4500 unglingar fá fræðslu um mörk og samþykki8. mars 2019

„Hann nauðgaði mér þó nokkrum sinnum því hann tók ekki nei sem svari því við vorum í sambandi og þá átti hann mig. Ég vissi ekki að þetta væri óeðlilegt fyrr en ég kynntist fyrstu ástinni minni sem sýndi mér hvað eðlilegt samband er.“ Þetta er tilvitnun í sögu sem lesin var upp á opnunarathöfn Sjúkást 2019 á mánudaginn.

SKRUNAÐU

 

„Hann nauðgaði mér þó nokkrum sinnum því hann tók ekki nei sem svari því við vorum í sambandi og þá átti hann mig. Ég vissi ekki að þetta væri óeðlilegt fyrr en ég kynntist fyrstu ástinni minni sem sýndi mér hvað eðlilegt samband er.“ Þetta er tilvitnun í sögu sem lesin var upp á opnunarathöfn Sjúkást 2019 á mánudaginn. Kristrún Guðmundsdóttir nemandi við Menntaskólann í Reykjavík las upp þessa nafnlausu sögu og bætti við: „Þetta er ein saga af óteljandi og þess vegna þurfum við Sjúkást átak“.
 
Sjúkást fjallar um heilbrigð sambönd, óheilbrigð sambönd og ofbeldisfull sambönd. Verkefni, sem er á vegum Stígamóta, var sett af stað í febrúar 2018 með vefsíðunni www.sjukast.is og er nú blásið til átaks í annað sinn. Markmið Sjúkást er að fræða ungmenni um mörk og samþykki með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi. Slagorð átaksins í ár er: „Ég virði mín mörk og þín“.
 
Á næstu tveimur vikum munu 4500 unglingar á aldrinum 13-15 ára fá fræðslu um mörk, samþykki og kynferðislega áreitni. Fræðslan fyrir unglingana er unnin í samstarfi við Samfés – samtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi – og mun fara fram í félagsmiðstöðvum um allt land. Nýjasta rannsókn Rannsóknar og greiningar 2018 sýndi að tæpur helmingur stelpna í 10. bekk hafði sent ögrandi mynd eða nektarmynd af sér í gegnum stafræna miðla. Þar af upplifðu um 20% að það væri gert undir þrýstingi. Sama rannsókn sýndi að um helmingur stráka í 8.-10. bekk horfir á klám 1x í viku eða oftar. Í klámi er gegnumgangandi markaleysi og lítið um samþykki og virðingu. Það gefur því auga leið að fræðsla um mörk – bæði sín eigin og annarra – er nauðsynleg í því stafræna umhverfi sem unglingar búa við í dag.
 
„Staðreyndin er því miður sú að við búum á tímum klámvæðingar þar sem suðað samþykki þykir oft á tíðum sexy en það er nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir því að suðað samþykki er ekki samþykki. Ef ég hef sagt nei tíu sinnum, þýðir ekki að mig langi til þess ef ég gefst upp á þér í ellefta skiptið,“ sagði Sólborg Guðbrandsdóttir við opnunarathöfn Sjúkást í dag.
 
Sólborg er ein af fjórum ungmennum sem lögðu Sjúkást átakinu lið í ár. Þau eru öll þekkt og halda úti vinsælum Instagram reikningum – en þau hafa líka öll lagt sitt af mörkum til baráttunnar gegn ofbeldi þó með ólíkum hætti sé.
  • Sólborg Guðbrandsdóttir hefur haldið úti Instagram reikningnum fávitar þar sem sönnum dæmum um stafræna kynferðislega áreitni er póstað. Fávitar hafa sýnt hversu útbreitt og alvarlegt stafrænt ofbeldi er meðal ungmenna á Íslandi.
  • Aron Már Ólafsson hefur komið fram og einlæglega sagt frá eigin klámnotkun og hvernig hún hafði áhrif á hugmyndir hans um konur. Þá hefur hann hvatt ungmenni, sérstaklega stráka, til að tala opinskátt um tilfinningar sínar og verið góð fyrirmynd í þeim efnum.
  • Anna Lára Orlowska hefur talað opinberlega um það að vera barn á heimili þar sem heimilisofbeldi var beitt og hversu mikilvægt er að úrræði séu til staðar fyrir fólk í slíkri stöðu.
  • Brynjar Steinn Gylfason eða Binni Glee eins og flestir þekkja hann er óhræddur við að beygja staðalímyndir um kyn, vera hann sjálfur og tjá tilfinningar sínar. Hann er góð fyrirmynd fyrir hinsegin unglinga. 
Við opnunarathöfnina á mánudaginn voru einnig viðstödd femínistafélög úr átta framhaldsskólum en alls taka 17 framhaldsskólar virkan þátt í Sjúkást átakinu með ýmsum hætti. Má þar nefna að safna sögum um óheilbrigð sambönd frá skólafélögum, fræða samnemendur og setja af stað undirskriftasafnanir um aukna kynjafræði í sínum skólum.

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót