Enn staðfest að ríkið bregst brotaþolum13. janúar 2026

Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í morgun er enn og aftur staðfest að íslenska ríkið hafi brugðist brotaþola kynferðisofbeldis og neitað henni um réttláta málsmeðferð. Í málinu liggur fyrir játning að brotið hafi verið gegn hegningarlögum en engu að síður var málið látið niður falla hér á landi. Það er því eðlilegt að spyrja sig; hvað þarf til svo að íslenska ríkið taki kynferðisbrotamál alvarlega?

Það þarf engan að undra að brotaþolar kynbundins- og kynferðislegs ofbeldis hiki við að kæra mál enda lýsa margir brotþolar endurteknu og áframhaldandi ofbeldi við að fara í gegnum kerfið. Þegar það er svo staðfest ítrekað að réttarkerfið brýtur á rétti brotaþola til réttlátrar málsmeðferðar er ljóst að kerfið er meingallað.

Staðan í dag er sú að brotaþolar fá ítrekað þau skilaboð að skaðinn sem þeir hafa orðið fyrir skiptir ekki máli og gerendur í ofbeldismálum fá að sama skapi þau skilaboð að þeir hafi ekki gert neitt rangt. Í slíku umhverfi skal engan undra að kynferðisbrot karla gegn konum séu jafn algeng og raun ber vitni. Það þarf heldur engan að undra að brotaþolar leiti í opinbera umræðu, með þeirri sársaukafullu afhjúpun og berskjöldun sem það felur i sér, til að fá viðurkenningu á að brotið hafi verið á þeim, reyna að hreyfa við kerfinu og vara aðrar við brotamönnum. Það getur oft reynst dýrkeyp og brotaþolar sakaðir um slaufunarmenningu og illvilja.

Við stöndum á tímamótum sem samfélag. Ætlum við að láta kynferðisbrot viðgangast sem hluta af okkar menningu með ömurlegum afleiðingum fyrir andlega og líkamlega heilsu brotaþola (90% konur)? Ætlum við að hlífa ofbeldismönnum en halda áfram að slaufa brotaþolum? Ef svarið við þessu er nei er fyrsta skref að hið formlega kerfi virki fyrir brotaþola. Við þurfum svo að gefa mjög hressilega í forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi og vera þar í stafni þjóða og standa undir orðspori sem jafnréttisparadís. Í þriðja lagi þurfum við að hugsa í öðrum lausnum og hanna kerfi uppbyggilegs réttlætis fyrir brotaþola. Einhverskonar kerfi sem viðurkennir brot, hlustar á kröfur brotaþola og tryggir ábyrgð gerenda.

Stígamót eru hér eftir sem hingað til tilbúin til að vinna að öllum hugmyndum sem geta falið í sér framfarir því við óbreytt ástand verður ekki unað. Það er fátt sem hefur meiri áhrif á líf stúlkna og kvenna á Íslandi og í heiminum öllum en að verða fyrir ofbeldi eða eiga stöðugt á hættu að verða fyrir ofbeldi.

SKRUNAÐU

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót