Hafa Samband
Opnunartímar móttöku
-
Mánudaga
9-16
-
Þriðjudaga
9-16
-
Miðvikudaga
9-16
-
Fimmtudaga
11-16
-
Föstudaga
9-16
-
Helgar
Lokað
Þegar ástvinir segja frá kynferðisofbeldi þá getur það verið áfall fyrir aðstandendur. Mikilvægt er að hafa í huga að áður en brotaþolar segja frá hafa flestir þeirra velt því vandlega fyrir sér hvort þeir eigi að segja frá eða ekki. En vert er að hafa í huga að þeir eru væntanlega komnir á þann stað tilfinningalega að þeir geta treyst nákomnum aðstandanda fyrir reynslunni.
Þú gætir fundið fyrir mikilli reiði, en það getur valdið brotaþola óþægindum og ótta þegar fólk tjáir miklar tilfinningar hömlulaust. Mundu að brotaþoli er að óska eftir stuðningi frá þér og það er mikilvægt að einblína á þarfir brotaþolans núna.
Gerðu honum ljóst að þú trúir því að ofbeldið hafi átt sér stað og að það sé ekki brotaþolanum að kenna.
Mikilvægt er að styðja brotaþola í að taka þær ákvarðanir sem eru réttar fyrir hann. Forðist að segja brotaþola hvað á að gera eða að ýta á hann að gera eitthvað sem hann er ekki tilbúinn að gera. Nærgætinn stuðningur er allt sem þarf núna.
Brotaþoli gæti tjáð erfiðar tilfinningar í gegnum grátur, öskur, þögn o.s.frv. Mundu að brotaþoli er að glíma við margar tilfinningar og þær geta komið fram þegar hann er í öruggum aðstæðum. Reiði þeirra er ekki í þinn garð, heldur geranda og aðstæðna. Best er að vera til staðar og hlusta.
Að þú sért til staðar sama hvað hafi gerst.
Brotaþoli verður að geta treyst því að með því að segja frá þá verði traust þeirra ekki brotið.
Brotaþoli á að ákveða hverjum á að segja frá ofbeldinu. Þetta er lykilatriði.
Gott er að hvetja brotaþola til að sækja sér aðstoðar en ákvörðunin verður að vera þeirra.
Að spyrja, „má ég knúsa þig“ gefur brotaþola vald til að segja já eða nei. Þetta er mikilvægt í bataferlinu.
Ekki lofa hlutum sem þú getur ekki staðið við, svo sem að segja að brotaþoli muni aldrei verða meiddur aftur eða að gerandi verði settur í fangelsi.
Að reyna að rannsaka eða spyrja aðra sem kunna að vita um árásina getur hamlað rannsókn. Látið rannsakendur um þá vinnu, ákveði brotaþoli að fara þá leið.
Mikilvægt er að vera þolinmóð/ur/tt og að horfast í augu við að það getur tekið mörg ár að ná sér eftir kynferðisbrot.
Það getur verið sárt að vita af ofbeldi gegn ástvini eða fjölskyldumeðlimi. Það er erfitt að horfast í augu við þann vanmátt sem fylgir þessum brotum. Aðstandendur geta fengið stuðning og ráðgjöf hjá Stígamótum.
Eitt af því mikilvægasta sem aðstandendur þurfa að hafa í huga er að brotaþolinn gæti hafa upplifað ofbeldið fyrir löngu síðan. Þú ert að fá þessar upplýsingar í fyrsta skipti frá þeim og upplifir mögulega sterk tilfinningaleg viðbrögð. Brotaþolinn er kannski kominn á annan stað.
Afleiðingarnar sem brotaþolar upplifa og eru að glíma við eru alltaf heilbrigð viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.
Þegar barn segir frá kynferðisofbeldi getur það haft áhrif á allt fjölskyldukerfið. Þetta á sérstaklega við ef ofbeldismaður er fjölskyldumeðlimur eða tengdur fjölskyldu vinaböndum.
Aðstandendur eru oft ráðþrota og vita ekki hvernig þeir eiga að snúa sér. Fyrst og fremst er mikilvægt að hafa í huga að kynferðisofbeldi gegn barni er skilyrðislaust barnaverndarmál. Lög landsins kveða á um það og mikilvægt að aðstandendur snúi sér til þeirra. Þessu fylgir oft streita því oft vilja börn ekki að aðstandendur segi neinum frá. Vanmátturinn sem fylgir því að hafa treyst fólki fyrir leyndarmáli sem að síðan verður að láta yfirvöld vita af getur verið mikill. Því er mikilvægt að hlúa að barninu og veita því allan þann stuðning sem það þarf.
Oft eru tilfinningarnar reiði, sorg og sektarkennd varðandi það sem kom fyrir barnið. Þú gætir verið reið/ur/tt þeim sem brutu á barninu, eða þú gætir fundið fyrir blönduðum tilfinningum, sérstaklega ef sá sem braut á barninu er einhver sem þú elskar og treystir. Greindu eigin tilfinningar; þær eru að öllum líkindum mjög eðlilegar. Einnig getur verið að barnið hafi aðrar tilfinningar en þú og það er allt í lagi. Láttu barnið vita að tilfinningar þess eru eðlilegar og að það eru margar öruggar leiðir til að tjá vondar tilfinningar.
Það sem einkennir börn þó er að hegðunarbreytingar geta verið áberandi. Það er eðlilegt og getur verið að það sé eina leiðin þeirra til að eiga í samskiptum. Börn geta fengið martraðir, átt erfitt með svefn, átt erfitt með að einbeita sér, sýna ungbarna hegðun eins og að sjúga þumalfingur eða þvaglát. Sum börn lækka í einkunnum í skólanum og það getur verið fyrsta einkennið sem þau sýna út á við. Önnur börn fara inn í sig og verða viðkvæm. Sum sýna reiðina skýrt út á við. Mikilvægt er fyrir barnið að fullorðinn aðili sýni því skilning og veiti þeim öruggt umhverfi til að láta í ljós tilfinningar sínar. Gott getur verið fyrir barnið að fara til þriðja aðila til að tjá tilfinningar, því oft vilja börn ekki valda foreldrum eða öðrum nánum aðstandendum áhyggjum eða tilfinningalegum skaða.
Upplýsingarnar geta valdið ólgu fyrir margar fjölskyldur. Sumir vona að þegar barn hefur sagt frá og það fengið þá umönnun sem talið er að það þurfi snúi hlutirnir aftur í eðlilegt horf. Þó að börn séu mjög seig og geti náð sér eftir misnotkun þá tekur heilun tíma og þolinmæði. Sjálfsmynd barna er sífellt að mótast á yngri árum og því er oft um að ræða langtíma verkefni að vinna með afleiðingar.
Það hjálpar börnum að upplifa öryggi. Þetta getur þýtt að hafa skýra kvöld og morgunrútínu á heimilinu, matmálstíma reglulega, fjölskyldufundi á sama tíma í hverri viku o.s.frv.
Þetta hjálpar barninu að upplifa að það hafi stjórn.
Og tjá þessar tilfinningar á öruggan hátt. Reiði er sú tilfinning sem foreldrar eiga hvað erfiðast með. Þegar barn tjáir reiði getur verið gott að segja, „Þú ert reið(ur), ég skil af hverju. Hvað segirðu um að við förum niður að sjó og hendum reiðum steinum saman?“ Þetta gefur barninu færi á því að fá útrás, kennir barninu að finna heilbrigðar leiðir til að tjá reiði og gefur barninu þau skilaboð að það sé ekki eitt í þessu.
Talaðu við þau um styrkleika þeirra og hjálpaðu þeim að skynja eigin seiglu. Bentu á þegar þau gera hluti sem eru erfiðir. Barnið þitt er nú þegar búið að sýna gríðarlegan styrk með því að segja frá. Þau þurfa að heyra að þau séu sterk og hafi það sem þarf til að komast í gegn um þetta.
Stuðningurinn sem þú sýnir þeim núna er mikilvægari en nokkuð annað.
Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.
Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.