Vettvangur glæps

Þolendur kynbundins ofbeldis eru meira en vettvangur glæps!8. febrúar 2022

Við sættum okkur ekki við það að þolendur ofbeldis séu vitni í eigin kærumálum. Við krefjumst þess að brotaþolar fái aðild að málum sínum og sambærileg réttindi á við sakborninga.

SKRUNAÐU

Í dag stíga fram fimm hugrakkar konur og fara fyrir áskorun á dómsmálaráðherra um að brotaþolar fái formlega aðild að málum sínum í réttarkerfinu. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa verið beittar ofbeldi og reynt að leita réttar síns. Þær upplifðu vanmátt, útilokun og virðingarleysi í vegferð sinni í gegnum réttarkerfið og að kerfið sjálft væri ómannúðlegt.

„Að fara í gegnum kæruferli var áfall ofan í áfallið. Ég myndi aldrei leggja það á mig aftur.“ – Hafdís

Á næstu vikum mun dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, leggja fram frumvarp um bætta réttarstöðu brotaþola. Við skorum á dómsmálaráðherra að stíga skrefið til fulls og veita brotaþolum aðild, eða flest þau réttindi, sem sakborningar njóta. Nú er tækifærið til að stíga skref í áttina að bættu samfélagi með réttarkerfi sem tekur almennilega á kynbundu ofbeldi.

Kynferðisofbeldi og annað kynbundið ofbeldi er til þess fallið að afmennska og hlutgera þolendur. Það skýtur því skökku við þegar réttarkerfið viðheldur hlutgervingunni með því að skilgreina brotaþola sem vitni í eigin máli með afar takmörkuð réttindi.

„Eftir að ég lagði fram kæru til lögreglu missti ég röddina, á mig var ekki hlustað og um leið og saksóknari tók málið í sínar hendur upplifði ég að réttur minn væri hrifsaður af mér, ég varð utangátta.“ – Þórdís

Í meðförum réttarkerfisins verður líkami brotaþola að vettvangi glæps og brotaþoli er smættaður niður í viðfang réttarkerfisins í máli sem er einungis talið varða ríkið annars vegar og sakborning hins vegar. Ofbeldi er oftar en ekki framið í skjóli valds, yfirráða og sterkari samfélagsstöðu og er það því í hrópandi mótsögn við réttlætiskennd okkar flestra að sakborningurinn njóti meiri réttinda en manneskjan sem ásakar hann um brot.

„Það sem hafði hvað mest áhrif á mig er reiðin gagnvart niðurfellingunni og sú staðreynd að ég gat ekkert aðhafst meira í mínu máli. Það er eitt þegar óbreyttur borgari brýtur á manni, en annað þegar kerfið sem ég treysti á lét ekki á það reyna að koma málinu áfram.“ – Linda Björg

Staðan í dag í réttarkerfinu er slæm. Meirihluti kynferðisbrotamála og mála sem varða ofbeldi í nánum samböndum eru felld niður og hljóta því ekki áheyrn dómstóla. Eftir að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu heyra brotaþolar oft ekki af málinu fyrr en það er fellt niður. Væru brotaþolar aðilar málsins fengju þeir að skoða málsgögn áður en tekin er ákvörðun um afdrif málsins og gætu þá leiðrétt rangfærslur eða misskilning og jafnvel lagt fram viðbótar sönnunargögn. Þannig er hægt að auka gæði lögreglurannsókna.

 „Eftir heilt ár af þögn kom niðurfellingarbréfið óvænt. Það var algjört áfall, ég var andlega algjörlega óviðbúin niðurfellingu. Enda var ég ekki sú fyrsta sem kærði hann.“ – Júnía

Staðan er líka slæm þegar litið er til þess að fjöldi brotaþola finnst aftur á sér brotið í réttarkerfinu. Það er lágmarkskrafa að brotaþolar beri ekki aukinn skaða af því að kæra kynbundið ofbeldi. Þegar betur er heima setið en af stað farið er eitthvað mikið að kerfinu.

„Þá staðreynd að kæran hafi valdið mér meiri skaða en gerandanum er erfitt að sætta sig við.“ – Sigrún Emma

Vissulega þarf að laga marga þætti: Lögreglan er undirmönnuð, betur mætti gera í fræðslu og endurmenntun auk þess sem enn er viðhorfsvandi á ýmsum stöðum. En nú er hér bent á lagalegt atriði sem er augljóst réttlætismál – þetta er hægt að laga með lagasetningu og það myndi strax styrkja stöðu þolenda kynbundins ofbeldis sem leita réttar síns.

Ef þetta skref verður ekki stigið er ómögulegt að líta á það öðruvísi en svo að ekki sé raunverulegur vilji til staðar til að hlúa betur að þolendum kynbundins ofbeldis.

Ráða mátti af orðum dómsmálaráðherra í Kastljósi í síðustu viku að hann hefði áhyggjur af því að aukin réttindi brotaþola myndu mögulega veikja stöðu þeirra. Í dag eru brotaþolar aðilar máls í Finnlandi, og í Noregi hafa þeir að mestu  sambærileg réttindi á við sakborninga. Ekkert bendir til þess að slík réttindi veiki stöðu þeirra

Ef við viljum búa til mannúðlegra réttarkerfi sem tryggir betur gæði rannsókna þá gerum við þolendur kynbundins ofbeldis að aðilum máls.

Viljir þú sýna í verki að þú styðjir þessa réttlætiskröfu geturðu skrifað undir áskorun til dómsmálaráðherra.

 

 

 

Fleiri greinar

Hafa samband

Senda fyrirspurn

Ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að senda okkur línu.

Panta tíma

Það er aldrei of seint. Pantaðu tíma núna.

Hafa Samband möguleikar Stígamót