Ályktun Stígamóta og Kvenréttindafélags Íslands9. mars 2021

Í gær buðu 13 kvenna- og jafnréttissamtök til fundar þar sem vakin var athygli á kerfisbundnu misrétti gegn konum í réttarkerfinu og lagðar fram tillögur til úrbóta.

SKRUNAÐU

Eitt af því sem samtökin vöktu sérstaka athygli á var að málsmeðferðartími í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum í réttarkerfinu sé allt of langur, sem hefur slæm áhrif bæði á gæði rannsóknanna og líðan brotaþola í ferlinu.

Ljóst er að grípa þarf til viðamikilla aðgerða og umbóta til að tryggja réttindi þolenda kynferðisbrota og ofbeldis í nánum samböndum í réttarkerfinu. Það hefði því átt að vera sérstakt fagnaðarefni að strax daginn eftir að femíníska hreyfingin vekur athygli á óréttlæti réttarkerfisins berast fregnir af því að dómsmálaráðherra sé að vinna í því að stytta málsmeðferðartímann. Við teljum þó að dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sendi konum kaldar kveðjur með því að hafa falið Jóni Steinari Gunnlaugssyni það verkefni að vinna að nauðsynlegum umbótum í réttarkerfinu.

Jón Steinar hefur haldið því fram í greinarskrifum að íslenskir dómstólar hafi í stórum stíl látið undan kröfum um að slakað verði á sönnunarfærslu í kynferðisbrota- og barnaníðsmálum, að saklausir menn hafi verið ranglega dæmdir og að málsmeðferð dómstóla geri fólki kleift að „ná sér niðri á öðrum með því að bera fram rangar sakargiftir á hendur þeim“. Jón Steinar hefur einnig fullyrt að þolendum kynferðisbrota „myndi líða miklu betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu“.

Traust þolenda kynbundins ofbeldis til réttarkerfisins er nú þegar laskað vegna þess hvernig mál þeirra hafa verið meðhöndluð. Að fela Jóni Steinari Gunnlaugssyni það starf að vinna að nauðsynlegum umbótum er alls ekki til þess fallið að auka traust þeirra á kerfinu.

Við þurfum betra réttarkerfi, en við skipulagningu umbóta er nauðsynlegt að greina núverandi brotalamir út frá sem flestum sjónarhornum. Kvenréttindafélag Íslands og Stígamót leggja áherslu á að mikilvægt sé að þessi vinna sé unnin af fólki sem hefur hagsmuni þolenda ofbeldis að leiðarljósi.

Bætum réttarkerfið svo að réttlætið ráði för.

Fleiri greinar

Hafa samband

Netspjall Stígamóta

Hér getur þú spjallað við ráðgjafa hjá Stígamótum.

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót