Níu konur kæra íslenska ríkið8. mars 2021

Í dag buðu 13 kvenna- og jafnréttissamtök til fundar til að vekja athygli á kerfisbundnu misrétti gegn konum í réttarkerfinu og leggja fram tillögur til úrbóta. Vakin er athygli á myndbandi sem kvennahreyfingin gaf út fyrir helgi þar sem rakið er hvernig fer fyrir ofbeldisbrotum gegn konum í réttarkerfinu.

SKRUNAÐU

Samtökin sem boðuðu til fundarins eru: Aflið, Druslugangan, Femínistafélag Háskóla Íslands, Flóra, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennaráðgjöfin Kvenréttindafélag Íslands, Rótin, Stígamót, W.O.M.E.N. og UN Women á Íslandi.

Níu konur kæra íslenska ríkið

Níu konur hafa nú kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir að hafa brotið á rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar. Konurnar eiga það sammerkt að vera brotaþolar sem kærðu nauðganir, heimilisofbeldi og/eða kynferðislega áreitni til lögreglu en málin voru felld niður af ákæruvaldinu. Að mati íslensku kvennahreyfingarinnar sýna málin hvernig íslenska ríkið brýtur kerfisbundið gegn rétti kvenna sem kæra kynbundið ofbeldi og bregst þannig skyldum sínum til að tryggja rétt kvenna á Íslandi til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu.

Langflestar tilkynningar kvenna um ofbeldi til lögreglu fara aldrei fyrir dóm. Tölur hafa t.d. sýnt að aðeins 17% tilkynntra nauðgunarmála fara fyrir dóm en restin er ýmist felld niður af saksóknara eða lögregla hættir rannsókn. Aðeins 13% enduðu með sakfellingu. Ætlunin með að senda kærurnar til Mannréttindadómstólsins er að vekja athygli á kerfisbundnum vanda og láta íslenska ríkið svara fyrir það á alþjóðavettvangi hvers vegna staða kvenna sem brotaþolar í ofbeldisbrotum á Íslandi er svo veik sem raun ber vitni.

Konurnar sem hafa kært íslenska ríkið voru á aldrinum 17-42 ára þegar þær kærðu brotin og voru flestar kærurnar lagðar fram hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Lögmaðurinn Sigrún Ingibjörg Gísladóttir hjá Rétti fór yfir málin og sendi kærurnar til Mannréttindadómstólsins. Við ítarlega yfirferð hennar komu í ljós ýmsar brotalamir í rannsókn og meðferð málanna innan réttarvörslukerfisins sem varða helst rannsókn lögreglu, mat á sönnunargögnum og túlkun á vilja löggjafans.

Íslenska ríkið brýtur á konum með eftirfarandi hætti

Alvarlegir annmarkar á rannsókn lögreglu:

  • Mál fyrntist í höndum lögreglu á meðan það var til rannsóknar vegna þess hve lengi dróst að boða sakborning í skýrslutöku.
  • Almennt tóku málin alltof langan tíma í rannsókn lögreglu.
  • Sakborningar höfðu marga mánuði til að undirbúa sig fyrir skýrslutöku og samræma frásagnir vegna seinagangs lögreglu við rannsókn mála.
  • Vitni sem höfðu lykilþýðingu í málum voru ekki boðuð í skýrslutöku og litið var framhjá skýrslum vitna sem studdu við frásögn brotaþola.

Lítið sem ekkert sönnunargildi er lagt í þau sönnunargögn sem til staðar eru í málunum:

  • Þau sönnunargögn sem eru konum tiltæk, í málum sem oft gerast bakvið luktar dyr, eru ekki tekin alvarlega, þá einkum vottorð sálfræðinga. Þetta samræmist ekki lagabreytingu á Alþingi (l. nr. 61/2007) þar sem áhersla var lögð bæði á líkamlegar og andlegar afleiðingar.
  • Líkamlegir áverkar virðast heldur ekki teljast fullnægjandi. Dæmi voru um að það hefði þótt ósannað að brotaþolinn hefði veitt mótspyrnu þrátt fyrir líkamlega áverka.
  • Í öðrum tilvikum var litið fram hjá sönnunargögnum á vettvangi, s.s. myndum eða myndbandsupptökum tekin á síma sem og ummerkjum s.s. brotnum gluggum.
  • Játningar sakborninga voru ekki teknar til greina.
  • Neitun sakbornings virðist vega þyngra en framburður brotaþola sem studdur er með vitnum og sönnunargögnum og er það mikil hindrun gegn réttlátri málsmeðferð fyrir brotaþola.

Gengið gegn vilja löggjafans við túlkun laganna:

  • Í mörgum málum var einblínt á hvort að sakborningur hafi mátt gera sér grein fyrir því að brotaþoli hafi ekki veitt samþykki, t.d. sökum ölvunarástands, fremur en á það hvort hann hafi fengið samþykki, eins og lögin kveða á um.
  • Þrátt fyrir að í nýrri nauðgunarlöggjöf komi fram að það teljist brot ef blekkingum er beitt til að ná fram samþykki leit saksóknari svo á að ekki væri unnt að ganga lengra í túlkun en eldri lög og fyrri framkvæmd gerði ráð fyrir.
  • Í einu máli þótti sannað að um ofbeldi hefði verið að ræða en þar sem ofbeldið þótti ekki nægilega alvarlegt var það talið fyrnt og fellt niður.

Kröfur um úrbætur

Eins og rakið hefur verið þykir kvennahreyfingunni ljóst að ríkið bregst skyldum sínum á kerfisbundinn hátt, sviptir konur rétti til réttlátrar málsmeðferðar og brýtur gegn rétti kvenna til einkalífs. Þess er krafist að ríkið axli ábyrgð sína og ráðist sé tafarlaust í eftirfarandi úrbætur:

  • Að brotaþolar sem kæra kynferðisbrot eða ofbeldi í nánum samböndum verði veitt aðild að sakamálinu, ekki síst í því skyni að styrkja réttarstöðu þeirra gagnvart ríkinu. Í dag eru brotaþolar einungis vitni í eigin máli og hafa því lítinn rétt á að fylgjast með framgangi málsins eða gera athugasemdir.
  • Að auknu fjármagni sé veitt í rannsókn og saksókn mála sem varða kynferðisbrot og ofbeldi í nánum samböndum í þeim tilgangi að auka gæði málsmeðferðarinnar og stytta málsmeðferðartíma.
  • Að dómurum, saksóknurum og lögreglu sé veitt fræðsla um vilja löggjafans varðandi þau ákvæði sem snúa að kynferðisbrotum og ofbeldi í nánum samböndum, og þá sérstaklega um nauðgunarákvæðið sem byggir nú á samþykki.
  • Að brotaþolar í kynferðisbrotamálum og málum er varða ofbeldi í nánum samböndum hafi rétt á gjafsókn og ríkissjóður ábyrgist dæmdar bætur í einkamálum gegn tjónvöldum með sambærilegum hætti og kveðið er á um í lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Þetta myndi veita brotaþolum aukinn möguleika á lagalegri viðurkenningu á því óréttlæti sem þær voru beittar, sé sakamálarannsókn á broti gegn þeim hætt eða mál fellt niður.

Nánar um Mannréttindadómstólinn

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur afmarkað hlutverk, þ.e. hann dæmir í málum sem varða ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóllinn gerir þá kröfu að kærendur hafi tæmt úrræði innanlands áður en leitað er til dómsins og þá þurfa einstaklingar að kæra endanlega niðurstöðu innanlands til dómsins innan sex mánaða frá því hún lá fyrir.

Auglýst var eftir konum til að taka þátt í þessu verkefni og bárust á um annan tug mála. Litið var svo á að ef búið væri að áfrýja niðurfellingu til ríkissaksóknara og hann hefði staðfest niðurstöðuna væri búið að tæma úrræði innanlands.

Ætlunin með kærunum er að vekja athygli á kerfisbundnum vanda og láta íslenska ríkið svara fyrir það á alþjóðavettvangi hvers vegna staða kvenna sem brotaþolar í ofbeldisbrotum á Íslandi er svo veik sem raun ber vitni. Þó er ljóst að Mannréttindadómstóllinn er umsetinn og vísar langflestum málum frá. Væntingar um að fá efnislega niðurstöðu kærendum í hag eru því stilltar í hóf. Jafnframt er ferlið langt og tekur að jafnaði um 5-6 ár og er því engra niðurstaðna að vænta á næstunni.

Þau ákvæði í Mannréttindasáttmála Evrópu sem vísað var til í flestum kærum eru eftirfarandi:

a) 2. gr. um réttinn til lífs. Með niðurfellingu á kærum brotaþola hefur íslenska ríkið skotið sér undan skyldu sinni til að vernda konur sem þolendur kynferðisbrota í íslenska réttarkerfinu.

b) 1. mgr. 6. gr. um réttláta málsmeðferð. Með því að meta sönnunargögnin sem ófullnægjandi og fella mál brotaþola niður hefur ákæruvaldið í raun tekið sér dómarahlutverk og svipt þær að fullu rétti til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólum.

c) 1. mgr. 8. gr. um friðhelgi einkalífs. Með því að fella niður málin hefur íslenska ríkið brotið gegn jákvæðum skyldum sínum þar sem að það lét fyrirfarast að sakborningur yrði gerður ábyrgur fyrir gjörðum sínum fyrir dómstólum, og ekki verndað andlega eða líkamlega friðhelgi brotaþola. Einnig var vísað til til 1. og 2. mgr. 5. gr. Istanbúl-sáttmálans.

d) 13. gr. um áhrifaríkt og raunhæft úrræði. Þar sem að ákæruvaldið mat og rannsakaði mál brotaþola ekki nægilega, hafa réttindi þeirra samkvæmt Mannréttindasáttmálanum ekki verið tryggð. Konurnar höfðu því ekkert raunhæft tækifæri eða úrræði til að leita réttlætis fyrir dómstólum, enda hefur einungis ríkið saksóknarvald.

e) 14. gr. um bann gegn mismunun. Brotin gegn framangreindum ákvæðum beinast kerfisbundið að konum og því sæta konur sem brotaþolar annarri meðferð en karlmenn sem brotaþolar. Mál sem varða ofbeldisbrot gegn konum sæta sjaldan ákærumeðferð og leiða í undantekningartilvikum til sakfellinga.

f) 3. gr. um bann við pyndingum og vanvirðandi meðferð. Í einstaka tilvikum var rannsókn lögreglu svo ábótavant að það telst vanvirðandi. Eitt mál fyrndist í fórum lögreglu og í öðru máli var brotaþola meinað að leita sér læknisaðstoðar.

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót