Ársskýrsla Stígamóta 202211. júlí 2023

Yfir 10.000 brotaþolar og 15.000 gerendur síðustu áratugi.

Eftir aukna umræðu um kynferðisofbeldi síðustu ár og fjölda lítilla samfélagsbyltinga hefur ásókn til Stígamóta vaxið umtalsvert eins og fram kemur í nýútgefinni ársskýrslu. Árið 2022 sóttu tæplega eitt þúsund manns einstaklingsviðtöl, þar af voru 397 að koma í fyrsta sinn.

SKRUNAÐU

Sjálfshjálparhópar voru starfsræktir sem fyrr og voru til dæmis sérstakir hópar fyrir ungar konur og sjálfshjálparkvöld fyrir karlkyns brotaþola (Strákarnir á Stígó). Þá sóttu aðstandendur bæði brotaþola og gerenda ráðgjöf til Stígamóta. Því miður er nú biðlisti í fyrsta viðtal en þrátt fyrir fjölgun ráðgjafa síðustu ár hefur ekki tekist að útrýma biðlistanum. Aukin þjónusta eru að miklu leyti fjármögnuð með styrktarkerfi Stígamóta og njóta samtökin mikillar velvildar hjá almenningi sem gerir okkur kleift að hjálpa brotaþolum að öðlast betri lífsgæði og vinna á afleiðingum kynferðisbrota.

Í þau 33 ár sem liðin eru frá stofnun Stígamóta hafa 10.636 einstaklingar leitað aðstoðar hjá Stígamótum. Jafnframt má geta þess að ofbeldismennirnir teljast vera 15.038 en eru væntanlega nokkuð færri þar sem einhverjir þeirra hafa beitt fleiri en einn einstakling ofbeldi.

Flest leita til Stígamóta vegna afleiðinga nauðgunar eða nauðgunartilrauna,  kynferðisofbeldis gegn barni eða kynferðislegrar áreitni. Síðustu ár hefur einnig borið á því að ástæða komu sé starfrænt kynferðisofbeldi. Yfir helmingur þeirra brotaþola sem leita til Stígamóta urðu fyrir ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Stígamót í samstarfi við stjórnvöld komu á fót nafnlausu spjalli fyrir ungmenni á síðasta ári undir heitinu Sjúktspjall og er óhætt að segja að ungmenni hafi nýtt sér þann vettvang vel.

Afleiðingar ofbeldis eru alvarlegar og meðal þeirra eru kvíði, skömm, depurð og léleg sjálfsmynd. Hætt við að brotaþolar leiti í sjálfskaðandi hegðun eftir ofbeldi, til dæmis áfengi, önnur vímuefni, einhverskonar átröskun eða sjálfskaðandi kynlíf.

Fæstir ofbeldismenn eru ókunnugir brotaþolum en algengast er að þeir séu vinir eða kunningjar, maki eða tengdir öðrum fjölskylduböndum. Flestir eru þeir á aldrinum 18-30 ára.

Stígamót hafa tekið saman upplýsingar frá brotaþolum um ofbeldi, afleiðingar og ofbeldismenn í rúmlega þrjá áratugi og er ársskýrsla Stígamóta helsti vitnisburður um kynferðisbrot á Íslandi. Stígamót eru málsvarar brotaþola og nýta upplýsingarnar til að þrýsta á úrbætur í málefnum brotaþola og berjast gegn ofbeldi í samfélaginu. Skýrslan inniheldur víðtækar upplýsingar um tölfræði og samfélagslegt starf Stígamóta árið 2022.

Hægt er að skoða ársskýrsluna í heild sinni hér.

Nánari upplýsingar veitir Drífa Snædal, talskona Stígamóta, [email protected]

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót