Sigur fyrir brotaþola hjá Mannréttindadómstóli Evrópu26. ágúst 2025

Í dag vannst sigur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í máli Maríu Sjafnar Árnadóttur þar sem ríkið var dæmt brotlegt fyrir að hafa látið mál niður falla, en María kærði fyrrum kærasta sinn fyrir ofbeldi. Dómurinn snéri að brotum gegn áttundu grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Þá var ríkið sýknað í öðru máli sem snéri líka að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi.  

Þetta er áfangasigur í þrotlausri baráttu brotaþola kynbundins- og kynferðislegs ofbeldis fyrir réttlæti. Fæstar konur kæra slík brot og þær sem kæra upplifa rannsóknarferlið sem langdregin svipugöng sem veldur þeim tilfinningalegum og fjárhagslegum skaða. Það er því margt óunnið til að brotaþolar kynbundins- og kynferðislegs ofbeldis geti fengið réttlæti í gegnum íslenska kerfið.

SKRUNAÐU

Sagan 

Árið 2020 auglýstu Stígamót eftir brotaþolum sem voru tilbúnir til að láta á mál sín reyna fyrir Mannréttindadómstólnum (MDE). Haft var samband við lögfræðistofu sem var tilbúin til verksins. Það var Guðrún Jónsdóttir þáverandi talskona Stígamóta og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður sem komu þessu af stað á sínum tíma. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, önnur fyrrum talskona Stígamóta tók við keflinu af Guðrúnu og rak málið áfram. Þessar konur, ásamt þeim brotaþolum sem lögðu mál sín undir ber að þakka fyrir hönd allra brotaþola á Íslandi og þó víðar væri leitað.  

MDE ákvað að taka níu mál til efnismeðferðar og nú er fallinn dómur í tveimur en hin sjö bíða niðurstöðu. Það var 8. mars 2021 sem Stígamót, ásamt 12 kvenna- og jafnréttissamtökum kynntu kærurnar og vöktu með því athygli á kerfisbundnu misrétti gegn konum í réttarkerfinu. Samtökin auk Stígamóta voru: Aflið, Druslugangan, Femínistafélag Háskóla Íslands, Flóra, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennaráðgjöfin Kvenréttindafélag Íslands, Rótin, W.O.M.E.N. og UN Women. Yfirskriftin var – 13% réttlæti er ekki nóg og var þar vísað til þeirra kærumála sem enda með sakfellingu, flest voru látin niður falla.  

Konurnar sem kærðu íslenska ríkið voru á aldrinum 17-42 ára þegar þær kærðu brotin og voru flestar kærurnar lagðar fram hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Við ítarlega yfirferð komu í ljós ýmsar brotalamir í rannsókn og meðferð málanna innan réttarvörslukerfisins sem varða helst rannsókn lögreglu, mat á sönnunargögnum og túlkun á vilja löggjafans.  

 Tilgangurinn með kærunum var að vekja athygli á kerfisbundnum vanda og láta íslenska ríkið svara fyrir það á alþjóðavettvangi hvers vegna staða kvenna sem brotaþolar í ofbeldisbrotum á Íslandi er svo veik sem raun ber vitni.  

 Það var alla tíð ljóst að á brattan var að sækja enda vísar Mannréttindadómstóllinn langflestum málum frá og var væntingum um að fá efnislega niðurstöðu kærendum í hag stillt í hóf. Það var því sigur í sjálfu sér að dómstóllinn ákvæði að taka málin fyrir.  

Dómarnir 

Þó úrskurðað hafi verið í öðrum dómnum gegn íslenska ríkinu en ekki  hinum þá varpa báðir dómarnir ljósi á alvarlegar brotalamir í kerfinu. Lögin okkar taka ekki tillit til eðli ofbeldis í nánum samböndum þó nokkrar breytingar hafi verið gerðar hin síðari ár. Brotaþolar slíks ofbeldis kæra iðulega ekki strax heldur þegar búið er að sækja styrk eftir ofbeldið til að standa í kærum. Fæstar kæra. Þá viðurkennir dómurinn í báðum málum að vísbendingar eru um að kærur og meðferð lögreglunnar sé ábótavant í málum er varða ofbeldi í nánum samböndum. Fyrningarfrestur þarf einnig að vera lengri í slíkum málum eðli þeirra samkvæmt. Þá dregst úr hófi að gerendur séu teknir til skýrslutöku.  

Sú staðreynd að Mannréttindadómstóllinn ákvað að taka þessi mál fyrir staðfesta alvarleika málanna og skyldur ríkisins til að vinna þessi mál skilvirkt og vel. Þessi brot eru persónuleg, hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér og ekki er hægt að líkja þeim við önnur brot sem framin eru í okkar samfélagi. Brotaþolar standa höllum færi gagnvart gerendum sínum í kerfinu og gagnvart kerfinu sjálfu.  

Almennt 

Ísland er talið jafnréttisparadís en hér þrífst kynbundið- og kynferðislegt ofbeldi sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola (nær allt konur) og samfélagið allt. Konur súpa seiðið af brotunum í gegnum verri heilsu, andlega og líkamlega, verri stöðu á vinnumarkaði, líklegri örorku, fjárhagslegan kostnað við að vinna úr afleiðingunum og svo mætti áfram telja.  

Ýmislegt hefur verið gert hin síðari ár til að bæta lög og framkvæmd laga en því miður virðist það ekki hafa aukið traust kvenna til kerfisins, en einungis um 10% þeirra sem leita til Stígamóta vegna kynferðisofbeldis hafa kært ofbeldið og hefur sú tala ekkert breyst frá stofnun Stígamóta fyrir 35 árum síðan.  

Þær konur sem hafa leitað til kerfisins og reynt að sækja réttlæti þangað hafa talað um mikla óvissu, valdaleysi og vonbrigði og á stundum hefur það aukið á ofbeldi af hendi gerandans. Um 40% kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni og um 14% kvenna eru með einkenni áfallastreituröskunar (Áfallasaga kvenna). Konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eru líklegri til að finna fyrir kvíða og þunglyndi, verkjum, eiga í vandræðum með að sinna venjubundnum störfum og meta líkamlega og andlega heilsu sína lakari en þær sem hafa ekki orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi (Heilsa og líðan 2022, Landlæknisembættið).  

Eftir stendur að við sem samfélag eigum langt í land með að viðurkenna kynbundið- og kynferðislegt ofbeldi og gera ofbeldismenn ábyrga fyrir þeim skaða sem þeir valda. Þó áfangasigur hafi náðst í dag er langt í land til að samfélagið okkar veiti brotaþolum slíks ofbeldis réttlæti.  

Hér má skoða dóma MDE:

CASE OF M.A. v. ICELAND

CASE OF B.A. v. ICELAND

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót