Tvö samstarfsverkefni Stígamóta og A.L.E.G í Rúmeníu25. apríl 2015

A.L.E.G eru kvennasamtök sem beita sér gegn ofbeldi í Síbíu í Rúmeníu og hafa verið í samstarfi við Stígamót undanfarið ár. Starfrækt voru tvö verkefni með styrkjum frá Þróunarsjóði EFTA. Þær Anna Þóra Kristinsdóttir og Guðrún Jónsdóttir hafa farið í þrjár ferðir til Rúmeníu vegna beggja verkefnanna og haldið þar fjölda fyrirlestra bæði í Síbíu og í Búkarest og samstarfskonurnar skruppu til Íslands til þess að skipuleggja samstarfið.

SKRUNAÐU

Líkami minn er mín eign

Stærra verkefnið ber  heitið „Líkami minn er mín eign“ og því stýrir Camelia Proca framkvæmdastýra samtakanna.  Um er að ræða umfangsmikið forvarnarverkefni í Síbíu og nágrannahéruðum.  Markhóparnir  eru tveir, annars  vegar ungt fólk á aldrinum 14 – 29 ára og hins vegar  fagfólk úr  öllu þeim starfsstéttum sem koma að  kynferðisofbeldi.  Samstarfskonur  okkar  framleiddu heilmikið fræðsluefni, m.a. þrjú stutt myndbönd sem  eru  til  þess fallin að vekja fleiri spurningar  en  þau svara.  Þær hafa haldið fundi og ástundað fræðslu í skólum með 817 nemendum í litlum hópum og hafa hitt 102 sérfræðinga.  Þær hafa líka veitt ráðgjöf fyrir konur sem beittar  hafa verið ofbeldi, en enn vantar  mikið upp á að þær hafi náð til grasrótarinnar.  Á árinu mættu 12 einstaklingar í viðtöl, 18 fengu ráðgjöf á netinu, 8 fengu lögfræðiráðgjöf og 26 hringdu.

 Stígamótakonur þjálfuðu starfsfólk A.L.E.G. og miðluðu eftir bestu getu starfsaðferðum og vöktu sjálfshjálparhóparnir okkar  sérstakan áhuga.   En Stígamót bentu líka á  að skoða verði ofbeldið í samfélagslegu samhengi, tengja það við jafnréttisbaráttu og beita  hressilegum pólitískum þrýstingi. 

Stígamótakonur tóku virkan þátt í þjálfun fagfólks og héldu fundi með samstarfsaðilum og öðrum kvennasamtökum.  A.L.E.G. konur eru flinkar  að virkja fólk í fræðslunni.  Það  gera þær með verkefnum, hlutverkaleikjum, myndböndum og fleiru.  Fólki var skipt upp í hópa, því fengin dæmi um ofbeldi og kallað var eftir samstarfi, lausnum og verkferlum.   Stígamótakonum brá við yfir þekkingarskorti, reynsluleysi og útbreiddum og miklum fordómum í garð  þeirra stúlkna  og kvenna sem beittar eru  ofbeldi.  Í þjálfuninni komu viðhorf kennara, lögreglu, kvennasamtaka, sálfræðinga  og annarra fagstétta berlega  í ljós og sjónum var fyrst og síðast  beint að  ungum ögrandi stúlkum sem ekki höguðu sér rétt og ábyrgð  þeirra á að  passa sig.  Sú skoðun kom nokkuð oft fram að karlar yrðu alltaf karlar og ekki væri hægt að ætlast til þess að þeir stýrðu sér ef ungar tælandi stúlkur yrðu á vegi þeirra. 

 Þegar þjálfun og þekking eru ekki til staðar og verkferlar engir er ekki von á góðu.  Þá er auðveldara að snúa blinda auganu að veruleikanum og  gera lítið úr ástandinu.  Það er agalegt til þess að hugsa hverju stúlkur og konur mæta ef þær leita  sér  hjálpar og þar að auki þurfa  þær að  leggja út fyrir  lögfræðihjálp.  Það er því ekki skrýtið að fáar  leita hjálpar. En A.L.E.G. konur eru ekki af baki dottnar  og hafa unnið mjög mikilvæga vinnu. Vonandi heldur  hún áfram þó Stígamót dragi sig í hlé. 

Minna verkefnið ber heitið Rjúfum þögnina 

 Irina Costache heldur utanum þetta verkefni sem felst í því að koma á samstarfi kvennasamtaka og virkja  þau í baráttunni gegn ofbeldi.  Haldnir hafa verið reglulegir fundir  og í sameiningu hafa þær vakið athygli á nokkrum kynferðisbrotamálum sem eru lýsandi fyrir máttleysi þeirra sem ættu að bregðast við.  Þær hafa líka framleitt fræðsluefni og eitt af þeim verkum sem þær réðust í var að búa til áskorunarskjal til lögreglu um hvernig taka ætti á kynferðisbrotamálum. Þær skiptu með sér  lögreglustöðvum og umdæmum, hittu lögreglumenn, komu á framfæri ábendingum sínum og fengu mjög misjöfn viðbrögð.  Verkefninu lauk með ráðstefnu í Búkarest þar sem saman komu hátt sett og valdamikið fólk ásamt kvennasamtökum.  Um var að ræða mikilvægt  stefnumót og umræður voru miklar og heitar.  Vonandi kviknuðu nokkur ljós.  Verkefnið mun halda áfram næsta ár, en án þátttöku Stígamóta.

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót