeth heldur erindi á ráðstefnu Stígamóta um réttlæti eftir ofbeldi sem verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica 21. október. Við tókum hana tali.

SKRUNAÐU

Í störfum mínum sem sáttasemjari á sínum tíma tók ég eftir því að margar fjölskyldur leita ekki til barnaverndar eða réttarkerfisins af ýmsum ástæðum. Gerandinn getur verið annað barn, brotaþoli greindi kannski ekki frá ofbeldinu fyrr en á fullorðinsárum eða fjölskyldan gæti verið fjárhagslega háð manneskjunni sem olli skaðanum. Af ýmsum ástæðum líður oft langur tími áður en fjölskylda er tilbúin að horfast í augu við kynferðislegt ofbeldi úr fortíðinni. Út frá þessu fórum við að þróa okkar eigin, einstaklingsbundnu heilunarhringi því við áttuðum okkur á að áður en fólk gæti talað saman um skaðann þyrfti það sitt eigið stuðningskerfi til að vinna úr tilfinningum sínum og sjónarmiðum. Úr þessari vinnu varð Hidden Water til.  

Ímyndaðu þér til dæmis aðstæður þar sem 10 ára drengur sem horfir á klám með vinum sínum byrjar í kjölfarið að misnota sex ára systur sína kynferðislega. Þegar hann þroskast hættir hann ofbeldinu en tekur aldrei á þeim vanda og vanlíðan sem það olli. Systir hans, sem finnur fyrir skömm og höfnun, þróar með sér vímuefnavanda og átröskun á unglingsárunum. Þegar hún loks segir frá og ræðir við bróður sinn, þá á þrítugsaldri, verður fjölskyldan hneyksluð. Bróðirinn, sem nú er giftur og á börn, vill halda málinu leyndu. Foreldrarnir gera lítið úr því sem gerðist, skilja systurina eftir án stuðnings og ástandið verður sífellt flóknara. Okkar hugmyndafræði getur komið þarna til aðstoðar.  

Við erum með fimm gerðir af einstaklingsheilunarhringjum þar sem hver og einn er sniðinn að ákveðnum hópi: 

  • Grænn hringur: Fyrir þau sem urðu fyrir kynferðisofbeldi fyrir 25 ára aldur. 
  • Appelsínugulur hringur: Fyrir foreldra eða umönnunaraðila sem eru ekki gerendur. 
  • Blár hringur: Fyrir systkini, maka, félaga eða fullorðin börn. 
  • Fjólublár hringur: Fyrir þau sem sköðuðu barn eða ungmenni kynferðislega, eru á batavegi eða ekki lengur í hættu á að skaða og eru tilbúin að axla ábyrgð. 
  • Grænn/Fjólublár hringur: Fyrir þau sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi sem ungmenni og beittu síðan sjálf kynferðislegu ofbeldi sem afleiðingu þess. 

Heilunarhringurinn

Hóparnir hittast einu sinni í viku í 12 vikur. Þessi jafningjamiðaða nálgun gerir þátttakendum kleift að deila reynslu sinni og hugsunum á eigin hraða og upplifa að hlustað sé á sig án fordóma. Við höfum mjög góða reynslu af þessu ferli. Þegar einstaklingar verða öruggari með að ræða reynslu sína innan hópsins eiga þeir oft auðveldara með að ræða við fjölskyldumeðlimi, sem getur verið fyrsta skrefið í átt að sameiginlegri heilun fjölskyldunnar. 

Það er líka áhugaverð staðreynd að eftir þátttöku í viðeigandi hringjum hefur fólk oft minni þörf fyrir að sannfæra fjölskyldumeðlimi um þeirra sjónarmið og upplifun. Stuðningurinn sem þátttakendur fá frá öðrum með svipaða reynslu uppfyllir oft þá þörf sem þeir höfðu fyrir samþykki frá fjölskyldumeðlimum.  

Í dæmi eins og þessu með 10 ára drenginn væri fyrsta skrefið að hver og einn fjölskyldumeðlimur myndi taka þátt í einum af hringjunum okkar. Þannig færi systirin í þann græna fyrir þolendur, bróðirinn í þann fjólubláa fyrir gerendur, foreldrarnir færu í appelsínugula hringinn með foreldrum sem ekki hafa beitt ofbeldi og eiginkona bróðurins gæti orðið hluti af bláa hringnum sem er hugsaður fyrir aðra. 

Okkar sýn snýst um að byggja upp samfélag þar sem það er ekki lengur tabú að tala um kynferðisofbeldi, að forvarnir séu á allra ábyrgð, að þolendur, gerendur og allt fólkið sem elskar þau geti fundið leiðir til heilunar. Þetta er metnaðarfullt markmið en ég trúi að það sé nauðsynlegt til að brjóta þennan vítahring sem hefur skapast í þessum málaflokki. 

Elizabeth fjallar betur um störf sín fyrir Hidden Water á ráðstefnu Stígamóta um Réttlæti eftir ofbeldi mánudaginn 21. október næstkomandi. Hægt er að kaupa miða hér

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót